Ísland ljóstengt í þriðja sinn

Ljósleiðari plægður í jörð á Ströndum. Mynd: strandir.is

Hafinn er undirbúningur fyrir næsta áfanga landsátaksins Ísland ljóstengt. Snýr hann bæði að fjármagni til einstakra byggða sem verður úthlutað í annað sinn og svonefndum samkeppnispotti sem verður úthlutað úr í þriðja sinn. Á vef samgönguráðuneytisins segir að byggðastyrkurinn taki mið af aðstæðum hjá sveitarfélögum, til að mynda byggðaþróun, fjárhagsstöðu, umfangi verkefna og fleiri þátta.

Samkeppnispotturinn varðar umsóknir sveitarfélaga með þeirri megin breytingu að tryggt verði að eitt sveitarfélag í hverjum landshluta geti ekki fengið í sinn hlut allan þann styrk sem í boði verður.

Gert er ráð fyrir að tilkynnt verði um úthlutun byggðastyrks vegna 2018 fyrir miðjan september til að gera sveitarfélögum m.a. kleift að nota þær upplýsingar við undirbúning umsókna. Gert er ráð fyrir að niðurstaða úthlutunar úr samkeppnispottinum liggi fyrir í lok október eða byrjun nóvember.

Nákvæmar dagsetningar, auk lítillega uppfærðra umsóknargagna og skilmála, verða sendar út síðar í þessum mánuði. Áhugasöm sveitarfélög eru hvött til þess að leggja drög að umsóknum hið fyrsta.

smari@bb.is

DEILA