Gunnar Bragi Sveinsson oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi segir að hann viti til þess að unnið sé gegn honum í flokknum með það að markmiði að koma honum af lista Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 28. október næstkomandi. Rætt er við hann á Eyjunni í dag. „Ég hef engar áhyggjur. Ég býð mig fram aftur og tel mig geta gert gagn. Ég fer bara í þetta með hagsmuni flokksins í fyrirrúmi,“ segir Gunnar Bragi.
Eiríkur Jónsson blaðamaður veltir því upp á vefsíðu sinni í gær að Framsóknarmenn í Skagafirði vilji sjá Stefán Vagn Stefánsson í forystusætinu, en hann hefur verið oddviti Framsóknarflokksins í Skagafirði í sjö ár. Eiríkur skrifar að fleiri spjót standi á Gunnari Braga og segist hafa heimildir fyrir því að Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi þingmaður, hugsi sér til hreyfings.
smari@bb.is