Gamanmyndahátíð Flateyrar fer fram um næstu helgi, dagana 31. ágúst til 3. september. Á hátíðinni sem fer fram á Flateyri verður lögð áhersla á íslenskar gamanmyndir. Hátíðin fer að mestu fram í gamla tankinum sem stendur við utanvert þorpið, eina hringbíó landsins, eins og tankurinn er kynntur á Facebooksíðu Gamanmyndahátíðarinnar.
Hátíðin hefst á 10 ára afmælissýningu á heimildarmyndinni Óbeisluð fegurð eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur en hún er um hina einstöku fegurðarsamkeppni sem fór fram í samkomuhúsinu í Hnífsdal vorið 2007. Eina skilyrðið fyrir þátttöku var að keppendur væru venjulegir, allrar stærðar og gerðar, og þeir máttu ekki hafa farið í lýtaaðgerð. Dregið var um vinningshafann úr hatti enda taldi dómnefndin að ekki væri hægt að keppa í óbeislaðri fegurð, ekkert frekar en staðlaðri. Sýningin á myndinni fer fram á Vagninum, fimmtudaginn 31. ágúst kl. 21:00
Á hátíðinni verður sem fyrr lögð áhersla á íslenskar gamanmyndir. Meðal leikstjóra mynda í ár má nefna Jón Gnarr, Grím Hákonarson, Benedikt Erlingsson og fleiri. Verða sýndar alls 23 íslenskar gamanmyndir, þar af eru sjö frumsýningar.
Heiðurssýningin í ár er Nýtt Líf, ein ástsælasta íslenska gamanmynd fyrr og síðar. Þráinn Bertelsson leikstjóri myndarinnar verður viðstaddur sýninguna og ræðir við gesti. Á meðal annarra viðburða verður fyrirlestrargjörningurinn Snitsel með þeim Mugison og Janusi Braga.
Á hátíðinni verða veitt áhorfendaverðlaun en heimildarmyndin Landsliðið eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson hlaut þau á síðustu hátíð. Hátíðin endar á veglegu lokahófi og sveitaballi.
smari@bb.is