Nú er alvarlega ógnað stöðu smærri útgerða, sem þó eru í mörgum tilfellum burðarásar atvinnulífs í sveitarfélögum víða um landið. Verið er að hækka veiðigjöld og fella niður afslætti af veiðigjöldum. Þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar, sérstaklega í fámennari byggðarlögum
Gott segja einhverjir, útgerðin á að borga miklu meira fyrir aðgang að fiskinum í sjónum en hún gerir í dag. Þeir sem svona tala og hugsa fremja þá reginskyssu að telja eitt gilda um allar útgerðir í landinu; að allar útgerðir tilheyri stórútgerðinni.
Því er hins vegar ekki svo farið. Hagur útgerða er mjög mismunandi og þó að stórútgerðir með fjölþættan rekstur í veiðum og vinnslu og mjög ríkulegar aflaheimildir fari létt með að taka á sig hækkun veiðigjalda er því miður fjöldi útgerða, sérstaklega í fámennari sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, sem horfa fram á að grundvellinum er kippt undan rekstri þeirra.
Sunnanverðir Vestfirðir eru gott dæmi um landsvæði sem verður illa fyrir barðinu á þessum breytingum. Dæmi má taka af útgerð, sem stundar einstaklega vistvænar fiskveiðar, gerir út tvo línubáta, sem veiða úr sjálfbærum og endurnýtanlegum stofnum í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þetta fyrirtæki starfar í sátt og samlyndi við samfélagið og umhverfið. Það landar afla sínum í heimabyggð og það eru heimamenn sem starfa í fiskvinnslunni, sem vinnur aflann til útflutnings.
Tæplega helmingur aflans er fluttur út ferskur á markaði í Evrópu og Ameríku með flugi og skipum. Rúmlega fjórðungur aflans er saltfiskur og annað eins frystar afurðir. Ávallt hefur verið lögð áhersla á góða umgengni um dýrmætar auðlindir og umhverfisvernd höfð í fyrirrúmi. Hjá fyrirtækinu starfa næstum níutíu manns bæði hjá útgerð og vinnslu. Starfsmenn eru vel menntaðir og starfsmannavelta lítil. Allir stjórnendur eru háskólamenntaðir. Jafnrétti kynjanna er í öndvegi og konur eru í meirihluta í stjórn og meðal stjórnenda.
Í rekstri sínum leggur fyrirtækið áherslu á stöðugleika í samfélaginu með því að halda úti öflugri starfsemi allt árið. Launagreiðslur nema árlega meira en hálfum milljarði, sem gefur af sér a.m.k. 75 milljónir í útsvarstekjur til sveitarfélagsins. Landaður afli í heimahöfn nemur rúmlega 5000 tonnum að verðmæti 1,2 milljarðar, sem gefur af sér u.þ.b. 25 milljónir í aflagjöld, auk hafnargjalda. Í heild er skattaspor fyrirtækisins um 400 milljónir króna auk þess sem það styrkir ýmsa starfsemi í byggðarlaginu allt frá æskulýðsstarfi til félagsstarfs eldri borgara fyrir um 6-7 milljónir króna árlega, en það jafngildir nálega 10 þúsund krónum á hvern íbúa.
Ytra umhverfi hefur verið þessu sjávarútvegsfyrirtæki mjög óhagfellt á undanförnum árum og afkoman fer hratt versnandi. Krónan hefur styrkst verulega um 30 prósent á síðustu fjórum árum og þar af um tæp 20 prósent bara síðasta árið eða svo. Mikil hækkun hefur orðið á kostnaði við aðföng og flutninga. Laun hafa hækkað um meira en 20 prósent á síðustu 18 mánuðum. Markaðir í suður Evrópu hafa enn ekki náð fyrri styrk braggast eftir efnahagskreppuna. BREXIT hefur mikil og alvarleg áhrif á fyrirtækið vegna umtalsverðra viðskipta við Bretland. Þá hefur samdráttur í aflaheimildum á öðrum tegundum en þorski undanfarin ár haft mjög skaðleg áhrif. Þessu til viðbótar er verið að draga stórlega úr úthlutun byggðakvóta, sem hefur þó á undanförnum árum, gert mögulegt að auka úthald báta útgerðarinnar um 1-2 mánuði á ári.
Það er því óhætt að segja að nú eru miklir erfiðleikatímar í bolfiskvinnslu. Afnám afsláttar af veiðigjöldum og hækkun almennra veiðigjalda kemur því á versta tíma fyrir smærri sjávarútvegsfyrirtæki, sem reyna að standa sína pligt sem burðarásar atvinnulífs í heimahögum. Reynslan hefur sýnt okkur að stærri fyrirtækjunum, sem sitja að ríkulegum aflaheimildum og reka sínar útgerðir frá stærstu verstöðvum landsins, er ekki treystandi til að viðhalda stöðugleika í atvinnulífi í fámennari byggðarlögum.
Útgerðin á sunnaverðum Vestfjörðum er samvinnuverkefni nágrannasveitarfélaga, sem gengið hefur hnökralaust. Afla er landað í einu sveitarfélagi, sem nýtur góðs af þeirri atvinnu sem af því skapast, og síðan ekið til vinnslu í nágrannasveitarfélaginu.
Nú blasir við að þessari starfsemi er ógnað. Fari svo að ekki verði úr bætt er tugum starfa stefnt í voða og undan kippt tekjugrunni sveitarfélaganna á svæðinu. Afleiðingin getur einungis orðið fólksflótti og vítahringur, sem fljótt leiðir til neyðarástands. Byggð á sunnanverðum Vestfjörðum er allt annað en tryggð til frambúðar.
Ég skora á sjávarútvegsráðherra og þingmenn að bregðast við af ákveðni og djörfung því það eru einmitt umhverfisvænar línuveiðar og vinnsla á stöðum eins og sunnanverðum Vestfjörðum, sem renna stoðum undir ímynd íslenskra sjávarafurða sem þær heilnæmustu og umhverfisvænstu í heimi.
Indriði Indriðason
Sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps