Eldri borgarar eru fólkið sem er búið að standa vaktina. Skila sínu. Þessi hópur fólks er búinn að greiða skatta og skyldur í áratugi til samfélagsins. Maður skildi ætla að einhver hluti þess fjár væri ætlaður til þess að fólk gæti átt áhyggjulaust ævikvöld. Það var allavega hugmyndin og það hefur verið réttlæting hárra skatta, að við greiddum hluta þeirra í samtrygginguna. Ellilífeyrir er ekki bætur eins og ýjað hefur verið að. Þetta eru peningar sem fólk lagði inn í samtrygginguna og á svo að fá seinna þegar vinnudegi líkur án skerðinga. Sumir hafa lagt fyrir og hafa lífeyri annarsstaðar frá. Það er gott en ætti ekki að rýra rétt til lífeyris frá tryggingastofnun. Þeir sem hafa atorku og elju fram eftir aldri ættu að fá að vinna ef þeir vilja, jafnvel fyrir fullum launum án skerðinga. Þau ættu að vera markaðslaun í hverri grein. Þetta mundi gera eldri borgurum kleift að stunda vinnu ef heilsan leyfir og mundi vera hvetjandi fyrir fyrirtæki að halda þessu fólki í vinnu í mörgum tilfellum. Við þurfum nauðsynlega á vinnufúsum höndum að halda og það er staðreynd að þekkingin og reynslan sem þetta fólk býr yfir og getur miðlað til yngri kynslóða og út í atvinnulífið verður ekki metin til fjár. Ekki síst núna þegar okkur bráðvantar vinnufúsar hendur og iðn og tækniþekking er gulls ígildi. Hitt er jafn mikilvægt að fá að eldast með reisn, geta framfleytt sér og sínum og haldið sjálfstæði eins lengi og líkamleg og andleg heilsa leyfir. Sveigjanleg starfslok eru sjálfsögð mannréttindi.
Hið sama á við um öryrkja, sumir eru 100% öryrkjar og geta engu bætt við en margir eru metnir öryrkjar að hluta. Þar þyrfti að leggja áherslu á að atorka þ.e. getan til vinnu yrði metin. Það er því er afar mikilvægt að fólk hafi réttinn til að afla þeirra tekna sem mögulegt er án skerðinga. Það leiðir af sér betri afkomu fyrir þann sem lifir við örorku og eykur framleiðni samfélagsins. Jákvæð félagsleg áhrif bæði á öryrkjan og samfélagið í heild hljóta að vera óumdeild. Það er einnig svo að margir glíma við örorku sem er af geðrænum og / eða líkamlegum toga og þessháttar örorka er ekki í öllum tilfellum lífstíðardómur, heldur tímabil í lífinu sem er erfitt. Það stóreykur líkur á bata ef fólk getur tekið þátt í atvinnulífinu án þess að bætur skerðist þess vegna.
Miðflokkurinn mun beita sér fyrir að lífeyrir og örorkubætur fylgi lágmarkslaunum og skerðist ekki við atvinnuþátttöku.
Gerum sáttmála.
-Sterkar grunnstoðir samfélagsins fyrir alla, Ísland allt.
-Leyfum einstaklingnum að njóta sín eins og hann er.
-Frelsi til athafna og skoðana svo fremi að það frelsi hefti ekki eða skerði frelsi annara.
-Berum virðingu hvert fyrir öðru, sjálfum okkur, landinu, menningu og tungumálinu.
-Byggjum upp betra samfélag og gerum það af skynsemi og án öfga.
-Sameinumst um skynsamlegar lausnir til að ná settum markmiðum
Jón Þór Þorvaldsson
Frambjóðandi Miðflokksins NV kjördæmi