Að líkamna huglæga upplifun

Jónas Sen og Sigríður Soffía í hlutverkum sínum.

Það er ekki á hverjum degi sem Ísfirðingum og nærsveitungum er boðið upp á samtímadansverk í fremsta flokki. Og þeir sem voru orðnir óþreyjufullir í biðinni, þurfa ekki að örvænta því í fyrstu viku febrúar verður dansleikhúsverkið FUBAR sýnt í Edinborgarhúsinu. Verkið er unnið út frá tíma, segir í kynningu og ennfremur:

„Hvernig klukkutími getur liðið eins og mínúta þegar þú upplifir eitthvað frábært og hvernig tíminn virðist stoppa þegar upplifunin er hræðileg. Dansarinn líkamnar huglæga upplifun.“

Verkið er eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur og Jónas Sen tónskáld frumsemur tónlistina við verkið. Tónlist og dans hafa fæðst saman í spunum á vinnuferlinu þar sem listamennirnir vinna báðir útfrá sama efninu og þannig myndast djúp tenging tónlistar og hreyfinga.

Verkið er dansleikhúsverk þar sem ekki einungis er dansað heldur er texti, söngur, vélmennadans, lifandi hljóðfæraleikur og búningar úr smiðju tískuhönnuðarins Hildar Yeoman áberandi.

smari@bb.is

DEILA