Háskólasetur Vestfjarða – Sterk stoð í samfélaginu í 20 ár

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

Háskólasetur Vestfjarða fagnar 20 ára starfsafmæli þann 14. mars. Frá stofnun þess árið 2005 hefur Háskólasetrið skipað sér sess sem öflugt mennta- og rannsóknasetur á landsbyggðinni og leitt til mikilvægra efnahagslegra, samfélagslegra áhrifa á Vestfjörðum. Háskólaseturið hefur sannað sig sem mikilvægur hlekkur í nýsköpun og samfélagslegri þróun á Vestfjörðum.  

Mikilvægi og hlutverk Háskólaseturs

Þegar Háskólasetur Vestfjarða var stofnað var markmiðið skýrt: Að efla háskólamenntun á Vestfjörðum og stuðla að efnahagslegri og samfélagslegri þróun svæðisins. Þetta var stórt skref á þeim tíma, enda höfðu landsbyggðirnar löngum glímt við fólksfækkun og takmarkað aðgengi að háskólanámi. Með því að koma á fót Háskólasetri Vestfjarða var lagður grunnur að menntunartækifærum á svæðinu og aukinni háskólasókn.

Háskólasetrið hefur byggt upp námsleiðir sem höfða til alþjóðlegra nemenda og háskólasamfélagsins almennt. Námsbrautir í haf- og strandsvæðastjórnun og sjávarbyggðafræði hafa laðað til sín nemendur víðs vegar að úr heiminum og gert Ísafjörð að mikilvægum punkti í fræðilegrar umfjöllunar um vistkerfi sjávar, nýtingu náttúruauðlinda og samfélagsþróun á breiðum grunni. Þannig hefur setrið ekki aðeins opnað dyr fyrir Vestfirðinga til háskólanáms heldur einnig gert Ísafjörð og Vestfirði að kjörsvæði fyrir rannsóknir og fræðastarf.

Lyftistöng fyrir atvinnulífið

Efnahagsleg áhrif Háskólaseturs Vestfjarða á svæðinu eru fjölþætt. Háksólasetrið hefur skapað störf fyrir sérfræðinga og kennara og dregið að sér námsmenn og fræðafólk sem leggur sitt af mörkum til samfélagsins. Á sama tíma hefur það skapað ný tækifæri fyrir ferðaþjónustu, húsnæðismarkað og nýsköpun.

Nemendur sem koma til Vestfjarða til náms hafa margir hverjir ákveðið að setjast að á svæðinu eða komið aftur eftir nám. En á hverju ári eru um 80 nemendur búsettir á Vestfjörðum á vegum Háskólaseturs. Þessi þróun hefur styrkt byggð og veitt svæðinu nauðsynlega innspýtingu í formi ungs, menntaðs fólks.

Starfsemi Háaskólasetur Vestfjarða hefur líka leitt af sér mikilvæg störf og þekkingaruppbyggingu. Fjölmörg dæmi eru um ný fyrirtæki sem nemendur hafa byggt upp á svæðinu sem hafa auðgað vestfirskt samfélag. Nemendur og kennarar Háskólasetur hafa líka verið mikilvægir starfsmenn í atvinnulífinu t.a,m. í vaxandi ferðaþjónustu og hjá nýsköpunarfyrirtækjum á borð við Kerecis svo eitthvað sé nefnt.

Rannsóknir á vegum Háskólaseturs hafa leitt til nýrra tækifæra og aukið stuðning við nýsköpun á sviði sjávarútvegs, ferðaþjónustu og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda.

Það voru stór tímamót í sögu Háskólaseturs Vestfjarða þegar stúdentagarðarnir í Fjarðarstrætinu voru opnaðar 1. desember 2024 sl. Húsin tvö eru stórglæsileg (nema kannski umdeildu lofttúðurnar) og með 40 íbúðum. Þar með var leyst úr brýnni húsnæðisþörf háskólanema og samhliða losaði líka um á almennum leigumarkaði.

Háskólasetur Vestfjarða – það lengi lifi

Á tuttugu árum hefur Háskólasetrið sannað mikilvægi sitt fyrir Vestfirði og íslenskt fræðasamfélag. Það hefur verið burðarás í menntun, samfélagsuppbyggingu og efnahagsþróun á svæðinu og veitt Vestfirðingum aðgang að menntun sem áður var einungis aðgengileg á höfuðborgarsvæðinu. Áframhaldandi starfsemi og þróun Háskólaseturs er ekki aðeins mikilvæg fyrir háskólamenntun heldur einnig fyrir framtíð byggðar á Vestfjörðum. Með skýrri framtíðarsýn og öflugu samstarfi mun Háskólasetrið áfram vera hornsteinn fræðastarfs, nýsköpunar og samfélagslegrar þróunar í fjórðungnum.

Við Vestfirðingar fögnum þessum merku tímamótum og erum þakklát fyrir það gæfuskref sem tekið var fyrir tuttugu árum með stofnun Háskólasetur Vestfjarða. Horfum bjartsýn til framtíðar og til hamingju með daginn!

Arna Lára Jónsdóttir

Oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Strandabyggð: verulegar skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri Strandabyggðar. Mynd: visir.is

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar segir aðspurður um afstöðu Strandabyggðar til tillagna um breytta úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóðis veitarfélaga að það sé í sjálfu sér lítið um það að segja, þar sem legið hefur fyrir í nokkurn tíma að regluverkinu yrði breytt, enda sé vel tímabært. 

„Fyrir Strandabyggð felur breytingin í sér verulega skerðingu á framlögum á næstu árum.  En, í þeirri mynd sem breytingarnar voru kynntar fyrir sveitarstjórn nýlega, er skerðingin minni en áætlað var.   Það sem er jákvætt við þessar breytingar er að nýtt regluverk er einfaldara  og þá er það jákvætt að meta allar breytur saman, en ekki sem stakar stærðir og áður var.“

Samkvæmt tillögunum munu framlögin lækka um 51 m.kr. og verða 148 m.kr. en eru 197 m.kr. samkvæmt úthlutun miðað við gildandi reglur.

Snæhagl eða íshagl

Sunnudaginn 13. mars 2022 birtust myndir frá Vestmannaeyjum þar sem að bæjarbúar tóku eftir risa hagli en hver er munurinn á snæhagli og íshagli?

Hagl er yfirleitt flokkað í snæhagl og íshagl, en íshagl er sjaldgæft á Íslandi.  Yfirleitt er hagl á Íslandi einungis 2-5 mm að þvermáli, og nær sjaldan yfir 10 mm.  Erlendis eru dæmi um yfir 10 cm hagl-klumpa sem geta valdið miklu tjóni á mannvirkjum og uppskeru.

Hagl myndast í skúra- og éljaflókum, sem myndast þegar loft verður óstöðugt með því að rakt loft nálægt yfirborði verður á einhvern hátt eðlisléttara en loftið fyrir ofan og það verður lóðrétt hreyfing.  Þegar rakt loft rís, þá lækkar loftþrýstingur og hiti og raki loftsins þéttist og myndar skýjadropa.  Við það léttist loftið enn meira.  Þegar skýjadropar fara hærra í uppstreymi þá frjósa þeir og rifna í ísflísar.  Í uppstreymisvindinum hnoðast snjó- og ísflísar í haglkorn.  Haglkornin stækka og á  endanum verða þau of þung og falla á móti uppstreyminu og ná til jarðar.  Í skúraflókum myndast líka hagl, en munurinn er að það bráðnar áður en það nær til jarðar.

Til að ná mikilli stærð þarf haglið að ferðast upp og niður skýið nokkrum sinnum og þarf þá uppstreymisvindurinn að vera mjög hár.  Í íshagli er unnt að sjá lagskiptingu ís/frauð ef korn eru skorin í sundur, líkt og árhringir í trjám, fyrir hverja ferð upp og niður éljaflókann. Yfirleitt fer íslenskt hagl einungis eina ferð upp og niður.

Sama skýjagerð og myndar hagl, getur einnig framleitt eldingar, en engar eldingar mældust yfir Vestamannaeyjum 13. mars.

Samkvæmt veðursjám fór mjög öflugur éljaflóki yfir Vestmannaeyjar 13. mars 2022.  Flókinn kom úr suðri og fór yfir Vestmannaeyjar og náði fyrir tilviljum mestum styrk á sama tíma.  Styrkur endurkasts ofan við Vestmannaeyjar fór hæst upp í 55 dBZ kl. 17:30 séð frá veðursjá í Keflavík, sem er mjög hátt gildi.

Af vefsíðunni vedur.is

Útboð á flugi til Bíldudals og Gjögurs

Bíldudalsflugvöllur. Bíldudalsvegur er frá flugvellinum og inn Arnarfjörðinn og upp á Dynjandisheiði að Helluskarði.

Vegagerðin hefur auglýst rekstur á áætlunarflugi á Íslandi – sérleyfissamningur, á eftirfarandi flugleiðum:

1. (F1) Reykjavík – Gjögur ‐ Reykjavík
2. (F2) Reykjavík – Bíldudalur ‐ Reykjavík

Samningstími er 3 ár, frá 16. nóvember 2025 til 15. nóvember 2028, með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum, eitt ár í senn.

Útboðsgögn eru aðgengileg og verða afhent í rafræna útboðskerfinu TendSign  frá og með fimmtudeginum 27. febrúar 2025 og skal tilboðum skilað rafrænt í því útboðskerfi fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 1. apríl 2025.

Norlandair sem sinnir áætlunarflugi á milli Reykjavíkur og Bíldudals hefur flogið þangað flesta daga vikunnar og til Gjögurs hefur flugfélagið flogið tvisvar í viku.

Haustið 2020 gekk Vegagerðin frá samkomulagi við Norlandair um flug á þessum flugleiðum sem var kært til kær­u­nefnd­ar útboðsmá­la. Eft­ir að kær­u­nefnd útboðsmá­la aflétti stöðvun­ar­kröfu tók Vega­gerðin nýja ákvörðun um val til­boða þann 14. októ­ber, það val var einnig kært. 

Kær­u­nefnd útboðsmá­la aflétti stöðvun og heim­ilaði samn­inga þann 30. októ­ber 2020. 

Að endurheimta gæðasvefn og sofa vel

Sofduvel.is er nýr upplýsinga- og fræðsluvefur átaks til vitundarvakningar um skaðsemi svefnlyfja. Markmiðið er að fræða fólk um virkni og margvíslegar aukaverkanir svefnlyfja, stuðla að skynsamlegri notkun þeirra og leiðbeina fólki hvernig það getur bætt svefn sinn án lyfja. Alma D. Möller heilbrigðisráðherra var meðal gesta þegar vitundarvakningunni var ýtt úr vör og ræddi þar um ýmsar skuggahliðar svefnlyfjanotkunar, ekki síst þegar eldra fólk á í hlut. Hún fagnar vitundarvakningunni og leggur áherslu á að til séu öruggari og betri lausnir við svefnvanda en lyf.

Allar upplýsingar og ráðleggingar eru byggðar á gagnreyndri þekkingu um svefnvandamál og voru þróaðar vegna sambærilegs átaks sem ráðist var í í Kanada og nefnist Sleepwell og hefur verið notað þar með góðum árangri.

Íslenska átakið var þróað af Önnu Birnu Almarsdóttur, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla í nánu samstarfi við Landssamband eldri borgara, ásamt fjölda aðila í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. 

Í ávarpi sínu sagði Alma með sanni mega segja að svefn sé undirstaða lífsgæða og vandamál tengd svefni sem flestir glími við einhvern tíma á lífsleiðinni geti valdið vanlíðan sem jafnvel heltaki daglegt líf. Margir leiti bót á vandanum með töku svefnlyfja, en það sé hvorki örugg né áhrifarík langtímalausn. Ávinningurinn sé takmarkaður, áhrif svefnlyfjanna séu mest í upphafi en dvíni eftir fjórar vikur. Veruleg hætta sé á að fólk festist í þeim vítahring að telja sig ekki geta án lyfjanna verið og verði háð þeim, því þau eru ávanabindandi Þetta sé alvarlegt, því skaðsemi svefnlyfja er mikil: „Þau auka líkur á byltum og beinbrotum, þau skerða jafnvægi, einbeitingu og minni, og þau geta aukið hættu á heilabilun og lungnabólgu.“

Alma benti einnig á langtímaafleiðingar beinbrota á heilsu eldra fólks og að þess séu fjölmörg dæmi að beinbrot á efri árum marki þáttaskil hjá fólki um getu þess til að búa áfram heima hjá sér í sjálfstæðri búsetu.

Erla Margrét ráðin skipulags- og umhverfisfulltrúi hjá Ísafjarðarbæ

Erla Margrét Gunnarsdóttir hefur verið ráðin sem skipulags- og umhverfisfulltrúi hjá Ísafjarðarbæ og hefur hún störf þann 1. maí næstkomandi.

Erla lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 2001. Hún lauk B.Sc. gráðu sem byggingartæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2006 og hlaut löggildingu sem tæknifræðingur sama ár. Þá lauk hún M.Sc. gráðu sem skipulagsfræðingur í Fachhochschule Frankfurt am Main, í Þýskalandi árið 2011.

Erla hefur meðal annars starfað við burðarvirkjahönnun hjá VSÓ ráðgjöf, við verkefnastjórn, sem deildarstjóri hjá BM-Vallá og hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins við rannsóknir á steinsteypudeild. Frá 2023 hefur hún starfað sem kennslustjóri við Lýðskólann á Flateyri.

Innviðafélag Vestfjarða: bregðast verður við hruni í bókunum skemmtiferðaskipa

Tvö skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn sumarið 2023. Innviðagjaldið vinnur gegn jákvæðum áhrifum af skipakomunum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Innviðafélag Vestfjarða lýsir yfir miklum áhyggjum vegna fækkunar bókana skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar árið 2027. Í tilkynningu frá félaginu segir að ljóst sé að nýtt innviðagjald, sett á með skömmum fyrirvara og án fullnægjandi samráðs, hafi skapað óvissu og leitt til verulegrar fækkunar skipakoma.

Bókanir skemmtiferðaskipa fyrir árið 2027 eru einungis um helmingur þess sem bókað hafði verið fyrir árið 2026 á sama tíma í fyrra.

innviðagjaldið getur unnið gegn innviðauppbyggingu

„Skemmtiferðaskip greiða nú þegar hafnargjöld og önnur gjöld tengd komu sinni á svæðið, og þau gjöld hafa reynst ómetanleg við uppbyggingu á höfnum og öðrum innviðum tengdum þeim. Það er því sorglegt að svokallað innviðagjald hins opinbera muni mögulega leiða til mun minni fjármuna til handa innviðauppbyggingu á Vestfjörðum.“

Þá segir í tilkynningunni:

„Fyrir utan hafnargjöld verja skipverjar fjármunum í höfn, sem styðja við atvinnustarfsemi árið um kring, sem aftur styður við áframhald efnahagsævintýrisins á Vestfjörðum. Atvinnustarfsemi og verðmætasköpun er forsenda skatttekna sem aftur nýtast við uppbyggingu innviða. Neikvæð áhrif gjaldtökunnar eins og hún er í dag koma verst minni byggðum og samfélögum, þar sem jákvæð áhrif skemmtiferðaskipa eru hvað mikilvægust.

Innviðafélagið telur nauðsynlegt að stjórnvöld endurskoði strax þessa skattheimtu og endurhugsi álagningu þeirra á þannig hátt að þau fæli ekki mikilvæga tekjustólpa úr samfélaginu.

Sanngjörn skattheimta og greiðslur til samfélagsins eru algjört skilyrði, en hið opinbera verður að mæta því með fyrirsjáanleika og sanngirni.

Aðgerðir nú munu hafa mikil áhrif á velferð og uppbyggingu Vestfjarða til framtíðar.“

Reykhólahreppur: þarfar breytingar á Jöfnunarsjóði en óhagstæðar hagræðingarkröfur

Ingibjörg B. Erlingsdóttir, sveitarstjóri. Mynd: Reykhólavefurinn.

„Okkar afstaða er sú, að þær breytingar sem Jöfnunarsjóðurinn stendur fyrir eru löngu þarfar, þ.e. að auka gegnsæi á því hvernig fjármunum sjóðsins er skipt. Það hefur verið kvartað undan því um árabil að fáir hafi vitneskju um grundvöll úthlutuna úr sjóðnum.“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólahreppi.

vantar byggðavinkilinn

„Það sem er hins vegar sett inn í formúluna núna er hagræðingagildi sem er minni sveitarfélögum afar óhagstætt. Þ.e. að miða við hagstæða stærð á sveitafélagi og umbuna þeim. Það er rétt að gera það á markaðslegum forsendum, en gilda þær reglur um byggð í landinu?  Það vantar alveg byggðavinkilinn, umbuna litlum sveitarfélögum sem halda uppi samfélagi og byggð á landsbyggðinni. Hlutfallið af tekjum sem fara til þeirra er aðeins lítið brot af heildapottinum, en byggðasjónarmiðið svo sterkt.“

Ingibjörg segir það grafalvarlegt fyrir Reykhólahrepp að missa mestan hluta útgjaldajöfnuðar frá sér, eins og tölurnar í frumvarpinu sýna,  það eru 90 millj. miðað við stöðu og úthlutanir  árið 2024. Þetta eru tæpar 10% tekna samstæðunnar. Sé einvörðungu miðað við sveitarsjóð, A hluta, er lækkun framlagsins um 13% af tekjum hans.

„Hvernig á sveitarfélagið að afla þessarra tekna?  Eina leiðin er sameining sveitarfélaga sem frumvarpið ýtir undir, eða fjölga íbúum.“

Háskólasetur Vestfjarða á 20 ára afmæli, er því tilefni til að fagna þeim áfanga!

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir er formaður bæjarráðs Bolungavíkurkaupstaðar.

Fyrir hartnær 20 árum hafði ég mikla löngun til að mennta mig en kom að mörgum lokuðum dyrum því ekki hafði ég lokið stúdentsprófi og var orðin ráðsett frú, með tvö börn og hafði fjárfest í fasteign hér fyrir vestan og enga löngun til að flyta búferlum. Fjarnámsmöguleikarnir voru ekki margir á þeim tíma og því lítið annað í stöðunni en að flytja tilneydd þangað sem háskólabyggingin stæði sem væri þá; Reykjavík, Akureyri eða út fyrir landsteinana til að sækja mér nám. Árið 2007 sá ég auglýsingu um að Háskólsetur Vestfjarða hyggðist bjóða upp á Frumgreinanám frá HR og yrði það kennt í Háskólasetrinu. Stökk ég feigins hendi á það tækifæri, sem hentaði mér fullkomlega. Við tóku tvö frábær ár, þar sem ég kynntist frábærum stjórnendum, kennurum og samnemendum mínum og auðvitað Gunnu Siggu 😊 Tveimur árum seinna lauk því námi, enn var ekki úr miklu að moða í fjarnámsmöguleikum. Ég óskaði því eftir stuðningi Háskólaseturs við að auglýsa eftir nemendum sem hefði áhuga á að sækja um sálfræðinám frá Háskólanum á Akureyri og í krafti fjöldans, með stuðningi frá Háskólasetrinu og stuðningsyfirlýsingu sveitarfélagana þá hófu 15 nemendur frá norðanverður Vestufjörðum nám í sálfræði frá HA í fjarnámi haustið 2010, fyrstu fjarnemarnir. Skemmst er frá því að segja að sálfræðin tókst vel til og er það nám ennþá kennt í fjarnámi frá HA. Sumir nemendur útskrifuðust sem sálfræðingar, aðrir fóru í annað nám en verðmæt þekking jókst á svæðinu.

Ég er þess fullviss að stuðningur Háskólaseturs Vestfjarða og því frábæra starfsfólki og stjórnendum sem þar eru, var vendipunkturinn í því að fjarnám var samþykkt með miklum áhuga hjá Háskólanum á Akureyri.

 Á ég því Háskólasetri margt að þakka og tel það vera mikilvægan hlekk í virku og framsæknu samfélagi hérna fyrir vestan.

Ég óska ykkur Vestfirðingum innilega til hamingju með 20 ára afmæli Háskólaseturs Vestfjarða.

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, Bolvíkingur og fyrrverandi nemandi

Ísafjörður: Lions skemmtun á Hlíf á morgun

Frá Lions skemmtun á Hlíf. Mynd: Bjarni Jóhannsson.

Lionsklúbbur Ísafjarðar heldur skemmtun á Hlíf fyrir eldri borgara á morgun , föstudag 14. mars, og á dagskránni er kaffi hlaðborð, tónlistaratriði og bingó. Skemmtunin hefst kl 19:00.

Allir eldri borgarar eru hjartanlega velkomnir.

Lionsklúbburinn vonast til þess að sjá sem flesta.

Klúbburinn hefur boðið upp á  skemmtikvöld á Hlíf í áratugi og var eitt fyrsta félagið til að halda þessi kvöld eftir byggingu Hlífar en  samsæti kvenfélagsins Hlífar var eldra. Lionsklúbburinn hefur frá upphafi hlúð að verkefnum í bænum og var einn ötulasti stuðningsaðili  vegna Bræðratungu heimilisins, og fylgdi þvi eftir með stuðningi við eldri borgara á  Elliheimilinu, síðan  á Hlíf, Sjúkrahúsinu, Eyri, stuðningi við leikskólana  og fleira sem hefur verið Lionsfólki kært. Klúbburinn er ekki stór en hann hefur verðið öflugur I gegnum tíðina.

Nýjustu fréttir