Sparisjóður Strandamanna í formlegar sameiningarviðræður

Stjórnir Sparisjóðs Höfðhverfinga hf. og Sparisjóðs Strandamanna hf. hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um mögulega sameiningu sjóðanna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send hefur verið út. Þar segir að leiði viðræðurnar til sameiningar sjóðanna verði til öflugur sparisjóður sem muni styðja vel við einstaklinga og fyrirtæki á sínum starfssvæðum sem eru aðallega í Eyjafirði og á Ströndum, jafnframt því að sækja á nýja markaði.  Fjárhagsstaða hvors sjóðs um sig er sögð sterk, báðir sjóðirnir hafi góð eiginfjárhlutföll sem og góða lausafjárstöðu.  Sameiningu sjóðanna er fyrst og fremst ætlað að hefja markaðssókn með stækkun efnahagsreikningsins.

Stærstu eigendur Sparisjóðs Höfðhverfinga eru KEA og Sænes (Grýtubakkahreppur) en eignarhald Sparisjóðs Strandamanna er dreift á fjölda einstaklinga.  Hvor sjóður um sig er með yfir 130 ára samfellda rekstrarsögu, auk þess sem báðir sjóðirnir breyttu félagsformi sínu í hlutafélag á liðnu ári.  

Gangi sameiningin eftir mun KEA strax í kjölfar sameiningarinnar leggja sjóðnum til aukið hlutafé til fyrsta áfanga í vexti sameinaðs sjóðs sem og að leggja til enn meira hlutafé síðar til frekari vaxtar skapist þær aðstæður.  Þannig verður til strax í kjölfar sameiningar mjög öflugur og vel fjármagnaður sparisjóður.  

Jóhann Ingólfsson formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga fagnar þessu skrefi sjóðanna sem eru minnstu sparisjóðirnir í dag en saman gætu þeir myndað sterkan grunn til vaxtar.  Mikilvægt sé að stækka og efla sparisjóðina til þess að mæta sterkar inn á bankamarkaðinn og viðhalda eðlilegri flóru fyrirtækja á þessum markaði.  „Við teljum góðan hljómgrunn í samfélaginu fyrir vexti sparisjóðanna, það sýna viðhorfskannanir sem við höfum látið gera.  Vonandi verði þetta upphafið að frekari sameiningum eða stækkunum sparisjóðanna í heild sinni því þeir munu verða til framtíðar áhugaverður og öðruvísi valkostur fyrir fólk og fyrirtæki á bankamarkaði.“

Víðir Álfgeir Sigurðarson formaður stjórnar Sparisjóðs Strandamanna segir að tækifæri séu í sameiningu sjóðanna, nauðsynlegt er að þróa áfram og auka samstarfs sparisjóðanna með hagsmuni eigenda og samfélagsins sem þeir vaxa uppúr að leiðarljósi.  Stórauknar kröfur um regluverk og eftirlitsumhverfi, þrátt fyrir smæð og einfaldan rekstur sjóðanna, er að gera rekstrarumhverfi þeirra flóknara.  Áfram verði unnið að auknu samstarfi sparisjóða í gegnum Samband Íslenskra Sparisjóða.  Vonir standa til að með sameiningu verði til öflugur sparisjóður með dreifðu eignarhaldi, sem styðji vel við nærsamfélagið og byggir áfram á þeirri hugmyndafræði sem sparisjóðirnar hafa alltaf staðið fyrir frá því þeir voru stofnaðir fyrir rúmlega 130 árum.

Ferðamálastofa semur við Maskínu um landamærarannsókn og brottfarartalningar

Brottfarir í janúar 2025

Ferðamálastofa bauð í byrjun febrúar út rekstur á landamærarannsókn og brottfarartalningum í Keflavík. Niðurstaða útboðsins er að Maskína tekur við rekstri rannsóknanna frá og með 1. apríl næstkomandi.

Landamærarannsóknin er ein af lykilstoðum í ferðamálatölfræði á Íslandi. Hún veitir meðal annars upplýsingar um ákvörðunarferli ferðamanna þegar kemur að Íslandsferð og ferðavenjur þeirra hér á landi, ásamt viðhorfi til þátta sem snerta ferðaþjónustuna. 

Brottfarartalningar notaðar til að varpa ljósi á þjóðernaskiptingu þeirra sem yfirgefa landið frá Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða könnun þar sem farþegar eru spurðir um þjóðerni áður en þeir ganga inn í öryggisleit. Hlutfallsleg skipting brottfararfarþega er svo umreiknuð í farþegafjölda á þjóðerni út frá tölum Isavia um heildarfjölda brottfara.

Vorjafndægur

Jafndægur eru tvisvar á ári, um 20.-21. mars og 22.-23. september. Tímasetningin hnikast örlítið milli ára, eftir því hvernig stendur á hlaupári. Jafndægur miðast við að þá er sólin beint yfir miðbaug jarðar, og þá er stefna frá miðju jarðar í sólmiðju hornrétt á snúningsás jarðar. Þessi atburður er því á tilteknu augnabliki innan dagsins. Um vorjafndægur eru dagur og nótt álíka löng og lengist dagurinn um 6-7 mínútur á hverjum degi.

Stundum er sagt að á jafndægrum séu dagur og nótt jafnlöng, sem er nærri lagi, en þetta er ekki alveg svo einfalt. Í fyrsta lagi er bjart nokkru fyrir sólarupprás og eftir sólarlag, en jafnvel tíminn milli sólarupprásar og sólarlags er ekki nákvæmlega 12 klst. á jafndægrum.

Ástæða þessa fráviks er af tvennum toga. Í fyrsta lagi miðast sólarupprás og sólarlag ekki við augnablikið þegar sólmiðjan fer niður fyrir sjónbaug (láréttan sjóndeildarhring), heldur er miðað við fyrstu og síðustu geisla sólar, þ.e. efri rönd sólkringlunnar. Í öðru lagi veldur ljósbrot í lofthjúpi jarðar því að við getum séð í sólina þar til sólmiðjan er komin um 1,1° niður fyrir sjónbaug.

Í Almanaki Háskólans má t.d. sjá að tíminn milli sólarupprásar og sólarlags á vorjafndægrum er um 12 klst. og 14 mínútur, en tveimur dögum fyrir jafndægur er dagurinn nær 12 klst.

Aflasamsetning botnvörpu- og dragnótaskipa

Fiskistofa hefur birt skýrslu yfir aflamsetningu allra botnvörpu- og dragnótaskipa með og án eftirlits frá 1. Janúar 2024.

Skýrslaner birt í 3 tímabilum til að afmarka gögnin og á upphafssíðu hennar eru settar fram notkunarleiðbeiningar.

Sjóeftirlit Fiskistofu er stór hluti af lögbundnu hlutverki stofnunarinnar þegar snýr að eftirliti með fiskveiðum og árið 2024 voru eftirlitsmenn Fiskistofu á sjó í 739 daga.

Farið var í 127 veiðiferðir með fiskiskipum og voru flest þeirra á veiðum með botnvörpu og dragnót.

Í skýrslunni má sjá hvort mismunur er á aflasamsetningu eftir því hvort eftirlitsmaður er um borð eða ekki.

Landssamband smábátaeigenda telur 26% eignarhlut nægjanlegan

Bíldudalshöfn.

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um strandveiðar sem verið hefur í samráðsgátt stjórnvalda hefur fengið 96 umsagnir nú þegar frestur til að skila inn umsögnum er liðinn.

Meðal þeirra sem sendu inn umsögn er Landssamband smábátaeigenda en þar segir, eftir að gerð hefur verið grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á reglugerðinni á liðnum árum:

„Af framangreindu má álykta að á öllum stigum breytinga hafi það verið markmið löggjafans að koma í veg fyrir að sömu aðilar gerðu út fleiri en einn strandveiðibát.
LS hefur á aðalfundum sínum viljað skerpa á ákvæðinu auk þess að tryggt yrði að raunverulegur eigandi væri lögskráður á bátinn. Samþykkt síðasta aðalfundar var engin undantekning:
„LS leggur til að skipstjóri strandveiðibáts skuli eiga minnst 26% í fyrirtæki sem gerir út strandveiðibát og það skráð í hlutafélagaskrá. Jafnframt að vera þinglýstur minnst sem 26% eigandi af sínum hlut í bátnum og jafnframt prókúruhafi. LS leggur áherslu á að ríkt eftirlit verði með eignarhaldi á bátum.“

Þar sem nú liggur fyrir að veiðidagar til strandveiða verði 48 leggur LS til að 4. mgr. reglugerðarinnar orðist svo:
„„Einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild að nema einu strandveiðileyfi.

Uppbygging hjúkrunarheimila færist til ríkisins

Hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði. Það er fyrirhuguð 10 rúma viðbygging.

Ríkið og sveitarfélögin hafa gert samkomulag um breytingar á fyrirkomulagi á uppbyggingu hjúkrunarheimila með fyrirvara um að Alþingi samþykki nauðsynlegar lagabreytingar og breytingar á fjárlögum.

Í samkomulaginu felst að ábyrgð á fjármögnun vegna uppbyggingar hjúkrunarheimila verður alfarið á ábyrgð ríkisins frá og með 1. júlí 2025 eða frá og með gildistöku á breytingum á núgildandi 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og 5. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra.

Frá 1. júlí 2025, ef fyrirhugaðar lagabreytingar ganga eftir, bera sveitarfélög framvegis ekki lengur ábyrgð á fjármögnun vegna uppbyggingar og leigu hjúkrunarheimila, auk þess sem sveitarfélögum verður ekki lengur skylt að úthluta lóðum án greiðslu gatnagerðargjalda.
Þegar sveitarfélög úthluta lóðum undir hjúkrunarheimili verður það hins vegar áfram gert án lóðarleigu og án byggingarréttargjalda enda er um almannaþjónustu að ræða. Samkomulag þetta hefur þó ekki áhrif á ábyrgðar- og kostnaðarskiptingu hjúkrunarheimila sem eru í byggingu.

Áætlað er að fjárhagslegt umfang verkefnisins geti orðið um 1,6 ma. kr. árlega en það miðar við áætlaða þörf á 1.600 hjúkrunarrýmum næstu 15 ár.

Samningsaðilar eru sammála um að taka þurfi afstöðu til eignarhalds og ábyrgðarskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar eldri hjúkrunarheimili. Samningsaðilar munu því setja á fót stýrihóp sem falið verður að útfæra nánar skiptingu á eignum milli ríkis og sveitarfélaga.
Gengið er út frá því að þar sem um sameiginlegt eignarhald ríkis og sveitarfélaga er að ræða muni
eignarhlutur sveitarfélaga í eldri hjúkrunarheimilum færast yfir til ríkisins til að einfalda verka- og
ábyrgðarskiptingu með sambærilegum hætti og gert var með eignarhlut ríkisins í grunnskólahúsnæði þegar það færðist yfir til sveitarfélaga. Ríkið mun þá jafnframt alfarið taka yfir viðhaldsskyldu á slíkum eignum sem sveitarfélög bæru annars í samræmi við eignarhlutdeild í viðkomandi eign.

Torfnes: íþróttasvæðið stækkað

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í vikunni að lóðin við Seljalandsveg 29, Ísafirði verði felld út og íþróttasvæðið á Torfnesi stækkað sem því nemur.

Jafnframt var samþykkt að heimila endurskipulagningu á deiliskipulagi íþróttasvæðsins.

Vestfjarðavegur: þungatakmörkun aflétt í Dölunum

Vestfjarðavegur í fyrra í Dölunum við Erpsstaði. Mynd: Björn Davíðsson.

Vegagerðin hefur tilkynnt að þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Vestfjarðavegi 60 frá Hringvegi 1 við Dalsmynni að Djúpvegi 61 við Þröskulda verður aflétt á morgun Laugardaginn 22. mars kl. 09:00.

Áréttað er að 10 tonna ásþungi verður áfram í gildi á Djúpvegi 61 og Vestfjarðavegi 60 frá vegamótum við Þröskulda

Vesturbyggð: ekki frekari seinkun á nýjun stórskipakanti við Patrekshöfn

Teikning af kantinum þar sem hann er lauslega staðsettur.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ræddi á fundi sínum í vikunni um áform um nýja stórskipakant við Patrekshöfn. Niðurstaða bæjarstjórnar var að leggja áherslu á að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn seinki ekki frekar en orðið er.
Samkvæmt tillögu að samgönguáætlun árin 2024-2028 var áformað að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn myndu hefjast á árinu 2025 og átti framkvæmdum að vera lokið á árinu 2027.

seinkunin: tækifæri kunna að tapast

Bæjarstjórnin tekur undir bókun heimastjórnar Patreksfjarðar sem segir um málið: „Sú seinkun sem þegar hefur orðið á að framkvæmdir við stórskipakant hefjist hefur í för með sér að mörg og dýrmæt tækifæri til frekari atvinnusköpunar og innviðauppbyggingar í sveitarfélaginu kunna að tapast.
Heimastjórn Patreksfjarðar leggur því ríka áherslu á að ekki verði frekari seinkun á því að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn hefjist og að í samgönguáætlun sem lögð verður fram í haust verði tryggt fjármagn til framkvæmda strax á næsta ári.“

Undirbúningur fyrir framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn hafa staðið yfir á síðustu árum, m.a. með öldustraumsrannsóknum sem hafa verið fjármagnaðar með framlögum úr samgönguáætlun.

Um framkvæmdina segir eftirfarandi:

„Stórskipakantur við Patrekshöfn er grundvöllur þess að unnt verði til framtíðar að efla starfsemi hafnarinnar, auka umsvif, bæta þjónustu og styrkja tekjugrundvöll. Einnig er framkvæmd við stórskipakant mikilvægur liður í því að tryggja viðunandi hafnaraðstöðu til að taka á móti þeim fjölmörgu skemmtiferðaskipum sem leggja leið sína á sunnanverða Vestfirði til að bera svæðið og náttúru þess augum. Þá er staðsetning og lega Patrekshafnar þannig að stórskipakantur mun skapa mikilvæg tækifæri til strandflutninga af sunnanverðum Vestfjörðum sem og móttöku stærri fiskiskipa sem stunda veiðar fyrir utan Vestfirði, en erfitt hefur reynst fyrir stærri skip að leggjast að bryggju vegna þrengsla í skurði hafnarinnar. Patrekshöfn er hluti af grunnneti samgangna þar sem umsvif hafnarinnar hafa aukist verulega á síðustu árum og því er mikilvægt að framkvæmdir við stórskipakant njóti algjörs forgangs þegar kemur að hafnarframkvæmdum innan sveitarfélagsins.“

Vikuviðtalið: Arna Lára Jónsdóttir

Ég heiti Arna Lára og er fædd á gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði þann 30. maí 1976. Foreldrar mínir eru þau Sigríður Bragadóttir og Jón Jakob Veturliðason. Ég á tvo bræður sammæðra þá Braga og Gulla, og svo tvö samfeðra systkin Jón Smára og Eddu. Ég er alin upp á Ísafirði með öllum þeim forréttindum og frelsi sem því fylgir. Foreldrar mínir voru ung þegar ég fæddist sem varð kannski til þess að ég bjó og var mikið á heimili ömmu og afa, Láru og Braga Magg. Þau eiga stóran þátt í uppeldi mínu.

Eins og önnur börn á Ísafirði fór ég að vinna snemma í fiski. Vinsælustu vinnustaðirnir voru Íshúsfélagið, Norðurtanginn og rækjuverksmiðjan. Ég fór að vinna í Íshúshúsfélaginu en þar voru bæði amma og mamma að vinna auk flestra vinkvenna minna. Í Íshúsfélaginu lærðum við að vinna og svo var auðvitað félagsþátturinn mikilvægur og líflegur.

Ég fékkst líka við ýmislegt annað en að vinna í Íshúsinu og  vann í bíó, fiskibúðinni og Brúarnesti. Þó svo ég hafi alltaf haft gaman af vinnu þá gekk ég líka menntaveginn. Eftir skólagöngu í Grunnaskólanum á Ísafirði fór ég í Menntaskólann á Ísafirði sem hét þá Framhaldsskóli Vestfjarða og útskrifaðist þaðan vorið 1996. Þá var haldið suður á leið í Háskóla Íslands.

Þegar ég var komin suður fór ég í stjórnmálafræði eftir stutta umhugsun en hafði verið búin að skrá mig í lögfræði en fannst það ekki nógu líflegt fyrir mig. Það var virkilega góð ákvörðun.

Ég átti mitt fyrsta barn Hafdísi, á námsárunum með þáverandi sambýlismanni mínum. Hún var bara nokkra daga gömul þegar hún fékk að fara í fyrstu tímana sína í HÍ en það hlýtur að hafa haft góð áhrif á hana þar sem hún er núna í doktorsnámi í efnafræði í Oxford. Eftir stjórnmálafræðina bætti ég við mig viðskiptafræði og tók hluta af náminu í Kaupamannahöfn þar sem seinni dóttir okkar Helena fæddist. Hún er með sterkar vestfirskar rætur og er að ljúka stýrimannsnámi við Tækniskólann nú í vor.

Eftir dvölina í Kaupamannahöfn var haldið aftur heim á Ísafjörð. Mér bauðst vinna hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða þar sem ég öðlaðist fjölbreytta reynslu af atvinnu- og byggðaþróun á Vestfjörðum sem hefur gagnast mér afar vel. Aðalsteinn Óskarsson fyrrum framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélagsins var sérlega góður mentor. Lengst af starfaði ég hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands eða allt til 2020 þegar ég réði mig sem svæðisstjóri Eimskips á Vestfjörðum.        

Á Ísafirði kynntist ég núverandi sambýlismanni mínum Inga Birni Guðnasyni sem ætlaði að stoppa tímabundið fyrir vestan og er þar enn 18 árum seinna. Saman eigum við Dag 12 ára sem heldur okkur á tánum.

Pólitíkin

Ég fór snemma að hafa áhuga á pólitík þótt ég hafi ekki verið virk í stjórnmálastarfi fyrr en ég gekk í Samfylkinguna árið 2005. Ég er alin upp eftir gildum Kvennalistans og sótti marga fundi í fylgd mömmu og ég er viss um að það hafi verið mótandi og mannbætandi, og haft meiri áhrif en ég geri mér grein fyrir.  Það var svo fyrir bæjarstjórnarkosningarnar árið 2006 að Bryndís Friðgeirsdóttir fyrrum bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar hvatti mig til að bjóða mig fram en hún hafði þá ákveðið að hætta og vildi styðja mig til stjórnmálaþátttöku. Ég tók slaginn og síðan þá hef ég litið á Bryndís sem pólitíska móður mína, og hún hefur stutt mig og Samfylkinguna með ráðum og dáð í gegnum tíðina. Það þurfa allir að eiga eina Bryndísi í sínu lífi.

Nú í febrúar sagði ég mig úr bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eftir 19 ára setu. Ég hef verið mjög lánsöm með samferðafólki í pólitíkinni og mér hefur verið treyst fyrir ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæinn. Vænst þótti mér um að fá traust til að sinna starfi bæjarstjóra en það fylgir því mikill heiður að fá stýra heimabænum sínum og þá sérstakalega að fá taka þátt í uppbyggingunni og vextinum síðustu ár.

Meðfram sveitarstjórnarmálunum hef ég líka tekið virkan þátt í starfi Samfylkingarinnar á landsvísu. Ég hef tekið nokkrum sinnum sæti á Alþingi sem varamaður frá árinu 2009 og var svo kosin þingmaður Norðvesturkjördæmis í nóvember síðastliðnum. Um tíma gegndi ég líka starfi ritara flokksins.

Þátttaka í stjórnmálastarfi hefur verið mikið heillaskref fyrir mig þótt mörgum ói við að taka þátt í slíku starfi. Í gegnum pólitíkina hef ég kynnst fjölmörgum og bætt við mig nánum vinum sem  er ómetanlegt. Það er líka gefandi að fá að taka þátt í mótun samfélagsins þótt mörg krefjandi verkefni séu hluti af þeirri vinnu.

Það var mikill heiður fyrir mig að vera kosin á Alþingi í nóvember sem þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Það er algjör forréttindi að fá að starfa á þessum vettvangi og ég hlakka til að takast á við verkefnin og leggja mitt á vogarskálarnar.

Nýjustu fréttir