Húsnæðisáætlun Bolungavíkurkaupstaðar fyrir næstu 10 ár hefur verið afgreidd. Í henni er lagt mat á fjölgun íbúa næstu árin og þörf á nýjum íbúðum.
Í forsendum fyrir spánni segir að næstu ár muni markast m.a. af miklum uppgangi í fiskeldi og stuðningsgreinum þess á norðanverðum Vestfjörðum. Vísað er í skýrslu KPMG um áhrif fiskeldis á Vestfjörðum þar sem fram kemur að áætlað er að yfir 1000 bein störf munu skapast í fiskeldi á Vestfjörðum á næstu árum ásamt enn fleiri óbeinum störfum. Stór hluti þessara starfa muni skapast á norðanverðum Vestfjörðum. Íbúaspáin tekur því mið af mikilli eftirspurn eftir fólki við uppbyggingu ásamt framtíðaruppbyggingu í nýjum atvinnugreinum.
Íbúum í Bolungarvík hefur fjölgað um 30 á ári sl. þrjú ár segir í áætluninni. Gert er ráð fyrir að sú þróun haldi áfram næstu ár, en bæti svo í þegar lengra líður á áætlunartímabilið.
„Engar horfur eru um að uppbygging í atvinnulífi sé að minnka. Í dag eru í bígerð umfangsmikil uppbygging íbúahúsnæðis. Bæði fjölbýli og einbýli. Bæði fasteignafyrirtæki og einstaklingar. Búið er að úthluta 30 lóðum sem hluti af þessu verkefni sem byggðar verða á næstu árum.“
Birtar eru þrjár spár, háspá, miðspá og lágspá út fram því hversu vel forsendur ganga eftir. Í miðspánni segir að íbúum muni fjölga um 230 á næstu fimm árum eða um 21,9% og fjölgunin næstu 10 árin verði 520 manns eða 49,5%.
Samkvæmt sömu spá þarf 97 nýjar íbúðir á næstu fimm árum og 219 nýjar íbúðir á næstu tíu árum, sem er fjölgun um 22%.
Samkvæmt mannfjöldaspánni eru nú 80 leikskólapláss í sveitarfélaginu en þörfin er 88 pláss. Þörfin mun vaxa með fjölgun íbúa og skv. miðspánni verður hún 127 pláss eftir tíu ár. Það mun því þurfa að fjölga leikskólaplássum um tæplega 60% á spátímabilinu.
Varðandi grunnskólann, þá eru 145 börn í skólanum nú og núverandi skóli tekur 200 börn. Spáin gerir ráð fyrir fjölgun grunnskólabarna í 209 eftir 10 ár og sveitarfélagið er því vel í stakk búið að taka við fjölguninni.