Sigurganga Vestra á heimavelli hélt áfram á föstudag þegar liðið lagði Hamar í íþróttahúsinu á Torfnesi, 93 : 81. Leikurinn var fjörugur, hraður og skemmtilegur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þeir Nökkvi Harðarson og Nemanja Knezevic voru bestu menn vallarins í kvöld, Nökkvi með 36 framlagspunkta og Nemanja með 35. Nökkvi átti án efa sinn besta leik til þessa í fyrstu deildinni og daðraði við þrennu með 26 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Nemanja var að vanda með tröllatvennu með 22 stig og 25 fráköst auk 3 stoðsendinga.
Vestri er í öðru sæti deildarinnar með 10 stig. Skallagrímur vermir efsta sætið, einnig með 10 stig en hefur spilað einum leik færra.
Nokkur bið er eftir næsta heimaleik Vestra en hann verður 1. desember.