Það blés ekki byrlega fyrir Vestramenn í leik við Tindastól á Torfnesvelli á laugardaginn. Tindastóll komst yfir á 16. mínútu með marki Fannars Arnar Kolbeinssonar og á 28. mínútu varð Nikulás Jónsson, leikmaður Vestra, fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark. Staðan var 0-2 fyrir Tindastól í hálfleik og Vestramenn langt frá sínu besta. Seinni hálfleikurinn var mun betri og á 70. mínútu skoraði Viktor Júlíusson og minnkaði muninn í 1-2. Það var svo Gilles Mbang Ondo sem jafnaði leikinn á fjórðu mínútu uppbótartíma og tryggði Vestra eitt stig.
Og það var svo sannarlega mikilvægt að krækja í þetta stig og ekki síður að ná tveimur stigum af Tindastóli sem hefði öðrum kosti náð að slíta sig frá liðunum sem eru í fallbaráttunni í 2. deild Íslandsmótsins.
smari@bb.is