Í dag hefst vinnustofa í Háskólasetri Vestfjarða sem ber titilinn „Sustainability Transitions in the Coastal Zone“ sem gæti útlagst sem; sjálfbærar breytingar strandsvæða.Vinnustofan er styrkt af Regional Studies Association og er samstarfsverkefni Háskólasetursins, Southern Connecticut State háskólans í Bandaríkjunum og John Moors háskólanum í Liverpool í Bretlandi. Vinnustofan sem fram fer hér á Ísafirði er sú fyrsta af fjórum sem verða haldnar næstu tvö árin. Markmið vinnustofanna er að koma á fót rannsóknarneti á milli þessara þriggja stofnanna. Þátttakendur munu greina og ræða möguleg rannsóknarverkefni sem snúa að margskonar breytingum sem tengjast sjálfbærni strandsvæða. Meðal umræðuefna eru sjávareldi, ferðamennska og sjávarútvegur.
Fólki utan Háskólasetursins er boðið að taka þátt í vinnustofunni, leggja til hugmyndir og ræða möguleg rannsóknarefni sem fyrirhugað rannsóknarnet gæti fengist við. Þessi opni hluti vinnustofunnar fer fram föstudaginn 20. janúar milli klukkan 13:30 og16:00 í stofu 3 í Háskólasetrinu. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu vinnustofunnar á heimasíðu Regional Studies Association.