Uppbygging fiskeldis, afhendingaröryggi raforku og vegur um Teigsskóg. Þetta eru baráttumálin þrjú sem Vestfirðingar hafa sett á oddinn eftir kröftugar umræður í fjölmiðlum í sumar og fjölmennan borgarafund á Ísafirði fyrir stuttu. Vestfirðingar vita að með afgreiðslu þessara mála er loksins komið tækifæri til að hefja viðsnúning sem hefði í för með sér aukin atvinnutækifæri, bætt búsetuskilyrði, jákvæðan hagvöxt og fjölgun íbúa á svæðinu.
Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að öll þessi mál nái fram að ganga og ætla frambjóðendur flokksins að taka pólitíska forystu í þeim efnum. Það höfum við sýnt í riti og aðgerðum. Þetta ætlum við að gera:
- Rjúfa þá kyrrstöðu sem veglagning um Teigsskóg er í. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram frumvarp í haust um nákvæmlega það ásamt öllum öðrum þingmönnum kjördæmisins að undanskildum þingmanni VG. Málið verður aftur lagt fram á þingi strax eftir kosningar fáum við til þess umboð frá kjósendum.
- Halda áfram með uppbyggingu á fiskeldi, þar með talið í Ísafjarðardjúpi. Allar forsendur er fyrir hendi til þess að byggja upp öfluga atvinnugrein sem byggir á vísindalegri þekkingu og reynslu annarra þjóða. Sjálfstæðisflokkurinn mun hafa forystu um að eldi hefjist án tafa í Ísafjarðardjúpi þar sem mögulegt er að nota raunhæfar mótvægisaðgerðir. Þetta verður gert með ábyrgum hætti þar sem hinn samfélagslegi ávinningur er metinn, eins og umhverfisþátturinn, með réttum og sanngjörnum hætti.
- Tryggja að áform um bætt afhendingaröryggi raforku nái fram að ganga. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar og er virkjunin nauðsynlegur hlekkur til að byggja skynsamlega upp burðugt flutningskerfi raforku á Vestfjörðum. Ekki kemur að okkar mati til greina að hnikað verði frá þeim áformum og það þarf pólitíska staðfestu til að halda stjórnkerfinu við efnið.
Vestfirðingar hafa vissulega þétt raðirnar sem aldrei fyrr, þvert á pólitískar línur og eru þeir með skýra sýn á hvað þurfi að gera svo Vestfirðir eigi öfluga framtíð. En hér er ekkert sjálfgefið þrátt fyrir vilja og baráttuhug Vestfirðinga til að koma þessum þremur málum í gegn. Pólitíkin þarf að spila með. Vestfirðingar þurfa því að kjósa stjórnmálaflokk sem ætlar að taka slaginn fyrir Vestfirði, taka forystu í baráttumálum svæðisins og sér hvers svæðið er megnugt. Aldrei hefur það verið jafn mikilvægt og núna að kjósendur kynni sér vel hver afstaða stjórnmálaflokkanna er varðandi málefni Vestfjarða því afturhaldssinna má finna víða. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins erum klár í þennan slag og ætlum að tryggja öfluga framtíð Vestfjarða fáum við umboð til þess. Við kjósum Vestfirði.
Teitur Björn Einarsson, þingmaður og skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
Hafdís Gunnarsdóttir, varaþingmaður og skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi