Háskólasetur Vestfjarða leitar nú að gistifjölskyldum fyrir bandaríska háskólanema sem eru á leið í vettvangsnám til Ísafjarðar í næsta mánuði og þarfnast gistingar í þrjár vikur. Góð reynsla er af móttöku slíkra nema á Ísafirði og í nágrenni en Háskólasetrið hefur um fimm ára skeið haft milligöngu um heimagistingu fyrir sambærilega hópa. Nemendurnir eru á vegum SIT vettvangsskólans, School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum. Háskólasetrið er samstarfsaðili SIT og nemendahópurinn mun dvelja samtals sjö vikur hér á landi. Námið fer að mestu fram hér á norðanverðum Vestfjörðum, í Reykjavík og á Grænlandi.
Frá árinu 2012 hefur Háskólasetrið haft umsjón með heimagistingu í tengslum við sumaráfanga SIT skólans. Síðastliðið haust var í fyrsta sinn boðið upp á vettvangsnám að vetri og bauð Háskólasetrið þá velkominn hóp bandarískra nemenda sem hóf nám við nýja vettvangsbraut sem SIT Study Abroad hleypti af stokkunum í samvinnu við Háskólasetrið. Hún nefnist Iceland and Greenland: Climate Change and the Arctic, hún nær yfir heila önn eða 15 vikur og er í boði haust og vor. Hluta úr önninni dvelja nemendurnir á Ísafirði.
Nú styttist í að vorönnin hefjist og þar sem gisting í heimahúsum er liður í náminu leitar Háskólasetrið nú að fjölskyldum sem eru til í að opna heimili sín fyrir þessa nemendur tímabilið 20. febrúar- 13. mars n.k. Markmiðið með heimagistingu er að gefa ungmennunum tækifæri til að kynnast íslenskri menningu, með því að taka þátt í lífi fjölskyldu. Nemendurnir hafa í gegnum tíðina gist hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði, í Hnífsdal eða í Bolungarvík.
Frá þessu er greint á vef Háskólaseturs Vestfjarða og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við Pernillu Rein, verkefnastjóra hjá Háskólasetrinu í síma 820-7579 eða pernilla@uw.is. Einnig má kynna sér málin á Fésbókarhóp verkefnisins.