Vestfjarðavegur um Gufudalssveit.
Skipulagsstofnun samþykkti á sínum tíma að vegur yrði lagður yfir Þorskafjörð milli Kinnarstaða og Þórisstaða. En nokkur næstu ár snerust um ýmsar aðrar leiðir.
Nú árið 2017 er enn tekist á um framtíðarfyrirkomulag á Vestfjarðavegi, hvort valin verði leið ÞH um Hallsteinsnes o.fl. eða jarðgöng undir Hjallaháls samkvæmt leið D2. Þverun Þorskafjarðar milli Kinnarstaða og Þórisstaða virðist vera í uppnámi
Óhjákvæmilegt er að meta þverun Þorskafjarðar þannig að hún verði ódýrari ef unnt yrði að nota til vegagerðarinnar efni sem losnar við jarðgangagerðina.
Jarðgöngin myndu einnig á sama hátt verða hagkvæmari ef unnt yrði að nýta efni sem þar losnar til vegarins yfir Þorskafjörð. Lengd þverunarinnar er um 1 km, lengd Jarðgangna um 3,9 km. Jafnframt yrði unnt að nota efni úr jarðgöngum til þess að stytta leiðin fyrir Djúpafjarðarbotn um 1-2 km.
Ef veglínan ÞH verður valin þá liggur hún um tún og ræktarlönd á Skálanesi, og spillir þeirri jörð og landslagi mjög. Brúaður Gufufjörður, um Grónes, brúaður Djúpifjörður. Vegurinn og brúin teppa alveg siglingaleiðina inn á Djúpafjörð og útilokar sjávarnytjar sem þar hafa verið og kynnu að aukast.
Yst á Hallsteinsnesinu tengist nýr vegur að Djúpadal 8 km langur við Vestfjarðaveg. Þar fæst staðfesting á því að þessi ágæti bær sem alltaf hefur verið í þjóðbraut, verður, ef valin yrði leið ÞH, mjög afskekktur. Póstkassinn á staur við Vestfjarðaveg í 8 km fjarlægð. Gufudalsbæirnir, 4 hús, fá póstkassa í 5 km fjarlægð.
Vestfjarðavegur liggur um mishæðótt land frá Hallsteinsnesi að Gröf.
Efnisnám til vegarins er kynnt að fáist úr vegstæðinu og mun þá einkum vera klappir og kurl. Um 1 miljón rúmmetra.
Þegar vegurinn frá Skálanesi að Þórisstöðum hefur náð endum saman þá er loksins hægt að fara að nota veginn. Það er vissulega mikill áfangi sem hugsanlega væri lokið árið 2025. Þegar vegurinn er fullunninn við Þórisstaði, þá mun koma upp ný áhersla. “Nú hefur Vestfjarðavegur verið tengdur við malbikaðan veg . “Þorskafjörð verður ekki unnt að brúa að svo stöddu.” Stopp.
Þetta sjónarmið hefur nú þegar skotið upp kollinum. Það kom fram á íbúafundi á Ísafirði fyrir skömmu.
Ekki er boðlegt að ætla Sveitarstjórn Reykhólahrepps að taka afstöðu til legu vegarins um Gufudalssveit án rannsókna til undirbúnings jarðganga undir Hjallaháls. Vegagerðin hefur afvegaleitt hönnun leiða og endurbætur vegakerfisins í Gufudalssveit. Leið D2 hefur farið nokkuð halloka við hönnun Vegagerðarinnar. Skipulagsstofnun hefur bent á nokkrar fastar forsendur fyrir því að velja ekki leið ÞH. Vegagerðin þráast við og virðist álíta lög og reglur aukaatriði.
Samfélag íbúa Reykhólahrepps er ekki Vesturbyggð og ekki Ísafjarðarbær. Þar er ekki okkar samfélag. Þungur áróður Vestfirðinga í þá átt að setja sérlög til þess að knýja fram framkvæmdaleyfi Reykhólahrepps á veglínu ÞH er grimmdarleg íhlutun um val á veglínu sem hentar illa fyrir daglegt líf íbúa Gufudalssveitar og er ekki á nokkurn hátt betri eða auðveldari leið fyrir aðra Vestfirðinga en leið D2. Auk þess sem spjöll á ósnortinni náttúru yrðu yfirþyrmandi á leið ÞH. Veglínan D2 er ekki verri lausn fyrir Vestfjarðaveg en leið ÞH. Leið D2 lægi um brú yfir Þorskafjörð milli Kinnarstaða og Þórisstaða um Jarðgöng 3,9 km undir Hjallaháls. Um brú á Djúpafjörð utar en Hólmarif og Vesturlína.
Vegagerðinni ber að endurbæta hönnun vegarins yfir Ódrjúgsháls og leggja veginn yfir hálsinn þar sem hann er lægstur spöl sunnar en vegurinn nú er. Þar mun unt að leggja veginn í 100 m hæð yfir hálsinn með um 5- 6% halla.
Skipulag okkar í dag er fyrst og fremst ekki í okkar þágu . Líftími þess skipulags sem við gerum nú verður að vera meira en 100 ár. Skipulagið verður að vera svo gott að ekki verði þörf á að endurbæta legu Vestfjarðavegar næstu 200 ár.
Hver verður Sjávarstaðan þá. Og hversu oft þurfti að endurbyggja brýrnar og hækka veginn.? Hjallaháls er tæpast fjall á Vestfirska vísu, þar er þó oft hvassast á landinu.
Jarðgöng í Hjallaháls myndu tryggja Þverun Þorskafjarðar og styttingu Vestfjarðavegar um 10 km. Það má vera krafa allra hlutaðeigandi að Vegagerðin hefji nú þegar rannsóknir á berglögum í Hjallahálsi til undirbúnings jarðgangnagerð.
Reynir Bergsveinsson