Kjartan í U19 landsliðið

Kjartan Óli Kristinsson

Í síðustu viku sögðum við frá því að Hafsteinn Már Sigurðsson og Auður Líf Benediktsdóttir hafi verið valin í U17 landslið í blaki og nú hefur Kjartan Óli Kristinsson úr Vestra verið valinn í U19 landsliðið og heldur með þeim til Englands þann 26. október.

Kjartan er afar efnilegur blakari og var aðeins 14 ára þegar hann var valinn í U17 landslið og fór á norðurlandamót til Englands. Árið 2015 fór hann aftur til Englands með U17 landsliðinu og til Ítalíu og Danmörku árið 2016. Með U18 fór hann til Rúmeníu í byrjun þessa árs. Kjartan hefur æft með U19 landsliðinu frá 2015 og fór með þeim til Danmerkur það ár.

Afrek Kjartans hér innanlands eru ekki síður glæsileg og byrjuðu snemma en hann varð íslandsmeistari með fjórða flokki árið 2013. Hann var líka lykilmaður í liði Vestra á liðnu leiktímabili en meistaraflokkur Vestra í blaki gerði sér lítið fyrir og sigraði 1. deild Íslandsmótsins og komst í úrslit í bikarnum.

Meistaraflokkur karla 2016-2017

Hægt verður að fylgjast með leikni þeirra Kjartans og Hafsteins í fyrsta heimaleik meistaraflokks Vestra þann 22. október er BF frá Siglufirði sækir liðið heim. Helgina 18-19 nóvember munu bæði karla og kvennahlið Hamars úr Hveragerði mæta á Ísafjörð og þá má fylgjast með þessu efnilega unga fólki á vellinum.

bryndis@bb.is

DEILA