Dagana 1.–4. maí verður haldin sérstök húðflúrráðstefna á Hólmavík sem hluti af menningar- og listahátíðinni Galdrafár á Ströndum. Á ráðstefnunni mun fjölþjóðlegur hópur húðflúrlistamanna koma saman til að vinna, sýna list sína og veita innsýn í fjölbreytta og skapandi flúrmenningu víðs vegar að úr heiminum.
Húðflúrlistamennirnir sem taka þátt eru af öllu hjarta tileinkaðir list sinni, og sá sem kemur lengst að sækir ráðstefnuna alla leið frá Nýja Sjálandi. Gestir ráðstefnunnar fá tækifæri til að kynnast listamönnunum, sjá þá að störfum og – fyrir þá sem hafa lengi langað – ná sér í húðflúr eftir hágæða listamann, hér á Vestfjörðum, þar sem slíkt tækifæri býðst sjaldan.
Aðgangur að húðflúrráðstefnunni er innifalinn í miða á Galdrafár hátíðina, en einnig er hægt að kaupa miða sérstaklega að ráðstefnunni við innganginn en verðin eru eftirfarandi: 1500kr alla daga nema laugardag en þá er verðið 2000kr. Fyrir þá sem eru mjög áhugasamir er hægt að kaupa helgarpassa að húðflúr ráðstefnunni á 4000kr.
Í tilkynninngu segir að allir áhugasamir – hvort sem þeir eru flúrunnendur, forvitnir áhorfendur eða menningarþyrstir ferðalangar – eru hvattir til þess að leggja leið sína á Hólmavík um mánaðamótin og verða hluti af upplifun þar sem húðflúr, list og þjóðleg menning mætast á einstakan hátt.
Nánari upplýsingar og miðasala er á heimasíðu Galdrafárs http://www.sorceryfestival.is