Ég sat fund í atvinnuveganefnd á miðvikudag þar sem ráðherra ásamt fulltrúum í starfshópnum fylgdu skýrslu um stefnumótun í fiskeldi úr hlaði.
Skýrslan er mjög upplýsandi, á margan hátt skýr og afdráttarlaus og róttæk á köflum en auðvitað ekki tæmandi og útfærsla á mörgum atriðum ekki skýr. Starfshópurinn gerir ýmsar tillögur um úrbætur í starfsumhverfi fiskeldis. Þær lúta m.a. að lagabreytingum, aukinni skilvirkni, eftirliti og ábyrgð fyrirtækja í þessum rekstri, m.a. nýju leyfisveitingaferli sem verður einfaldara og gegnsærra. Fram kom hjá ráðherra að leyfin verða í sjálfu sér framseljanleg og í þeim fólgin mikil verðmæti.
Starfshópurinn gerir tillögur um auðlindagjald og hvernig verði staðið að innheimtu og ráðstöfun þess og það finnst mér áhugaverður þáttur málsins.
Ráðherra leggur mikla áherslu á fagleg og vísindaleg vinnubrögð við mat á mögulegri röskun á vistkerfinu og að þess verði gætt að það verði sem minnst og ég tek undir þessi sjónarmið. Við þurfum að vinna að uppbyggingu atvinnulífs í sátt við umhverfi og náttúru og maðurinn er vitaskuld hluti af náttúrunni.
Ráðherra leggur áherslu á að okkar færasta fólk á þessu sviði séu vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar og telur að byggja eigi á faglegu áhættumati stofnunarinnar. Það mat sé ekki endilega hinn stóri endanlegi dómur, heldur sé þetta lifandi viðfangsefni sem geti tekið breytingum í ljósi aðstæðna.
Í nýlegu áhættumati Hafró er innblöndun eldisfisks í laxveiðiám skilgreind og þröskuldsmörk sett við 4% af fjölda villtra laxa. Samkvæmt því, er áhættumat erfðablöndunar í Ísafjarðardjúpi alls ekki yfir þeim mörkum en hugsanlega þó í efri hlutanum. Við matið er stuðst við líkan sem atvinnuveganefnd mun fara fram á að verði kynnt á fundi með Hafrannsóknarstofnun. Eftir því sem ég best hef hlerað, þá mun það ekki eiga sér langa þróunarsögu í þessu umhverfi sem við erum að fjalla um, ekki nándar nærri gagnreynt og það veikir niðurstöðurnar.
Það eru sem sé aðallega fjórir þætti í þessu máli sem mér finnst óásættanlegir og þurfa að fá miklu yfirvegaðri umfjöllun.
Í fyrsta lagi, þá erum við undir 4% þröskuldsmörkum innblöndunar eldislax við villta stofna í Djúpinu. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu starfshópsins, þá reiknar líkan Hafrannsóknarstofnunar út líkindi á innblöndun í hæsta lagi rúmlega 3%.
Í öðru lagi er í áhættumati Hafró stuðst við líkan sem kann að vera ófullburða. Með þessu er ég ekki með nokkru móti að kasta rýrð á ágæta vísindamenn stofnunarinnar, til þess er ég ekki umkominn. Hin afdrifaríka og veika niðurstaða útheimtir hins vegar mjög gagnrýna umræðu um þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar.
Í þriðja lagi verður að draga fram að þær laxveiðiár sem um ræðir eru raunar ekki uppfullar með villtum stofnum í þeim skilningi, heldur ræktaðar upp á nokkurra áratuga tímabili af manna völdum. Ef allt færi á versta mögulega veg, þá væri hægt að koma þeim í samt lag að nýju.
Í fjórða lagi, þá spurði ég ráðherra á fundinum á miðvikudag hvað af raunhæfum mótvægisaðgerðum væri tekið inn í áhættumatið. Hún staðfest að í áhættumatinu væri ekkert tillit tekið til hugsanlegra mótvægisaðgerða. Eins og viðurkennt er, þá geta þær falist í ýmsum aðgerðum. Bent hefur verið á öflugt eftirlit við árnar og ágætar tæknilausnir sem þegar eru til, notkun á stærri seiðum í sjókvíum og notkun á eldisfiski með síðbúnum kynþroska svo eitthvað sé nefnt.
Krafan er sú að áhættumatið verði endurskoðað strax. Með öflugum og raunhæfum mótvægisaðgerðum er næsta víst að draga megi verulega úr þeirri áhættu sem menn skelfast þannig að byggja megi upp sjókvíaeldi við Djúp eins og stefnt hefur verið að.
Þingmenn kjördæmisins hafa ákveðið að koma saman á næstu dögum og fara yfir þessa stöðu sem uppi er og ég spái því að þessi málefni muni taka drjúgan tíma af starfinu á vettvangi þingsins, bæði atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar á næstunni því mikið er í húfi.
Guðjón S. Brjánsson
alþingismaður