Byggðamál

Byggðamál snúast fyrst og fremst um að byggja upp innviði í landsbyggðunum. Gott vegasamband tryggir  vöru og þjónustu að og frá landsbyggðunum og treystir atvinnuuppbyggingu. Samgöngur í lofti og á sjó tryggir enn betur öryggi íbúa landsbyggðanna. Öruggt raforkukerfi treystir viðgang atvinnulífsins. Gott fjarskiptakerfi stuðlar að jafnari stöðu allra íbúa til orðs og æðis. Traust heilbrigðis- og velferðarkerfi er öllum nauðsynlegt sem og aðgengi að góðu menntakerfi. Sauðfjár- og hrossabúskapur skapar festu í mörgum byggðum.

Það sem liggur fyrir ef við meinum eitthvað með að byggð verði sem víðast í landinu er að:

  • Treysta vegasamband umhverfis landið og milli byggða.
  • Koma á verðjöfnunarkerfi í flutningum
  • Efla flugsamgöngur með því að styrkja innanlandsflug til fleiri staða
  • Efla fjarskiptasjóð til að flýta fyrir öruggari tengingu í byggðunum
  • Stórefla heilsugæsluna þar sem rekstrarformið þarf ekki að vera bitbein
  • Viðurkenna að sauðfjárbúskapur er byggðamál og beina stuðningi við greinina í þá átt.
  • Veita meira fé til skógræktar, landgræðslu og landbóta

Við verðum að vera opin fyrir því að sumar nýframkvæmdir í vegagerð þarf að fjármagna með notendagjöldum. Við vitum að tekjur ríkissjóðs duga ekki til að fjármagna það allt saman. Fyrir utan það hvað það er mikilvægt að umferðaröryggis er gætt þá er tómt mál að tala um að viðhalda byggð sem víðast nema að vegasamband umhverfis landið og milli byggða er sem traustast.  Það hvað er t. d. dýrt að byggja í landsbyggðunum utan höfuðborgarsvæðisins kallar á verðjöfnun í flutningum. Það hefur sýnt sig nú þegar þýðing ljósleiðaratengingar víða um dreifbýlli hluta landsins og er alls ekki eins dýrt og ætla mátti. Það er því vel varið fjármagn sem í þetta hefur farið og mætti auka. Við verðum líka að hraða styrkingu dreifikerfis rafmagns með því að endurnýja það hraðar en t.d. Rarik stefnir að. Til þess þarf meira fjármagn en dreififyrirtækin geta sett í verkefnið. Ég hygg að allir skilji að við verðum að hafa eitt sjúkrahús sem þjónar öllu landinu við greiningu og meðhöndlun margra sjúkdóma. Það er því ekki bara nauðsynlegt að tryggja Landsspítalanum nægt rekstrafé heldur þarf að skoða allt heilbrigðiskerfið í heild sinni. Í því sambandi þarf að tryggja að allir íbúar geti notið kerfisins óháð búsetu. Þannig þarf að stórauka fjármagn til sjúkraflutninga og ferðastyrkja til íbúa sem þurfa að fara um langan veg til að sækja þjónustu. Stofnanir og fyrirtæki hins opinbera eiga að koma á móts við starfsfólk sitt sem þarf að sækja sér sérfræðiaðstoðar þannig að starfsfólkið verði ekki að taka þetta sem orlof. Gera verður samninga við fyrirtæki á almenna markaðinum sem tryggir að þeirra starfsfólk þurfi ekki að klípa af orlofi sínu vegna þessa. Heilsugæsluna þarf að stórefla um allt land líka á höfuðborgarsvæðinu og það er ekkert nauðsynlegt að hún sé öll rekin af ríkinu. Yfirleitt er landbúnaður tengdur við byggðamál, ekki síst sauðfjárræktin. Í núgildandi samningi er sett fjármagn til svæðisbundins stuðnings (8. gr.). Þá er samkvæmt samningnum heimilt að færa stuðningsgreiðslur milli liða. Ég sé ekki annað en að sauðfjárrækt og hrossarækt eru samofin við byggð í mörgum landsbyggðum en skipta minna máli í öðrum byggðum. Það er því óhjákvæmilegt að viðurkenna það að stuðningur við þessar búgreinar geta verið mismunandi eftir landsbyggðum. Skógrækt, landgræðsla og landbætur ýmiskonar eru líka byggðamál. Í ljósi þess að við erum aðilar að Parísarsamkomulaginu um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda tel ég að það er tiltölulega ódýr leið fyrir ríkið að stórauka fjármagn til þessara málaflokka.

Það er ljóst að það kostar að viðhalda byggð sem víðast, en eru kostirnir ekki mun meiri en gallarnir? Hvernig á að fjármagna allt þetta er efni í aðra grein og snýr að tekjum ríkissjóðs og hvernig þeirra er aflað.

Gunnar Rúnar Kristjánsson, bóndi

Skipar 5 sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi

DEILA