Fram kemur í nýjustu mánaðaskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að raunverð íbúða hefur hækkað um 3,3% á hverju tólf mánaða tímabili að meðaltali á síðustu fjórum áratugum. En ávöxtunin hefur sveiflast á tímabilinu milli þess að vera neikvæð um allt að 28% til þess að vera jákvæð um 40%.
HMS gefur út sameinaða vísitölu íbúðaverðs, en með henni má sjá þróun íbúðaverðs eftir mánuðum frá árinu 1981². Hægt er að skoða raunávöxtun húsnæðis með því að skoða hækkun vísitölunnar með tilliti til hækkunar á vísitölu neysluverðs hjá Hagstofu.
Myndin hér að ofan sýnir tólf mánaða raunávöxtun íbúða frá árinu 1982, mælda sem tólf mánaða breytingu sameinaðrar vísitölu íbúðaverðs umfram breytingu á vísitölu neysluverðs án húsnæðis á sama tíma.
betri ávöxtun en af hlutabréfum
Til samanburður er þess getið í skýrslunni að íbúðaverð hefur hækkað töluvert meira en innlend hlutabréfa á síðustu tíu árum, auk þess sem minna flökt hefur verið á meðalverði íbúða heldur en meðalverði hlutabréfa. Þetta kemur fram þegar vísitala íbúðaverðs er borin saman við úrvalsvísitölu Kauphallarinnar.
Á mynd hér að neðan má sjá vísitölu íbúðaverðs og þriggja mánaða meðaltal Úrvalsvísitölunnar á síðustu tíu árum¹. Vísitala íbúðaverðs hækkað um 166% frá ársbyrjun 2015, eða að meðaltali um 11% á tólf mánaða tímabili. Úrvalsvísitalan hefur hins vegar hækkað um 100% á sama tíma, eða að meðaltali um 7% á tólf mánaða tímabili.
