Íslenska kalkþörungafélagið ehf. áformar að hefja vinnslu á kalkþörungaseti úr Ísafjarðardjúpi á Vestfjörðum og hefur kynnt frummatsskýrslu um áformin Framkvæmdin felur í sér efnisnám af hafsbotni sem nemur allt að 120.000 rúmmetrum á ári. Efnið verður unnið frekar í verksmiðju sem líklega verður staðsett á Súðavík og er áætlað að flytja vöruna á erlendan markað. Áform um staðsetningu verksmiðju á Súðavík eru þó ekki fullfrágengin vegna óvissu um raforku til verksmiðjunnar.
Í matsvinnu var lagt mat á áhrif framkvæmdarinnar á umhverfisþættina lífríki botns, vatnsgæði sjávar, auðlindina kalkþörungaset, samfélag, fornleifar og landbrot. Niðurstaðan er í megindráttum sú að vegna framlagðra mótvægisaðgerða sem fela í sér tilflutning á lifandi yfirborðslagi kalkþörunga komi framkvæmdin til með að hafa óveruleg neikvæð áhrif á lífríki botns og auðlindina kalkþörungaset. Sú niðurstaða er þó bundin ákveðinni óvissu þar sem mótvægisaðgerðin hefur ekki verið reynd á svo stóru svæði áður. Ráðgert að vinna um 18% af kalkþörungaseti í Ísafjarðardjúpi og því ekki hætta á ofnýtingu líkt og þekkist frá Evrópu.
Áhrif framkvæmdarinnar á aukið landbrot eru talin óveruleg og áhrif á vatnsgæði sjávar eru sömuleiðis talin óveruleg. Áhrif á fornleifar eru talin óveruleg en það byggist á því að fjórir mögulegir minjastaðir verði skoðaðir nánar áður en til framkvæmda kemur. Áhrif mögulegrar landfyllingar vegna verksmiðju við Langeyri í Álftafirði á fornleifar eru einnig talin óveruleg ef tekið er tillit til mótvægisaðgerða sem fela í sér m.a. tilflutning á hvalbeinum. Áhrif á samfélag eru annars vegar óveruleg neikvæð hvað varðar loftmengun, ásýnd, hávaða, ferðaþjónustu og aðra nýtingu og talsverð jákvæð hvað varðar atvinnusköpun. Samlegðaráhrif núverandi og fyrirhugaðrar starfsemi að viðbættri fyrirhugaðri efnistöku eru háð óvissu en mikilvægt er að sett verði af stað vöktun á vatnsgæðum sjávar svo meta megi burðarþol Ísafjarðardjúps gagnvart starfsemi sem getur haft mengandi áhrif og mögulegt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana. Það er mat framkvæmdaraðila að fyrirhuguð efnistaka hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif.
bryndis@bb.is