Ásmundur Einar Daðason, oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, var oftast strikaður út í þingkosningunum á laugardaginn miðað við þrjá efstu frambjóðendur eða samtals 105 sinnum. Þetta kemur fram í upplýsingum frá yfirkjörstjórn kjördæmisins. Næstur kemur Guðjón S. Brjánsson, oddviti Samfylkingarinnar, með 48 útstrikanir.
Bjarni Jónsson, annar maður á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, kemur þar næst með 40 útstrikanir og síðan Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti VG, með 39 útstrikanir. Haraldur Benediktsson, oddviti Sjálfstæðislflokksins, var strikaður út 35 sinnum.
Stefán Vagn Stefánsson, þriðji maður á lista Framsóknarflokksins var strikaður 19 sinnum út, Rúnar Gíslason, þriðji maður á lista VG, 17 sinnum og sama á við um Teit Björn Einarsson, þriðja mann á lista Sjálfstæðisflokksins.
Fimmtán strikuðu yfir nafn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, sem var önnur á lista Framsóknarflokksins, og sama á við um Bergþór Ólason, oddvita Miðflokksins. Nafn Þórdísar Kolbrúnar Reykjfjörð Gylfadóttur, sem var önnur á lista Sjálfstæðisflokksins, var strikað út 14 sinnum.
Fjórir strikuðu út nafn Sigurðar Páls Jónssonar, annars manns á lista Miðflokksins, og jafnmargir nafn Örnu Láru Jónsdóttur, sem var önnur á lista Samfylkingarinnar. Þá strikuðu þrír út nafn Jónínu Bjargar Magnúsdóttur, sem var þriðja á lista sama flokks.