eða svo er helst að skilja á útgerðarmönnum – þeim sem treyst hefur verið fyrir gjöfulustu auðlind þjóðarinnar.
Nú þegar gerð er krafa um að þjóðin sem sannarlega er í vanda fái að njóta að einhverju leiti arðsins af auðlindinni þá mótmæla þeir hástöfum sem malað hafa undir sig gullið í áratugi sem handhafar hennar.
Þjóðin hefur í raun verið að borga með sjávarútvegnum um nokkurt skeið þar sem auðlindagjöldin hafa ekki dugað fyrir útlögðum kostnaði ríkisins í tengslum við hann. Það hlýtur að heyra til undantekningar að þjóð þurfi að greiða með sinni gjöfulustu auðlind – vart að finna dæmi um slíkt nema þá helst meðal þjóða sem myndu flokkast sem bananalýðveldi.
Það er eitthvað ekki í lagi þegar okkar áður traustasta tekjulind er fallin undir útgjaldalið í ríkisbókhaldinu.
Nú hljótum við að velta fyrir okkur hvort þjóðkjörnir fulltrúar sem deildu aflaheimildum í upphafi kvótakerfis hafi veðjað á ranga hesta.
Aflaheimildum var úthlutað frítt gegn auðlindargjaldi – ekki svo löngu síðar var þeim sem duttu í lukkupottinn leyft að leigja og eða selja frá sér þessar heimildir – svo spyrja má hvernig í ósköpunum hafi verið hægt að spila svona illa úr hlutunum eins og kveinstafir stórútgerðarinnar vitna nú um verandi með öll tromp á hendi ?
Kveinstafir útgerðarmanna nú segja okkur að þeir hafa brugðist trausti okkar og ekki skilið þá ábyrgð sem þeim var falin – því siðferðilega rétt að þeir skili inn aflaheimildum svo hægt verði að afhenda þær öðrum sem treysta sér til að gera betur fyrir hóflegri arðgreiðslur en tíðkast hafa hjá stórútgerðinni hingað til.
Arðgreiðslur stórfyrirtækja í sjávarútvegi hafa lengi verið umdeildar þar sem um gríðalegar fjárhæðir hefur verið að ræða – enda hér fyrirtæki á ferð sem ekki hafa treyst sér til að greiða sanngjarna rentu í þjóðarbúið fyrir einkaafnot af dýrmætustu auðlind þjóðarinnar.
Stórútgerðin hefur síðan verið að nota þennan arð til fjárfestinga í í öðrum óskyldum greinum – þannig aukið völd sín stórlega hér á landi. Í ljósi þessa er vert að hafa í huga að ekkert vald er eins hættulegt og auðvald án ábyrgðar – það hótar og kúgar og það getur sett allt á hliðina þjóni það hagsmunum þess – án tillits til alls annars.
Er fólk yfirleitt að gera sér grein fyrir hvað hér um ræðir?
Laxeldi í nokkrum sjókvíum er að gefa af sér milljarða til eigenda – svo 200 mílna fiskveiðilögsaga ætti ef rétt væri að málum staðið að vera gullnáma þjóðarinnar í dag eins og hún var áður en sjávarútvegurinn var einkavæddur.
Útgerðarmenn bera gjarnan fyrir sig að viðhaldið í greininni sé svo kostnaðarsamt því hún þurfi að vera samkeppnishæf. Þetta er billegur fyrirsláttur – ef laxeldið er tekið til samanburðar þá virðist vera þó nokkur útgerð í kringum það miðað við aflamagn – samt er hagnaðurinn talin í milljörðum og þrátt fyrir tíð afföll í sambandi við sjúkdóm og rof á kvíum.
Norðmenn sækja það fast að fá afnot af íslenskum fjörðum undir laxeldi því það þykir gróðravænlegt – á meðan barma sér íslenskir útgerðarmenn sem hafa yfir að ráða 200 mílna fiskveiðilögsögu og segjast ekki aflögufærir.
Það er eitthvað bogið við þetta
Nú segjast höfðingjar stórútgerðanna hafa áhyggjur af landsbyggðinni vegna væntanlegra breytinga á veiðigjöldum – en spyrja má hvar þeir hafi verið staddir siðferðilega þegar þeir fóru fjarða á milli og hreinsuðu þar upp kvóta og skildu íbúana eftir bjargalausa. Það virðist þá ekki hafa örlað á samviskubiti hjá þeim né þá heldur áhyggjum af afkomu þeirra sem eftir sátu sviptir lífsviðurværinu og ævistörfunum. Þessar nýtilkomnu áhyggjur höfðingjanna eru auðvitað ekkert annað en fyrirsláttur og hræsni – sem þeir munu væntanlega skýla sér á bak við taki enn frekar að halla undan fæti á landsbyggðinni.
Þessir menn eru gríðalega valdamiklir – þeirra þræðir liggja víða um íslenskt samfélag og þeir þræðir eru ekki spunnir úr gæsku og mannkærleika né heldur samvisku og ábyrgð – þeir eru samtvinnaðir úr græðgi og ásælni í völd og meiri völd.
Fólk talar helst ekki orðið um sjávarútvegsmál hér nema í hálfum hljóðum eins og við messugjörðir af því að það er hrætt við að viðra skoðanir sínar á þessu skrímsli sem sjávarútvegsstefna þjóðarinnar er – sá ótti er ekki sprottinn upp úr engu – það er klárt.
Leiða má að því líkum að sumir flokkar hafi verið farnir að gæla við nýfrjálshyggjuna þegar sjávarútvegsstefnan var í mótun með sínum göllum – sem liggja nú fyrir þar sem sjávarútvegurinn getur vart flokkast undir annað en ríkisstyrktan einkarekstur í dag – samt virðist alltaf vera afgangur til að greiða út rausnalegan arð til hluthafa útgerðanna – sem á stundum hefur verið notaður til fjárfestinga í ríkiseigum – þeim sem ríkið hefur neyðst til að selja til að geta svo stoppað upp í fjárlagagötin – sem lengi hafa verið árviss af því að þjóðarbúið nýtur ekki lengur arðsins af auðlindinni.
Það kerfi sem smíðað hefur verið í kringum aðrbærustu auðlind þjóðarinnar hlýtur að vera meingallað þar sem réttir eigendur hennar þurfa að borga með henni – það hljóta allir að sjá – en sennilega skortir ráðamönnum kjark eða vilja til að umbylta því í þágu þjóðar.
Hækkun veiðigjalda er vissulega skref í rétta átt og almenningur örugglega þakklátur því að loksins hafi verið hlustað eftir hans vilja – en betur má ef duga skal.
Íslendingar koma stundum saman á Austurvelli til að mótmæla misgjörðum – en vitið – það er líka hægt að mæta á Austurvöll og styðja ríkisstjórn til góðra verka þegar stjórnarandstaðan ætlað með málþófi að standa gegn þjóðarvilja og hag.
Í hvernig þjóðfélagi viljum við búa?
Viljum við búa við alræði auðvaldsins eins og sumstaðar er veruleiki í sjávarplássum út á landi þar sem stórútgerðir ráða lögum, lofi og lasti – þar sem þeir sem hafa skoðanir á óheilbrigðum stjórnunarháttum eru útilokaðir eða flæmdir á brott.
Svona staðir eru gróðrarstíur spillingar og hún á það til að breiða úr sér eins og sinueldur sé ekkert að gert og þá getur landið allt orðið eins og sjávarplássin sem lúta lögmálum stórútgerðanna í einu og öllu. Sumir vilja meina að landinu sé nú þegar stjórnað af auðvaldinu og að ráðamenn séu einungis þeirra strengjabrúður.
Íslenskur sjávarútvegur hefur lengi verið mitt hjartansmál því ég varð þess áskynja strax í upphafi kvótakerfisins að þar á bæ var ekki allt með felldu.
Sem dæmi þá óskaði hraðfrystistöð ein út á landi sem orðið hafði fyrir áföllum eftir að fá keyptan humarkvóta af bát í öðrum landsfjórðungi sem ekki ætlaði að nýta þann kvóta – þáverandi sjávarútvegsráðherra hafnar þeirri beiðni á þeim forsendum að gjörningurinn myndi brjóta í bága við nýsett kvótalög. Nokkrum klukkutímum síðar hringdi eigandi bátsins í þann sem hafði falast eftir kvótanum í gegnum sjávarútvegsráðuneytið og sagði honum að fyrirtæki í eigu fjölskyldu ráðherrans hafi verið að gera tilboð í humarkvótann. Það var sem sé í lagi að fara á svig við lögin þegar slekti ráðherrans átti í hlut en ekki þegar lítil vinnslustöð sem misst hafði tvo báta var annars vegar.
Ég gæti nefnt fleiri dæmi sem augljóslega sýna að kvóta í öllum tegundum var markvisst stýrt á „réttar“ hendur.
Spilling hefur loðað við kerfið frá upphafi – það er því freistandi að ætla kerfinu hafi ekki einungis verið komið á til að vernda fiskistofnana heldur og ekki síst til að hefja suma yfir aðra..
Það má svo velta fyrir sér hvort framsalahugmyndin hafi fæðst með kvótakerfinu í bakherbergjum þó hún hafi ekki litið dagsins ljós fyrr en síðar – þegar þeir „réttu“ voru búnir að sanka að sér aflaheimildum.
Það er ekkert grín að lenda í valdi sem ekki vill láta gagnrýna sig – ég þekki það af eigin raun – skoðanir mínar hafa svo oft fallið í grýttann jarveg hjá valdhöfum svo stundum hef ég átt erfitt með að gera mér grein fyrir hvaðan á mig stendur veðrið – ég get samt aldrei á mér setið þegar óréttlætið er hrópandi og gengur augljóslega gegn almannahagsmunum.
Það eina sem dugar gegn spilltu valdi er samstaða fjöldans.
Spilling verður til svo lengi sem henni er þjónað.
Lifið heil !
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir
Lífreyndur eldri borgari.