Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki. Hvernig komst hún þangað?
Jú, vegna þess að það faglega ferli sem pólitíkin ákvað að nota til að raða virkjunarkostum lagði það til einróma til og þar hefur hún verið um árabil án athugasemda. Hvalárvirkjun er samt aðeins hluti af þeim tækifærum sem við viljum nýta. Með traustum rökum má benda á allt að 135 MW framleiðslugetu mögulegra virkjana á Vestfjörðum. Eru þá samt vantaldir margir smærri kostir. Smærri virkjanir sem sóma sér vel sem byggðfestuverkefni til dæmis á einstökum bújörðum. Verkefni sem við höfum fjallað sérstaklega um í fundaröð okkar um nýja byggða- og landbúnaðarstefnu; Látum Ísland allt blómstra.
En það sem fáir virðast minnast á er hversu miklu máli virkjanir á Vestfjörðum geta skipt. Virkjun í Hvalá og Austurgilsvirkjun og margar fleiri geta í raun haft mikla þýðingu fyrir landið allt. Helsti veikleiki okkar landsmanna i raforkuframleiðslu er að við treystum mjög á vatnasvæði sem er í áhættu vegna jarðhræringa. Þjórsársvæðið og virkjanir í henni eru þungamiðja framleiðslunnar – en á sama tíma geta eldsumbrot á hálendi Íslands lamað eða skaðað til lengri eða skemmri tíma framleiðslu þar.
Skiptir þá ekki máli að við hugum að því að dreifa raforkuframleiðslu okkar á svæði þar sem við getum verið öruggari fyrir slíkum áföllum? Er ekki einfaldlega þjóðfélagslegt öryggismál að framleiða rafmagn á Vestfjörðum? Það er meinloka að flytja eigi orkuna frá Vestfjörðum. Það virðast helstu rök þeirra sem leggjast gegn orkuframleiðslu á Vestfjörðum að flytja eigi rafmagnið í burtu af svæðinu.
Þegar farið verður að framleiða meira rafmagn á Vestfjörðum er það einfaldlega heimskuleg nálgun. Það rafmagn sem þar þarf verður að sjálfssögðu nýtt sem næst uppruna orkunnar. Það er einfaldlega eðli okkar raforkukerfis. Þeir sem svo mæla vilja hreinlega ekki skilja hvernig raforkumálum þjóðarinnar er fyrir komið. Það er matað á kerfið á einum stað og tappað af því á öðrum stað. Núna er mikið rafmagn flutt á Vestfirði um langan og ótryggan veg með miklu orkutapi. Það rafmagn verður nýtt á öðrum stað með minna orkuflutningstapi. Það er einhver óskapleg meinloka í þessari umræðu.
Sjálfstæðisflokkurinn styður aukna framleiðslu og bætta dreifingu raforku á Vestfjörðum. Hvalárvirkjun er sannarlega einn þeirra kosta.
Haraldur Benediktsson
Höfundur er alþingismaður og efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.