Fulltrúar allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi nema Sjálfstæðisflokks höfðu lýst yfir stuðningi við að gjaldtaka fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni ætti að miðast við tímabundin afnot af henni. Þetta kemur fram í greinargerð Þorsteins Pálssonar, sem stýrði nefnd um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Starfi nefndarinnar hefur verið slitið, en hún var sett á fót í vor.
Í greinargerðinni lýsir Þorsteinn því að tilgangslítið væri að halda áfram tilraunum til samkomulags í nefndinni um önnur atriði meðan Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn að tímabundinn veiðiréttur verði grundvöllur gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í nefndinni er Teitur Björn Einarsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis.
Þorsteinn segir tímabundinn afnotarétt forsendu fyrir því að ná megi tveimur markmiðum í löggjöf um þessi efni; að lagareglurnar endurspegli með ótvíræðum hætti sameign þjóðarinnar og að þær stuðli að sem mestri þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna.
smari@bb.is