Ekki kunnugt um bærinn verði af skatttekjum

Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra í Bolungarvík, er ekki kunnugt um að bæjarsjóður verði af tekjum vegna skattgreiðslna einkahlutafélaga – en þær  renna í ríkissjóð en ekki til sveitarfélaga . Bókun Péturs G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, við afgreiðslu á fjárhagsáætlun hefur vakið athygli. Útsvarstekjur sveitarfélagsins minnkuðu umtalsvert milli ára og Pétur telur líklegustu skýringuna vera að einkahlutafélögum sem eigendur taka sína einkaneyslu í gegn hefur fjölgað í sveitarfélaginu. Jón Páll segir að hann hafi ekki ástæðu til annars en að fyrirtæki og einstaklingar fari eftir lögum og reglum en telur að það væri fagnaðarefni ef sveitarfélög fengu aukinn hlut í heildarskattheimtu ríkisins. „Sveitarfélögin eru mörg hver mikið skuldsett og þurfa sárlega fé í framkvæmdir og uppbyggingu innviða,“ segir hann.

Gagnrýni á skiptingu – eða öllu heldur enga skiptingu – skattgreiðslna einkahlutafélaga milli ríkis og sveitarfélaga er ekki ný af nálinni. Fyrir fjórtán árum ræddi blaðamaður Morgunblaðsins við Einar Pétursson, þáverandi bæjarstjóra Bolungarvíkur. Þá hafði einkahlutfélögum fjölgað um 58% í Bolungarvík frá ársbyrjun 2001. Fjölgun á landinu öllu á sama tímabili var um 30%. Þessi fjölgun einkahlutafélaga hafði í för með sér verulegt tekjutap fyrir sveitarfélagið þar sem stærsti tekjustofn þess sé útsvar og það lækki af þessum völdum.

Lítið hefur breyst í skattaumgjörðinni fyrir utan að tekjuskattur fyrirtækja er hærri í dag (20%) en fyrir hrun, þegar hann hafði verið lækkaður verulega.

smari@bb.is

DEILA