Nýr vefur

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er fréttavefur bb.is kominn í nýjan búning, unglingurinn er orðinn 17 ára og komin tími til að fá ný föt. Gamli vefurinn hefur staðið sig vel, verið bæði snar og snöggur og sjaldan dottið út en afar úreltur, svona tæknilega séð.

Nýi vefurinn er byggður á Word Press eins og svo margir fréttavefir og það er Sturla Stígsson snillingur hjá Snerpu sem hefur átt veg og vanda að öllum tæknibrellum sem viðhafa þarf þegar nýr vefur fer í loftið.

Það á eftir að hnýta ýmsa spotta í verkinu, myndasafnið gamla er ekki komið inn og ekki heldur Bæjarins besta. Sömuleiðis er eftir að koma öllum gömlu fréttunum í skjól því í þeim felast mikil menningarverðmæti, hvernig við gerum það á eftir að koma í ljós.

bb.is er fyrst og fremst fréttavefur og því er mest áhersla lögð á einfalda framsetningu og birtingu á fréttum. Við aðgreinum fréttir af íþróttum og menningu lesendum til einföldunar en að öðru leyti eru ekki aðrar flokkanir. Margt var skilið eftir á gamla vefnum en við höldum að sjálfsögðu áfram að taka við aðsendum greinum og nýr dálkur „Viðburðir – kynning“ er leið til að kynna þá viðburði, fundi eða tónleika sem framundan eru. Í blaðinu verður viðburðadagatal þar sem fram kemur staður og stund en svo má nálgast hér á vefnum nánari upplýsingar um viðburðinn.

Með nýrri tækni er einfaldara að setja inn myndbönd og munum við nýta okkur það.

En breyting sem skiptir marga máli, nú er vefurinn orðinn farsímavænn og var nú tími til kominn.

Gjarnan er tekið við ábendingum um galla eða eitthvað sem betur má fara og um leið biðjumst við vægðar ef mikið verður um hökt svona á fyrstu skrefunum. Við reynum að taka á vandamálunum um leið og þau koma upp og leysa eins hratt og við getum.

bryndis@bb.is

Sturla Stígsson, tæknisnillingur hjá Snerpu
DEILA