Íþróttafélagið Ívar hélt 14. fyrirtækjamót sitt í boccia sl. sunnudag og í ár voru 36 lið skráð til leiks en 25 lið tóku þátt í keppninni sjálfri. Að sögn mótshaldara var stemningin var góð og höfðu allir mjög gaman af. Heyrðist að sumir ætluðu að koma aftur á næsta ári, en það hefur alltaf verið góður andi og gaman á þessum fyrirtækjamótum.
Til úrslita kepptu eitt af liðum Hraðfrystihússins Gunnvarar ehf. og Kampa ehf. og hafði lið Hraðfrystihússins betur og sigraði keppnina í ár. Ívar hefur boðist til að manna lið fyrir fyrirtæki ef þau vilja og í ár var sigurliðið mannað liðsmönnum Ívars þeim Emilíu Arnþórsdóttur og Magnúsi Guðmundssyni.
Veitt voru ýmis aukaverðlaun en Ívar hefur m.a. hvatt vinnustaði til að mæta í vinnufatnaði / einkennisfatnaði eða öðrum búningum til að lífga upp á mótið.
Verðlaun fyrir bestu búninga hlutu Hafnir Ísafjarðarbæjar.
Verðlaun fyrir bestu liðsheild hlaut Hamraborg.
Verðlaun fyrir mestu tilþrif hlaut TM.
Og verðlaun fyrir hæsta skor í leik hlaut Ísafjarðarbær 1 sem sigraði 11-0 í einum leikja sinna.
Fyrirtækjamótið er helsta fjáröflun Ívars og er því mjög mikilvægt fyrir félagið, mótið er líka öðruvísi að því leyti að fyrirtækjum gefst kostur á að vera með hópefli og taka þátt í leiknum.
Á næsta ári verður Íþróttafélagið Ívar 30 ára og þá verður fimmtánda fyrirtækjamót Ívars í Boccia haldið og til stendur að gera það með glæsibrag.
bryndis@bb.is