Arctic Fish hefur ráðið Daníel Jakobsson sem forstjóra frá og með 1. maí 2025.
Daníel hefur gegnt stjórnunarstöðu hjá Arctic Fish frá árinu 2021 og veitt viðskiptaþróun fyrirtækisins forstöðu en á þeim tíma hefur hann öðlast yfirgripsmikla þekkingu á starfsemi og stefnu fyrirtækisins. Leiðtogahæfileikar hans, sérfræðiþekking og djúpar rætur í samfélaginu á Vestfjörðum gera hann vel til þess fallinn að leiða fyrirtækið í því vaxtarskeiði sem framundan er hjá Arctic Fish segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Øyvind Oaland, stjórnarformaður Arctic Fish:
„Við erum mjög ánægð með ráðningu Daníels. Laxeldi á Íslandi er enn ung atvinnugrein og lykillinn að áframhaldandi árangri veltur á framúrskarandi starfsemi sem byggir á öflugri dýravelferð, ábyrgri umhverfisstefnu og traustum fjárhag ásamt öryggi og velferð starfsfólks. Daníel hefur víðtæka þekkingu á allri starfsemi fyrirtækisins og verður með starfsstöð á Ísafirði.“
Ákvörðun stjórnar Arctic Fish að ráða úr röðum starfsmanna fyrirtækisins varpar ljósi á það markmið að starfsþróun sé grunnurinn að vexti fyrirtækisins til framtíðar.
Daníel Jakobsson, nýr forstjóri Arctic Fish:
„Arctic Fish gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnulífi Vestfjarða við framleiðslu á heilsusamlegri fæðu, í sátt við samfélag og umhverfi. Laxeldi hefur þegar markverð áhrif á útflutningstekjur Íslands og mikil tækifæri eru framundan. Ég er því mjög spenntur að halda áfram á þessari vegferð og þróa enn frekar samkeppnishæfa, framsækna og sjálfbæra starfsemi með öflugum hópi starfsfólks Arctic Fish.“
Daníel tekur við af Stein Ove Tveiten, sem verður áfram til ráðgjafar hjá fyrirtækinu til 1. júní nk. til að tryggja farsæla yfirfærslu verkefna.