Bann við rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi er gríðarlegt áfall fyrir byggðirnar við Djúp. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til algjört bann við rækjuveiðum í vetur, bæði í Djúpinu og í Arnarfirði. Gunnar Torfason gerir út rækjubátinn Halldór Sigurðsson ÍS. Hann segir tíðindi dagsins gríðarlegt áfall fyrir útgerðir, sjómenn og landverkafólk. „Það eru um 15 sjómenn sem hafa starfað við rækjuveiðar á veturna og það verður ekkert fyrir þá að gera. Þetta er ekki síður áfall fyrir rækjuverksmiðjuna Kampa og starfsfólkið þar sem hefur verið að þreyja þorrann með rækju úr Djúpinu,“ segir Gunnar.
Rækjusjómenn eru ekki á eitt sáttir með verklag Hafrannsóknastofnunar þegar kemur að rækjurannsókninni. „Við höfum gagnrýnt að það hefur verið tekið svokölluð hálf-rannsókn síðustu ár og sú rannsókn miðar frekar að því að kanna hvað er mikið af fiski í Djúpinu frekar en að kanna hvað er mikið af rækju. Það hefur ekki verið farið á þekktar rækjuslóðir í Hestfirði og út af Óshlíðarvita,“ segir Gunnar.
Síðustu ár hefur verið farið í febrúarrannsókn þar sem ástand rækjustofnsins er kannað og hafa heimabátarnir verið notaðir í þá rannsókn. Gunnar gerir ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun geri þessa rannsókn. „Febrúarrannsóknin mun vonandi leiða í ljós að það sé frekari rækju að finna,“ segir Gunnar.
smari@bb.is