Hafa skal það sem sannara reynist

Pétur Húni Björnsson

Gunnar Gaukur Magnússon framkvæmdastjóri Vesturverks, dótturfélags HS Orku, skrifar grein í Bæjarins besta um Hvalárvirkjun og tyggur þar enn og aftur sömu tuggurnar sem sífellt er haldið fram um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði en svarar í raun engum þeirra spurninga sem brýnast er að svara.

Nýtingarflokkur Rammaáætlunar er ekki virkjanaleyfi

Gunnar byrjar á að nefna að Hvalárvirkjun hafi verið í nýtingarflokki Rammaáætlunar um langt skeið. Rétt er að hún var sett í nýtingarflokk 2. áfanga Rammaáætlunar með þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 14. janúar 2013. Hún hefur semsagt verið í nýtingarflokki í rúm fjögur ár, og var í raun sett í nýtingarflokk þvert á matið sem verkefnastjórn 2. áfanga lagði fram, því virkjankosturinn er verulega óhagkvæmur vegna mjög hás tengikostnaðar.

Þetta hef ég þegar rakið í grein á vef Rjúkanda og Gunnar bætir þar engu við en ýjar að því að nýtingarflokkur rammaáætlunar sé endanlegt leyfi eða vottun.

Ekki HS Orku að selja raforkuna?

Gunnar talar um að framkvæmdaaðilinn sé Vesturverk og að það sé ekki HS Orku að selja raforkuna frá Hvalárvirkjun. Hann nefnir þó að Vesturverk sé dótturfyrirtæki HS Orku, og hver sem vill kynna sér það getur séð, t.d. á ársskýrslu HS Orku að Vesturverk er í 70% eigu HS Orku, og er ekki gert upp sjálfstætt heldur í samstæðureikningi HS Orku og HS Orka ræðir um alla virkjanakosti Vesturverks sem sína eigin. Reyndar er í ársreikningi HS Orku talað um „yfirtöku Vesturverks“, og segir það kannski sitt um sjálfstæði Vesturverks gagnvart HS Orku.

Ég held að enginn trúi því að HS Orka ætli að leggja í tugmilljarða uppbyggingu sem tekur þrjú og hálft ár án þess að vita hvert raforkan fer, eða ætli sér ekki að skipta sér af orkusölunni. Við megum í það minnsta ekki fá að vita hvert orkan á að fara.

Óbreytt raforkuöryggi og engin hringtenging

Gunnar ræðir um skort á afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sem röksemd með Hvalárvirkjun. Hann tínir til tölfræði um truflanir frá Orkubúi Vestfjarða þar sem fram kemur að á síðasta ári urðu 225 truflanir á raforkukerfi Vestfjarða, þar af 150 fyrivaralausar truflanir, og að árið 2015 hafi truflanirnar verið 205 og þar af sjö truflanir sem stóðu yfir lengur en 72 klukkustundir.

Allt er þetta satt og rétt og til verulegs tjóns og óhagræðis fyrir Vestfirðinga. En vandinn við þessa röksemd er að Hvalárvirkjun tekur nánast ekki neitt á þessum vanda.

Gunnar segir að Hvalárvirkjun muni auka raforkuöryggi til muna þar sem hún muni geta mætt orkuþörf Vestfjarða þegar bilanir verða austan Kollafjarðar. Hversu margar af þessum 225 truflunum á síðasta ári urðu vegna bilana í línum frá Hrútatungu í Kollafjörð? Öllum sem kynna sér raforkukerfi Vestfjarða er augljóst að vandinn liggur ekki þar heldur í línum norðan Mjólkárvirkjunar, og það leysir engan vanda að hlaða meiri raforku á línuna sunnan hennar. Ef Hvalárvirkjun á að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum þarf að tengja hana beint til Súðavíkur eða Ísafjarðar, en ekki við Mjólkárlínu í Kollafirði.

Gunnar talar einnig um að þegar hringtengingu Vestfjarða lýkur með línum frá nýjum afhendingarstað á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi verði hægt að flytja orku frá virkjuninni í báðar áttir, þ.e. um Kollafjörð eða út Ísafjarðardjúp. Eins og staðan er í dag liggja engin skýr áform fyrir um að ljúka hringtenginu raforkukerfis Vestfjarða með háspennulínu út Djúp. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkur og formaður Fjórðungssambands Vestfjarða, hefur talað um í grein í Stundinni að forsendur hringtengingarinnar séu virkjun í Austurgili í Skjaldfannardal, Skúfnavatnavirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Hest- og Skötufjarðarvirkjun. Það má því ljóst vera að hringtenging verður ekki að veruleika fyrr en í fyrsta lagi eftir mannsaldur eða svo.

Þetta hef ég þegar rætt í þaula í grein á vef Rjúkanda sem má lesa hér.

Margföld olíubrennsla

Gunnar tiltekur olíubrennslu til orkuframleiðslu og húshitunar sem röksemd með Hvalárvirkjun. Eins og fyrr var nefnt tekur tenging Hvalárvirkjunar við Mjólkárlínu austan Mjólkárvirkjunar ekki á neinum þeim vanda í raforkumálum sem kallar á olíubrennslu á Vestfjörðum.

Ef marka má svör Gunnars sjálfs um hve mikla olíu þurfi að nota við keyrslu ljósavéla og stórvirkra vinnuvéla meðan á framkvæmdum við virkjanir í Ófeigsfirði og Eyvindarvirði stendur, en hann var spurður að því á málþinginu Arfleifð Árneshrepps, má áætla að 10 milljón lítrar af olíu verði brennd. Líklega mætti keyra varaaflstöðvar Vestfjarða í nokkra áratugi á þeim olíuforða, miðað við keyrslu þeirra undanfarin ár.

Hugsanlega mætti færa rök fyrir því að brennsla 10 milljón lítra af olíu í Ófeigsfirði á þremur og hálfu ári geti verið réttlætanleg ef það leiddi til þess að olíubrennsla til orkuöflunar og húshitunar á Vestfjörðum væri úr sögunni, en svo er ekki. Gera má ráð fyrir að allar varaflstöðvarnar verði áfram á sínum stað og ekkert sem bendir til annars en að keyrsla þeirra á næstu árum verði í líkingu við það sem verið hefur hingað til.

Þessir 10 milljón lítrar eru því hrein viðbót við fullkomlega óviðunandi og ósækilega olíubrennslu á Vestfjörðum. Pétur G. Markan talaði um í Stundinni að olíubrennslan í varaaflsstöðvunum væri í blóra við Parísarsamkomulagið. Hvað má þá segja um að bæta við bruna á 10 milljón lítrum á þremur og hálfu ári?

Er vilji íbúa Árneshrepps skýr?

Gunnar vísar til íbúaþings sem haldið var með örskömmum fyrirvara í Árneshreppi mánudaginn 12. og þriðjudaginn 13. júni sl. og segir að samkvæmt niðurstöðum þess sé vilji íbúa Árneshrepps til að Hvalárvirkjun verði reist skýr. Þar má segja að Gunnar hrapi að ályktunum.

Tímasetning íbúaþingsins og skammur fyrirvari gerði það að verkum að mun færri komust á þingið en vildu, enda bændur í sveitinni önnum kafnir í sauðburði og að sinna æðavarpi og áttu alls ekki heimangengt, þar á meðal þrír af fimm fulltrúum í sveitarstjórn Árneshrepps. Fólk sem málið varðar og búsett er utan hreppsins átti einnig erfitt með að koma, enda þingið haldið á tveimur virkum dögum.

Íbúaþingið var því klaufalega tímasett – nema það hafi verið af ráðnum hug – og niðurstaða þess enginn endanlegur dómur um skoðanir íbúa Árneshrepps á virkjanaframkvæmdunum frekar en að skýr andstaða heimamanna sem töluðu á málþinginu Arfleifð Árneshrepps, sem haldið var í Árneshreppi hálfum mánuði síðar, geti talist vera það.

Gunnar nefnir einnig að með Hvalárvirkjun verði ráðist í innviðauppbyggingu á Vestfjörðum og ekki síst í Árneshreppi. Innviðirnir sem þarna eru nefndir reynast vera tengivirki og háspennulínur sem Landsnet reisir til að tengigjöld HS Orku vegna tengingar virkjunarinnar við Mjólkárlínu verði hagkvæmari. Ekki er hægt að koma auga á annað sem getur kallast innviðauppbygging, sama hve vel er rýnt í gögnin.

Hvað varðar innviðauppbyggingu í Árneshreppi er ekkert í hendi. Fulltrúar HS Orku/Vesturverks mættu á íbúaþingið í lok þess og lofuðu íbúum ýmsum úrbótum og hafa sent sveitarstjórn erindi þar sem ýmiskonar uppbyggingu innan hreppsins er lofað og fulltrúi HS Orku á málþinginu Arfleifð Árneshrepps ræddi þetta einnig. Reyndar er þetta allt í boði gegn því að virkjanaleyfi fáist. Ég eftirlæt lesendum að ráða í hvað slík skilyrt loforð mættu kallast.

Ófærar samböngubætur

Í grein sinni segir Gunnar: „Samgöngumál er eitt brýnasta mál íbúa í Árneshreppi. Vesturverk hyggst endurbæta núverandi veg frá Norðurfirði að Hvalárósi. Fyrir liggja drög að samkomulagi við Vegagerðina þar um. Vegur mun verða lagður samhliða jarðstreng milli Ófeigsfjarðar og Ísafjarðardjúps um Ófeigsfjarðarheiði. Með veginum verða miklar samgöngubætur við Árneshrepp sem eru til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á ferðamennsku í hreppnum og samgöngur við Vestfirði.“

Það má teljast ósvífið að nota vegabætur sem röksemd fyrir framkvæmdunum. Þar er verið að nota einmitt það sem hefur brunnið einna heitast á íbúum hreppsins undanfarna áratugi – stopular samgöngur vegna lélegs ástands vega og ónógs snjómoksturs á vetrum.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna er vitnað í matsskýrslu Verkís þar sem fram kemur um veginn um Ingólfsfjörð í Ófeigsfjörð: „Ekki er gert ráð fyrir að vegurinn muni uppfylla staðla Vegagerðarinnar og ekki verði lagt bundið slitlag á hann“. Og um línuveginn er sagt að „[l]eggja þurfi vegslóða meðfram strengleið eða loftlínum“ og síðar „[í] báðum tilfellum mun slóði fylgja línuleiðinni en hann muni ekki verða uppbyggður og því fylgja landinu.“

Sem sagt: Vegurinn sem íbúar Árneshrepps hafa kvartað undan árum saman mun lengjast til norðurs og mun ekki uppfylla staðla Vegagerðarinnar. Hann mun svo tengjast óuppbyggðum vegslóða sem liggur með landslaginu yfir Ófeigsfjarðarheiði og yfir í Djúp. Það þarf að teygja sig ansi langt í túlkunum til þess að geta leyft sér að kalla vegslóða sem verður undir snjó 9 mánuði á ári og mun ekki njóta neinnar þjónustu Vegagerðarinnar samgöngubætur.

Loforð og efndir

Vestfirðir þurfa sárlega á því að halda að fá raunverulegar bætur í afhendingaröryggi raforku á svæðinu og Árneshreppur þarf á úrræðum að halda, í samgöngumálum, sköpun atvinnutækifæra og viðgangi samfélagsins í hreppnum.

Ekkert í ráðagerðum HS Orku bendir til þess að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum skáni svo nokkru nemi og framkvæmdirnar koma ekki á hringtengingu raforkukerfis Vestfjarða auk þess sem olíubrennsla á Vestfjörðum mun margfaldast á framkvæmdatímanum.

Ef af framkvæmdunum verður mun Árneshreppur verða undirlagður af akstri stórvirkra vinnuvéla stöðugt í þrjú og hálft ár en mun eflaust njóta einhvers fjárhagslegs ávinnings af þeirri þenslu sem framkvæmdirnar valda. Virkjunin sjálf á hins vegar ekki að skapa nein störf og hverfandi líkur eru á því að vinnuflokkar þeir sem dvelja í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði muni leggja nokkuð til mannlífsins í hreppnum eða kjósi að dvelja þar áfram að framkvæmdum loknum.

Hugsanlega verður Finnbogastaðaskóli klæddur að utan á kostnað HS Orku, með þriggja fasa rafmagn og blússandi ljósleiðaratengingu, en óvíst hvort þar verði nokkur börn við nám.

Pétur Húni Björnsson

Stjórnarmaður í Rjúkanda

 

DEILA