VG í leiftursókn

Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Mynd: mbl.is / Árni Sæberg.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð bætir enn við sig fylgi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, en Björt framtíð og Viðreisn hverfa af þingi eftir kosningarnar, samkvæmt könnuninni. Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mælist stærri en Framsóknarflokkurinn.

Nær 29 af hundraði styðja Vinstri græn, sem fengju samkvæmt því 20 þingmenn. Rúm 22 prósent þeirra sem afstöðu tóku segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn og ætti það að skila 15 mönnum á þing.

Píratar koma næstir með 11,4 prósenta fylgi og átta þingmenn, og Samfylkingin stígur upp á við með 10,5 prósenta stuðning, sem myndi skila 7 mönnum á þing.

Eins og áður segir mælist Miðflokkurinn með meira fylgi en Framsóknarflokkurinn, en fyrrnefndi flokkurinn fær tæplega 9 prósenta stuðning og sá síðarnefndi 5,5 prósent og þrjá þingmenn.

Viðreisn og Björt Framtíð mælast með um það bil þriggja prósenta fylgi og koma því ekki manni á þing.

Könnunin var gerð dagana 2. og 3. október. Hringt var í 1.354 uns náðst hafði í 800 manns. 62,1 prósent þeirra sem náðist í tóku afstöðu, en um níu prósent hugðust annað hvort sitja heima eða skila auðu, ellefu prósent höfðu ekki gert upp hug sinn og nær átján prósent neituðu að svara.

smari@bb.is

DEILA