Við skulum biðja Guð að hjálpa okkur

Magnús Reynir Guðmundsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hélt nú í hádeginu aukafund, um þá aðför stjórnvalda, sem gerð er þessa dagana, að banna laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Í fararbroddi þessarar aðfarar fer sjávarútvegsráðherra, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, sem hirðir ekki um hagsmuni fólksins við Djúp, sem reynir að efla atvinnu- og mannlíf eftir áratuga varnarbaráttu.

Ráðherrann slær út af borðinu þær væntingar íbúa Ísafjarðarbæjar og nærliggjandi sveitarfélaga sem þeir hafa haft til laxeldis undanfarin misseri. Væntingar sem nú þegar hafa haft áhrif með fjölgun íbúa, auknum byggingar- framkvæmdum og hækkun húsnæðisverðs á svæðinu. Þetta er illvirki og verður í minnum haft. Að slá á hendur heimamanna eins og fyrirtækisins Háafells, sem í sex ár hefur ekki fengið afgreiðslu hjá stofnanakraðaki framkvæmdavaldsins, í þessu tilviki á ábyrgð sjávarútvegsráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Einstakir þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa vakið athygli með „fjarveru“ sinni þegar fiskeldismál eru í umræðunni. Hvar eru t.d. Lilja Rafney, Haraldur Benediktsson, Kolbrún Gylfadóttir og Guðjón Brjánsson ? Hafi þessir þingmenn tekið afstöðu með hagsmunum Vesstfirðinga í laxeldismálum, þá hefur það farið fram hjá mér.

Á bæjarstjórnarfundinum áðan sögðust bæjarfulltrúarnir munu halda áfram að berjast fyrir hagsmunum umbjóðenda sinna. En hvar er vígvöllurinn ? Áhugalausir þingmenn og illviljuð, skilningslaus ríkisstjórn ?

Þau hræða sporin, Vegamál (Teigskjarr), Raforkumál ( Hvalárvirkjun) og nú Laxeldismál.   Nei, sveitarstjórnarfólk getur ekki vænst stuðnings frá ráðherrum og þingmönnum. Það virðist ljóst.

Við skulum biðja Guð að hjálpa okkur.

Magnús Reynir Guðmundsson

 

DEILA