Arctic Fish mun áfram vinna að eldisuppbyggingu í Ísafjarðardjúpi

Seiðaeldissstöðin í Tálknafirði. Ef færa ætti eldið uppá land þyrfti 100 sinnum stærra hús og rafmagn á við 3 Mjólkárvirkjanir.

Í ljósi nýútkominnar skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem lagt er til að áhættumat sé notað til grundvallar útgáfu rekstrarleyfa þá er ljóst að fyrsta áhættumatið sem Hafrannsóknastofnun kynnti í síðasta mánuði mun hafa mikil áhrif á uppbyggingaráform Arctic Fish. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum unnið að undirbúningi fiskeldis á norðursvæði Vestfjarða og umhverfismati á 8 þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi sem fyrirhugað var að byggja upp á næstu tveimur árum.

Í tilkynningu Arctic Fish kemur fram að í kjölfar áhættumats Hafrannsóknastofnunar þá hefur Arctic Fish átt fundi með stofnuninni í samstarfi við Landsamband fiskeldisstöðva þar sem farið var yfir mögulegar mótvægisaðgerðir. Ræddar hafa verið tillögur sem Arctic Fish ætlar að þróa áfram með stofnuninni og öðrum samstarfsfyrirtækjum. Byggt á niðurstöðum þeirrar vinnu er hægt að endurmeta þær forsendur sem liggja til grundvallar fyrirliggjandi áhættumati, eftir því sem kemur fram í tilkynningu Arctic Fish. Mótvægisaðgerðirnar fela í sér talsverðar breytingar í útsetningu á seiðum í kvíar. Í Ísafjarðardjúpi yrði m.a. lögð áhersla á útsetningu stórseiða. Uppbygging nýrrar seiðaeldisstöðvar fyrirtækisins Tálknafirði gerir slíkt mögulegt.

Í skýrslu stefnumótunarhópsins er talsvert fjallað um notkun á ófrjóum laxi. Í dag hefur engum tekist að ala á arðvænan hátt ófrjóan lax en verið er að gera tilraunir í Noregi þar sem m.a. stærstu eigendur Arctic Fish, Norway Royal Salmon, eru í fararbroddi. Arctic Fish ætlar að fylgjast náið með framþróun þessarar aðferðar bæði erlendis, sem og með tilraunum við íslenskar aðstæður.

Tilkynningunni lýkur á þessum orðum:

„Frá stofnun hefur Arctic Fish haft á stefnu sinni að byggja upp fyrirtæki þar sem áhersla er lögð á umhverfisvænt eldi með sérstöðu úr náttúrulegu íslensku umhverfi. Arctic Fish ætlar því á komandi mánuðum að vinna faglega að undirbúningi mótvægisaðgerða til þess að geta hafið eldi á laxi í Ísafjarðardjúpi. Áhættumatið er byggt á forsendum og þekkingu sem liggja fyrir á hverjum tíma og tekur því mið af breytingum sem kunna að verða.

Þrátt fyrir mögulega biðstöðu í Ísafjarðardjúpi þá mun Arctic Fish halda áfram vinnu sinni við að byggja upp öflugt eldi í Dýrafirði og á suðurfjörðum Vestfjarða. Seiðaeldið er grundvöllurinn fyrir framtíðaruppbyggingu á sjókvíaeldisstarfsemi fyrirtækisins. Þegar lokið verður uppbyggingu þeirra þriggja eldishúsa sem unnið er að í botni Tálknafjarðar er áætlað að framleiðslugetan verði í kringum 5-6 milljónir seiða og í framtíðinni verður að hluta til hægt að ala stór seiði eins og mótvægisaðgerðirnar kalla á.“

smari@bb.is

DEILA