Svona hefjum við fiskeldi í Djúpinu

Gylfi Ólafsson

Á fjölsóttum borgarafundi í síðasta mánuði kom fram skýr krafa heimafólks við Djúp að hefja þurfi laxeldi sem fyrst. Þó tónninn hafi verið ansi afdráttarlaus í máli margra fundarmanna var nokkuð lausnamiðaðri tónn í þeirri ályktun sem borin var undir fundinn til samþykktar. Þar var þess krafist að „laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.“

Til þess að þetta nái fram að ganga þurfa allir að vinna saman.

Þetta þarf Hafrannsóknastofnun að gera

Hafrannsóknastofnun hefur setið undir ámæli fyrir að áhættumat vegna laxasleppinga sé ekki nógu ítarlegt, taki ekki nógu mikið tillit til mögulegra mótvægisaðgerða og tiltaki ekki neitt framleiðslumagn – hversu lítið sem það kann að vera – sem leyfilegt mætti vera í Djúpinu. Síðan borgarafundurinn var haldinn hefur stofnunin kynnt áhættumatið á opnum fundi, og rýni á áhættumatinu á að fara fram í október. Mikilvægt er að áfram verði unnið af krafti, þannig að hægt sé að verða við ósk borgarafundarins um svör fyrir árslok. Ítarleg rýni og áframhaldandi rannsóknir eru forsenda þess að veiðiréttarhafar sætti sig við eldi, og að fiskeldisfyrirtæki sætti sig við takmarkanir og hömlur. Nánar tiltekið þarf stofnunin að sýna hvernig mótvægisaðgerðir með þeim aðferðum sem til eru í dag hafa áhrif á niðurstöður áhættumatsins. Þannig mun sjást hvernig sjókvíaeldi getur fari fram í Djúpinu.

Þetta þurfa fiskeldisfyrirtækin að gera

Fiskeldisfyrirtækin þurfa að vera auðmjúk gagnvart því mikla álagi á náttúruna sem fiskeldi getur haft í för með sér. Þau þurfa að setja fram raunhæfar hugmyndir að mótvægisaðgerðum og hafa frumkvæði að umhverfisvænum lausnum í starfsemi sinni. Sérlega mikilvægt er að hindra útbreiðslu laxalúsar og einnig að tryggja að ekki verði notuð kemísk laxalúsarmeðul á rækjuslóðum s.s.  Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði.  Til varnar laxveiðiám geta mótvægisaðgerðir verið útsetning stærri seiða, breyttar tímasetningar innan ársins og bættur búnaður – og sennilega sambland af þessu.

Auk þess þarf að leggja til hliðar að sinni öll áform um fiskeldi í Jökulfjörðum og draga þá umsókn til baka. Við vitum öll að þau áform eru mjög umdeild og þau þvæla bara umræðuna. Full ástæða er til að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi fái að þróast áður en Jökulfirðir komi einu sinni til umræðu.

Þetta þurfa yfirvöld að gera

Stjórnvöld eiga mikið verk fyrir höndum. Þau þurfa að vinna áfram með niðurstöður stefnumótunarnefndarinnar sem lauk störfum fyrr í haust. Tryggja þarf að Hafrannsóknastofnun hafi fjármagn til vandaðra rannsókna. Til viðbótar verður að endurskipuleggja hvernig vinnan við stefnumótun og áhættumat fer fram, einkum þannig að hagrænir og samfélagslegir þættir verði metnir samhliða lífrænum þáttum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur sett fram hugmyndir um eldisreglu, hliðstæða aflareglunni sem hefur verið undirstaða stækkandi þorskstofns og var metnaðarfullt skref til að sameina líffræði og hagfræði. Skoða þarf sérstaklega hvort breytingar á regluverki kalli á frestun í veitingu leyfa til eldis eða undirbúnings.

Þetta þurfa veiðiréttarhafar að gera

Eitt af því sem nefnt hefur verið sem mótvægisaðgerð er að setja laxaflokkara neðst í laxveiðiár þar sem villtir laxastofnar gætu blandast eldisfiski. Sú hugmynd er í skýrslu stefnumótunarnefndarinnar slegin út af borðinu þar sem með slíkum inngripum væri ráðist að einkaeign veiðiréttarhafa. Það er gott og vel, en bara ef veiðiréttarhafar eru ekki reiðubúnir til að vinna með fiskeldisfyrirtækjunum að því að tryggja að eldi og laxveiðar fari saman. Fiskeldisfyritækin hafa boðist til að borga allan kostnað – svo lagakröfur eru óþarfar – en þá þurfa veiðiréttarhafar að vilja samtal og finna lausn sem hentar öllum.

Þetta þurfa íbúar að gera

Allt er þetta á endanum gert fyrir íbúana. Að byggðafestan sem fiskeldið ber með sér gagnist byggðunum við Djúp. Að íbúðaverð hækki, fólk máli húsin sín, unga fólkið setjist að með börnin. Að KPMG-skýrslan frá því í síðustu viku rætist.  Íbúarnir hafa hér tvíþætt hlutverk. Þeir eiga að hafa eftirlit með öllum sem ég hef nefnt hér að ofan. Og þeir eiga að kjósa til valda þann flokk sem þeir telja líklegastan til að sætta ólík sjónarmið og koma á blómlegu fiskeldi í Djúpinu í sátt við náttúru og menn.

Þar er Viðreisn besti kosturinn því að Viðreisn vill að almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Viðreisn veit að náttúruauðlindir landsins eru sameign þjóðarinnar, þær ber að nýta skynsamlega og greiða markaðsverð fyrir. Þannig fer saman blómleg byggð og umhverfisvernd.

Gylfi Ólafsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.

DEILA