Atvinnu- og menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar hefur lokið afgreiðslu á haustúthlutun á styrkjum til menningarmála. Til ráðstöfunar núna voru 650 þúsund krónur og hlutu fimm verkefni náð fyrir augum nefndarinnar. Hæsti styrkurinn, eða 235 þúsund krónur, kemur í hlut Skóbúðarinnar – hversdagssafns, til að halda námskeið í skapandi skrifum. Hjónaballsnefnd 2017 fær 150 þúsund króna styrk til að halda hjónaball. Kvennakór Ísafjarðar fær 100 þúsund krónur vegna jólatónleika. Eyþór Jóvinsson fær 100 þúsund króna styrk vegna endurútgáfu á bókinni Aldarfar og örnefni í Önundarfirði. Gamla bókabúðin á Flateyri fær 65 þúsund króna styrk til að halda ljósmyndasýningu í tilefni 100 ára afmælis verslunarinnar Bræðranna Eyjólfssona.
smari@bb.is