Áhrif veikingar bandaríkjadollara og lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu hafa ekki skilað sér út í verðlag á bensíni og dísilolíu hér á landi.
Eldsneytisverð er, eins og verið hefur, hærra á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í hádegisfréttum á Ríkisútvarpinu í gær.
Bandaríkjadollari hefur veikst í kjölfar tollaáforma Donalds Trump Bandaríkjaforseta og heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað sömuleiðis. Þegar Trump greindi frá tollaákvörðunum sínum í byrjun mánaðarins var verð á hráolíu 71 dollari á tunnu en hefur lægst farið í 59 dollara á hverja tunnu.
„Þetta er fákeppnismarkaður og það virðist ráðast meira af tilfinningu hvernig menn breyta verðum stundum. Svo er hið fornkveðna að verðin eru fljótari upp en niður, það er rakettan og fjöðrin,“ segir Runólfur.
Runólfur segir að áhrifin má helst sjá í lækkun á eldsneytisverði hjá Costco, að sögn Runólfs, líterinn þar kostar 270 krónur sem er um 13 krónum lægra en ódýrasta lítraverðið annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.