Orkumálin komist í efstu deild

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Í einni af heimsóknum mínum til Ísafjarðar nýlega fór ég meðal annars í nokkur fyrirtæki og heyrði þar frá fyrstu hendi hvernig ítrekaðar rafmagnstruflanir valda tjóni sem hleypur auðveldlega á hundruðum þúsunda króna í hvert sinn. Þetta er grátleg staðreynd í landi sem býr við ofgnótt rafmagns.

Afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum var árum saman út úr öllu korti í samanburði við aðra landshluta. Ekki í þriðju eða fjórðu deild heldur í „utandeild”, svo að gripið sé til íþróttamáls.

Landsnet hefur á undanförnum árum sett þrjá milljarða í endurbætur sem hafa skilað töluverðum árangri. Straumleysismínútur forgangsorku fóru þannig úr sex þúsund árið 2012 niður í tvö þúsund 2013, tvö hundruð 2014 og eitt hundrað í fyrra.

En betur má ef duga skal því ennþá vantar talsvert upp á að komast í efstu deild, þar sem suðvesturhorn landsins spilar. Ekki má heldur gleyma því að bætt staða byggir að stórum hluta til á díselvarastöð, sem getur ekki talist ásættanleg lausn til framtíðar í landi endurnýjanlegrar orku.

Tvennt getur komið orkumálum Vestfjarða upp í efstu deild. Í fyrsta lagi aukin orkuframleiðsla innan svæðisins, til að ekki þurfi að treysta eins mikið á bilanagjarna aðflutningsleiðina (Vesturlínu). Vestfirðir þurfa í dag u.þ.b. 40 MW af afli og er aðeins um helmingur þess framleiddur á svæðinu. Í öðru lagi væru það betri tengingar, bæði til og frá svæðinu og innan þess. Sóknarfærin eru mörg á báðum þessum sviðum.

Gangi allt upp með Hvalárvirkjun (55 MW) – sem er í nýtingarflokki rammaáætlunar hvað sem öllum blaðaskrifum líður – eru helst uppi hugmyndir um að orkan frá henni yrði tengd inn á meginflutningskerfið í Kollafirði. Ekki er talið að sú tenging yrði útsett fyrir sérlega miklum truflunum. Þetta eitt og sér myndi stórbæta afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum því að bilanir á hinni löngu og erfiðu leið alla leið frá Kollafirði suður í Hrútatungu myndu hætta að skipta máli vestan tengipunktsins í Kollafirði. Eftir stæði bilanahætta á erfiðum 40 km kafla frá Kollafirði til Mjólkár en hægt væri að styrkja línuna á þeirri leið verulega frá því sem nú er. Einnig myndu Reykhólasveit, Strandir og Dalir öðlast við þetta mun betra afhendingaröryggi þar sem orkan til þessara svæða gæti nú komið úr tveimur áttum, þ.e. frá Kollafirði og meginflutningskerfinu, sem væri ígildi hringtengingar.

Fleiri virkjanakostir eru á svæðinu, bæði stórir og smáir. Austurgilsvirkjun (35 MW) og Skúfnavatnavirkjun (10 MW) gætu nýtt nýjan tengipunkt innst í Djúpi; sú fyrri er í nýtingarflokki rammaáætlunar og sú síðari fellur ekki undir gildissvið hennar. Utar á fjörðunum, og tiltölulega skammt frá núverandi orkuflutningskerfi, hefur Glámuvirkjun komið til skoðunar, stundum nefnd Hestfjarðarvirkjun. Hún er til í ýmsum misstórum útfærslum og gæti skilað 20 MW eða jafnvel mun meiru skv. eldri útfærslum. Stækkun Mjólkárvirkjunar um 7 MW hefur einnig verið til skoðunar sem og margar smávirkjanir sem saman gætu skilað umtalsverðu afli. Loks má nefna að mjög stór hluti orkunotkunar Vestfjarða fer til húshitunar og því vert að skoða hvort raunhæft sé að setja upp varmadælur til að draga úr þeirri orkunotkun og losa þar með um rafmagn sem væri ekki síður dýrmætt en rafmagn frá nýrri virkjun. Loks er ekki útilokað að jarðhiti finnist sem nýta megi í fyllingu tímans.

Ljóst er af framansögðu að það er vel raunhæft að Vestfirðir verði ekki aðeins sjálfbærir um orku heldur umsvifamikill útflytjandi.

Góðar tengingar skipta líka sköpum eins og áður segir. Landsnet er með margt á prjónunum hvað þetta varðar, meðal annars streng um Dýrafjarðargöng og viðamikið verkefni sem miðar að því að styrkja kerfið allt frá Önundarfirði (Breiðadal) suður til Tálknafjarðar (Keldeyri) með annarri af tveimur útfærslum sem kallaðar hafa verið “áttan” og “hringurinn”. Línuna frá Hrútatungu til Mjólkár mætti styrkja á nokkrum mikilvægum stöðum sem myndi styðja við flutning á orku bæði til svæðisins og frá því. Stóra hringtengingin út Djúpið til Ísafjarðar er auðvitað áfram möguleiki sem verður veginn og metinn þegar þar að kemur.

Ég hef fulla trú á að orkumál Vestfjarða komist í efstu deild. Í því felast gífurlegir hagsmunir fyrir íbúa svæðisins og fyrirtækin sem hér starfa, en einnig þau fyrirtæki sem gætu haslað sér völl hérna á grunvelli meiri og tryggari orku, og skapað þau auknu verðmæti og störf sem eru undirstaða kröftugrar byggðar.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Höfundur er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í 23. tbl. Bæjarins besta

DEILA