Í dag er höfuðdagur og samkvæmt gamalli veðurtrú segir að veðurfar muni batna með Höfuðdegi og haldast þannig í þrjár vikur.
Höfuðdagurinn er samkvæmt gildandi tímatali 29. ágúst. Þann dag á Heródes konungur að hafa látið eftir konu sinni að Jóhannes skírari skyldi hálshöggvinn.
Á Vísindavefnum kemur fram að árið 1700 hafi tímatali verið breytt. Þá fluttist „gamli“ höfuðdagurinn yfir á 9. september og trúðu ýmsir á veðrabreytingar þann dag. Nú er dagurinn ávallt tengdur 29. ágúst. Trúnni á höfuðdaginn fylgdi bæði von og ótti. Mikilvægt þótti að hafa lokið heyskap fyrir höfuðdag ef tíð var góð en einnig lifðu margir í þeirri von að úr rættist við höfuðdag ef sumarið hafði verið vætusamt. Það á svo sannarleg við hér á norðanverðum Vestfjörðum en í dag er bæði bjart og fallegt.
Vísindavefurinn upplýsir ennfremur að íslenska heitið höfuðdagur virðist fyrst koma fyrir í bréfi frá 15. öld en þó þannig að nafnið var tengt Jóhannesi skírara, það er ákveðinn verknaður fór fram „á höfuðdaginn Johannis baptiste“. Þessi siður hélst lengi. Liðið var fram á 19. öld áður en farið var að nefna daginn án tilvísunar til Jóhannesar.
bryndis@bb.is