Forsendubrestur í sauðfjárrækt

Aðalbjörg Óskarsdóttir

Nú sér fyrir endann á annasömum tíma í sveitum landsins. Út um allt land hafa vaskir smalar hlaupið uppi fé og rekið heim og dilkar sjaldan verið vænni að hausti. En nú horfir svo við að afurðarstöðvar hafa lækkað verð umtalsvert, eða um það bil 35%, og hafa bændur miklar áhyggjur af lífsafkomu sinni. Þeir sem hafa lagt í fjárfestingar á tækjum og húsakosti sjá fram á að geta ekki greitt af lánum að öllu óbreyttu. Eins og staðan er í dag þá fá bændur varla upp í framleiðslukostnað án þess að taka tillit til launa. Það er því forgangsatriði að sauðfjárbændum verði séð, strax í haust, fyrir leiðréttingu þess gríðarlega vanda sem 35 % verðskerðing í haust til viðbótar 15 % verðskerðingar á s.l. hausti á framleiðslu þeirra  mun hafa í för með sér. Í framhaldi af því þarf að vinna að framtíðarlausn með bændum, lausn til bjargar bændum, lausn til bjargar byggð þar sem búfjárrækt er ein af stoðum samfélagsins, lausn sem viðheldur byggð á Íslandi öllu. Að þessu er Miðflokkurinn tilbúinn að vinna fái hann til þess styrk.

Verði ekkert að gert má reikna með gjaldþrotum bænda um allt land og eftir standi jarðir ónýttar og landsbyggðin gjörbreytt og veik. Líklegt má telja að ungt fólk sem nýlega hefur lagt í fjárfestingar til framtíðar, jörð, bústofn og vélar, gefist fyrst upp eða verði gjaldþrota, ásamt því að ungu fjölskyldufólki verður gert ókleift að hefja búskap við slíkar aðstæður. Þannig staða er óásættanleg  í hverri atvinnugrein og ógn við byggð og samfélag þar sem  hún er ein megin stoða búsetunnar.

Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á matvælaöryggi og að það eigi að vernda matvælaframleiðslu á Íslandi.  Það þarf varla að fjölyrða um kosti íslenska sauðfjárins, en notkun sýklalyfja er með því minnsta í heimi og það að fé sé „frjálst á fjalli“ allt sumarið og fái að njóta þess sem náttúran hefur upp á bjóða hlýtur að setja það í sérflokk og ætti að vera hægt að markaðsetja sem slíkt. Einnig þurfa afurðarstöðvarnar að leggja metnað í sölu og  framsetningu vörunnar.

Miðflokkurinn telur afar mikilvægt að sauðfjárbúskapur dafni á Íslandi bæði fyrir bændur en líka fyrir Íslendinga  alla enda mikill metnaður flokksins að landið haldist allt í byggð.

Aðalbjörg Óskarsdóttir

  1. sæti Miðflokksins í Norðvesturkjöræmi.
DEILA