Vinstri græn mælast stærst í Norðvesturkjördæmi samkvæmt könnun Stöðvar 2 sem var birt í umræðuþætti í gær með fulltrúum framboða í kjördæminu. Fylgi VG mælist 30,2 prósent en flokkurinn fékk 18,1 prósent í kosningunum fyrir ári. Sjálfstæðisflokkurinn mælist næst stærstur með 26,1 prósent sem er 3,4 prósenta lækkun frá síðustu kosningum. VG og Sjálfstæðisflokkur eru turnarnir í kjördæminu og aðrir flokkar mælast með mun minna fylgi. Samfylkingin mælist með 11 prósent og fer upp um 4,7 prósent milli kosninga, Miðflokkurinn mælist með 10,3 prósent í sinni fyrstu atrennu. Fylgið mun hrynja af Framsóknarflokknum verði niðurstaða kosninganna í takt við skoðanakönnunina. Flokkurinn fékk 20,8 prósent í kosningunum fyrir ári en mælist nú með 6,2% fylgi. Píratar ríða ekki feitum hesti frá könnuninni, mælast með 5,5 prósent samanborið við 10,9 prósent í kosningunum í fyrra. Flokkur fólksins mælist með 3,4 prósent, Viðreisn með 1,4 prósent og Björt framtíð með 1,1 prósent.
smari@bb.is