Söngveisla í Hömrum

Mynd: mbl.is / Golli

Tónlistarfélag Ísafjarðar stendur fyrir sannkallaðri söngveislu í Hömrum sunnudaginn 19. nóvember. Ein skærasta stjarnan á íslenska sönghimninum, Elmar Gilbertsson, ætlar að syngja ljóðasöngva og aríur og meðleikari hans á píanó er Helga Bryndís Magnúsdóttir. Elmar Gilbertsson útskrifaðist frá Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2007. Eftir það lá leiðin til Amsterdam í Hollandi þar sem hann lagði stund á mastersnám í óperusöng við Tónlistarháskólann í Amsterdam og Konunglega tónlistarháskólann í Haag.  Kennarar hans þar voru Jón Þorsteinsson og Peter Nilson.  Eftir námið var Elmar tekin inn í Óperustúdíó Hollensku óperunnar þar sem hann starfaði í tvö ár. Hann fékk fastráðningu og síðar gestaráðningu hjá óperunni í borginni Maastricht. Elmar hefur á sínum stutta ferli sungið og túlkað allnokkrar af persónum óperubókmenntanna.

Má þar meðal annars nefna Tamino í Töfraflautunni, Don Ottavio í Don Giovanni, Ferrando í Cosí fan tutte, Alfred í Leðurblökunni, Elvino í La Sonnambula, Nerone í Krýningu Poppeu og Kúdrjás í Katja Kabanova eftir Janáček. Elmar hefur á síðustu árum komið víða fram í óperuhúsum og tónleikasölum í Evrópu og meðal næstu verkefna hans verður óperuhátíðin Festival d´Aix en Provence í Suður-Frakklandi þar sem hann mun syngja í Töfraflautu Mozarts, Leðurblakan eftir Strauss í Maastricht-óperunni og uppsetning á Katja Kabanova eftir Janáček í Toulon-óperunni í Frakklandi.

Helga Bryndís Magnúsdóttir.

Helga Bryndís Magnúsdóttir hóf tónlistarnám við Tónlistarskólann í Vestmannaeyjum. Síðar nam hún við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi sem einleikari og píanókennari árið 1987. Aðalkennari hennar þar, var Jónas Ingimundarson píanóleikari. Framhaldsnám stundaði Helga Bryndís hjá Leonid Brumberg í Vínarborg, Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila í Helsinki. Eftir að námi lauk hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi bæði sem einleikari og í kammermúsik ýmiskonar og þá ekki hvað minnst með söngvurum.

smari@bb.is

DEILA