Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa í um áratug horft til Hvalárvirkjunar sem vendipunkt í raforkumálum í fjórðungnum. Með virkjuninni skapast forsenda fyrir hringtengingu raflína á Vestfjörðum með lagningu línu um Ísafjarðardjúp og orkuframleiðslu sem hefur möguleika á að anna allri eftirspurn á Vestfjörðum, án notkunar jarðefnaeldsneytis. Þetta kemur fram í umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar um breytingar á aðalskipulagi Árneshrepps vegna áforma um byggingu Hvalárvirkjunar.
„Með virkjun Hvalár og hringtengingu verður því komin upp ný staða í raforkumálum á Vestfjörðum, með áður óþekktu raforkuöryggi og reiðuafli sem gefur færi á fjölbreyttum iðnaði sem krefst orku í litlu og meðalstóru magni,“ segir í umsögninni.
Nefndin gerir ekki athugasemdir við skipulagsbreytingarnar.
smari@bb.is