Eins og greint var frá í gær er rekstur Ísafjarðarbæjar langt undir áætlunum fyrstu sex mánuði ársins. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 82 milljóna kr. afgangi en raunin er að reksturinn er neikvæður um 4,4 milljónir kr. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segist vonast til að reksturinn verði réttum megin við núllið þegar árið verður gert upp. „Ef það gengur eftir, sem ég hef fulla trú á, þá verður það vegna þess að við eigum von á meira framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en við gerðum ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Ef það gengur ekki eftir og allt fer á versta veg þá mun þetta hafa neikvæð áhrif á skuldastöðu bæjarins,“ segir Gísli Halldór sem bendir einnig á að horfur eru á lægri verðbólgu sem hefur jákvæð áhrif á rekstur bæjarins.
Helsta ástæða verri afkomu eru minni skatttekjur en gert var ráð fyrir. Gísli Halldór segir að ýmislegt bendi til að skatttekjur nálgist nú það sem var gert ráð fyrir. „Launatekjur í Ísafjarðarbæ í júlí voru níu prósentum hærri en í júlí í fyrra, en það er sú hækkun sem önnur sveitarfélög voru að sjá á fyrstu mánuðum ársins. Við vorum hins vegar að sjá hækkun frá núll og upp í þrjú prósent fyrstu þrjá mánuðina og það var fyrst og fremst vegna sjómannaverkfallsins.“
Hann segir að sex mánaða uppgjör bæjarins sé ófyrirséður mótbyr. „En þetta er ekkert sem setur okkur út af sporinu,“ segir Gísli Halldór.
smari@bb.is