Innviðafélag Vestfjarða: bregðast verður við hruni í bókunum skemmtiferðaskipa

Tvö skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn sumarið 2023. Innviðagjaldið vinnur gegn jákvæðum áhrifum af skipakomunum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Innviðafélag Vestfjarða lýsir yfir miklum áhyggjum vegna fækkunar bókana skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar árið 2027. Í tilkynningu frá félaginu segir að ljóst sé að nýtt innviðagjald, sett á með skömmum fyrirvara og án fullnægjandi samráðs, hafi skapað óvissu og leitt til verulegrar fækkunar skipakoma.

Bókanir skemmtiferðaskipa fyrir árið 2027 eru einungis um helmingur þess sem bókað hafði verið fyrir árið 2026 á sama tíma í fyrra.

innviðagjaldið getur unnið gegn innviðauppbyggingu

„Skemmtiferðaskip greiða nú þegar hafnargjöld og önnur gjöld tengd komu sinni á svæðið, og þau gjöld hafa reynst ómetanleg við uppbyggingu á höfnum og öðrum innviðum tengdum þeim. Það er því sorglegt að svokallað innviðagjald hins opinbera muni mögulega leiða til mun minni fjármuna til handa innviðauppbyggingu á Vestfjörðum.“

Þá segir í tilkynningunni:

„Fyrir utan hafnargjöld verja skipverjar fjármunum í höfn, sem styðja við atvinnustarfsemi árið um kring, sem aftur styður við áframhald efnahagsævintýrisins á Vestfjörðum. Atvinnustarfsemi og verðmætasköpun er forsenda skatttekna sem aftur nýtast við uppbyggingu innviða. Neikvæð áhrif gjaldtökunnar eins og hún er í dag koma verst minni byggðum og samfélögum, þar sem jákvæð áhrif skemmtiferðaskipa eru hvað mikilvægust.

Innviðafélagið telur nauðsynlegt að stjórnvöld endurskoði strax þessa skattheimtu og endurhugsi álagningu þeirra á þannig hátt að þau fæli ekki mikilvæga tekjustólpa úr samfélaginu.

Sanngjörn skattheimta og greiðslur til samfélagsins eru algjört skilyrði, en hið opinbera verður að mæta því með fyrirsjáanleika og sanngirni.

Aðgerðir nú munu hafa mikil áhrif á velferð og uppbyggingu Vestfjarða til framtíðar.“

Reykhólahreppur: þarfar breytingar á Jöfnunarsjóði en óhagstæðar hagræðingarkröfur

Ingibjörg B. Erlingsdóttir, sveitarstjóri. Mynd: Reykhólavefurinn.

„Okkar afstaða er sú, að þær breytingar sem Jöfnunarsjóðurinn stendur fyrir eru löngu þarfar, þ.e. að auka gegnsæi á því hvernig fjármunum sjóðsins er skipt. Það hefur verið kvartað undan því um árabil að fáir hafi vitneskju um grundvöll úthlutuna úr sjóðnum.“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólahreppi.

vantar byggðavinkilinn

„Það sem er hins vegar sett inn í formúluna núna er hagræðingagildi sem er minni sveitarfélögum afar óhagstætt. Þ.e. að miða við hagstæða stærð á sveitafélagi og umbuna þeim. Það er rétt að gera það á markaðslegum forsendum, en gilda þær reglur um byggð í landinu?  Það vantar alveg byggðavinkilinn, umbuna litlum sveitarfélögum sem halda uppi samfélagi og byggð á landsbyggðinni. Hlutfallið af tekjum sem fara til þeirra er aðeins lítið brot af heildapottinum, en byggðasjónarmiðið svo sterkt.“

Ingibjörg segir það grafalvarlegt fyrir Reykhólahrepp að missa mestan hluta útgjaldajöfnuðar frá sér, eins og tölurnar í frumvarpinu sýna,  það eru 90 millj. miðað við stöðu og úthlutanir  árið 2024. Þetta eru tæpar 10% tekna samstæðunnar. Sé einvörðungu miðað við sveitarsjóð, A hluta, er lækkun framlagsins um 13% af tekjum hans.

„Hvernig á sveitarfélagið að afla þessarra tekna?  Eina leiðin er sameining sveitarfélaga sem frumvarpið ýtir undir, eða fjölga íbúum.“

Háskólasetur Vestfjarða á 20 ára afmæli, er því tilefni til að fagna þeim áfanga!

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir er formaður bæjarráðs Bolungavíkurkaupstaðar.

Fyrir hartnær 20 árum hafði ég mikla löngun til að mennta mig en kom að mörgum lokuðum dyrum því ekki hafði ég lokið stúdentsprófi og var orðin ráðsett frú, með tvö börn og hafði fjárfest í fasteign hér fyrir vestan og enga löngun til að flyta búferlum. Fjarnámsmöguleikarnir voru ekki margir á þeim tíma og því lítið annað í stöðunni en að flytja tilneydd þangað sem háskólabyggingin stæði sem væri þá; Reykjavík, Akureyri eða út fyrir landsteinana til að sækja mér nám. Árið 2007 sá ég auglýsingu um að Háskólsetur Vestfjarða hyggðist bjóða upp á Frumgreinanám frá HR og yrði það kennt í Háskólasetrinu. Stökk ég feigins hendi á það tækifæri, sem hentaði mér fullkomlega. Við tóku tvö frábær ár, þar sem ég kynntist frábærum stjórnendum, kennurum og samnemendum mínum og auðvitað Gunnu Siggu 😊 Tveimur árum seinna lauk því námi, enn var ekki úr miklu að moða í fjarnámsmöguleikum. Ég óskaði því eftir stuðningi Háskólaseturs við að auglýsa eftir nemendum sem hefði áhuga á að sækja um sálfræðinám frá Háskólanum á Akureyri og í krafti fjöldans, með stuðningi frá Háskólasetrinu og stuðningsyfirlýsingu sveitarfélagana þá hófu 15 nemendur frá norðanverður Vestufjörðum nám í sálfræði frá HA í fjarnámi haustið 2010, fyrstu fjarnemarnir. Skemmst er frá því að segja að sálfræðin tókst vel til og er það nám ennþá kennt í fjarnámi frá HA. Sumir nemendur útskrifuðust sem sálfræðingar, aðrir fóru í annað nám en verðmæt þekking jókst á svæðinu.

Ég er þess fullviss að stuðningur Háskólaseturs Vestfjarða og því frábæra starfsfólki og stjórnendum sem þar eru, var vendipunkturinn í því að fjarnám var samþykkt með miklum áhuga hjá Háskólanum á Akureyri.

 Á ég því Háskólasetri margt að þakka og tel það vera mikilvægan hlekk í virku og framsæknu samfélagi hérna fyrir vestan.

Ég óska ykkur Vestfirðingum innilega til hamingju með 20 ára afmæli Háskólaseturs Vestfjarða.

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, Bolvíkingur og fyrrverandi nemandi

Ísafjörður: Lions skemmtun á Hlíf á morgun

Frá Lions skemmtun á Hlíf. Mynd: Bjarni Jóhannsson.

Lionsklúbbur Ísafjarðar heldur skemmtun á Hlíf fyrir eldri borgara á morgun , föstudag 14. mars, og á dagskránni er kaffi hlaðborð, tónlistaratriði og bingó. Skemmtunin hefst kl 19:00.

Allir eldri borgarar eru hjartanlega velkomnir.

Lionsklúbburinn vonast til þess að sjá sem flesta.

Klúbburinn hefur boðið upp á  skemmtikvöld á Hlíf í áratugi og var eitt fyrsta félagið til að halda þessi kvöld eftir byggingu Hlífar en  samsæti kvenfélagsins Hlífar var eldra. Lionsklúbburinn hefur frá upphafi hlúð að verkefnum í bænum og var einn ötulasti stuðningsaðili  vegna Bræðratungu heimilisins, og fylgdi þvi eftir með stuðningi við eldri borgara á  Elliheimilinu, síðan  á Hlíf, Sjúkrahúsinu, Eyri, stuðningi við leikskólana  og fleira sem hefur verið Lionsfólki kært. Klúbburinn er ekki stór en hann hefur verðið öflugur I gegnum tíðina.

Vindorka: ekki tímabært að móta stefnu

Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða hélt 14. fund sinn í lok febrúar sl. og ræddi m.a. um stefnumörkun varðandi vindorku og hvort ástæða væri til þess að móta stefnu um vindorku á Vestfjörðum í
svæðisskipulagi.

Niðurstaða fundarins var að svo stöddu liti svæðisskipulagsnefnd svo á að ekki væri tímabært að móta stefnu um vindorku á Vestfjörðum m.a. með vísan til þess að lagarammi vindorku væri ekki tilbúinn, en við endurskoðun svæðisskipulagsins þyrfti að taka afstöðu til slíkrar stefnumótunar ef lagarammi væri þá orðinn skýr.

Ekki verður því að sinni meira unnið með stefnumótun um vindorku í svæðisskipulagi.

Gert er ráð fyrir vindorkuveri í Garpsdal í Reykhólasveit.

Björgunarsveitin Dýri hefur safnað 15 m.kr. til kaupa á nýjum björgunarbíl

Fram kemur í erindi björgunarsveitarinnar Dýri í Dýrafirði til Ísafjarðarbæjar að núverandi jeppi sveitarinnar er orðinn 25 ára og ákveðið hefur verið að kaupa nýjan björgunarbíl. Ætlunin er að kaupa Ford Expedition jeppa sem verður breyttur fyrir 44 tommu dekk og mun verða vel útbúinn fyrir björgunaraðgerðir. Ef þess þarf mun einnig vera hægt að flytja sjúkling í börum í bílnum, sem eykur verulega viðbragðshæfni sveitarinnar í neyðartilfellum.

Vegna bættra samgöngumannvirkja yfir Dynjandisheiði og aukins fjölda ferðamanna hefur umfang og fjöldi verkefna aukist, og þá er öflugur og áreiðanlegur björgunarbíll algjör nauðsyn segir í erindinu.

Frá 1. janúar 2023 til dagsins í dag hefur núverandi björgunarbíll verið notaður í 28 aðgerðir og er helsta verkfæri sveitarinnar í björgunarstarfi.

Sveitin fagnar 50 ára afmæli í ár og er hluti af öryggisneti Vestfjarða. Verkefni sveitarinnar eru lang flest þeim fjallvegum og ferðamannastöðum sem eru í okkar nágrenni, Dynjandisheiði, Gemlufallsheiði,
Dynjandisvogur og Svalvogavegur.

Björgunarsveitin Dýri hefur það markmið að safna 31.000.000 kr. til kaupa á nýjum björgunarbíl. Hingað til hefur tekist að safna 15.000.000 kr. og vantar því 16.000.000 til að láta verkefnið verða að veruleika.

Stefnt er að því að ljúka söfnun og pöntun á bílnum á árinu 2025 og hann verði klár í útkall undir lok árs 2026.

Björgunarsveitin sækir um styrk til Ísafjarðarbæjar til kaupa á nýjum bíl og er farið fram á að Ísafjarðarbær sæki um styrk í Fiskeldissjóð til kaupanna.

Bæjarráð ákvað að sækja um styrk fyrir fimm tilgreindum verkefnum í Fiskeldissjóð í ár og eru kaup björgunarsveitarinnar Dýra ekki þeirra á meðal.

María Júlía á siglingu fyrir Bjargtanga

Þessa flottu mynd tók Jón Páll Ásgeirsson c.a 1977-8 en hún sýnir Maríu Júlíu á siglingu fyrir Bjargtanga.

María Júlía var smíðuð sem björgunar- og varðskip í Frederikssund Skibsværft í Frederikssund í Danmörku árið 1950 fyrir Ríkissjóð Íslands. 

Það var einnig notað við hafrannsóknir og því má segja að þetta sé fyrsta hafrannsóknaskip Íslands.

1969 var María Júlía seld til Patreksfjarðar og henni breytt í fiskiskip. Hélt nafni sínu en fék einkennisstafina BA og númerið 36. Kaupandinn var Skjöldur h/f.

María Júlía BA 36 var seld Þórsbergi h/f á Tálknafirði árið 1985, seljandi Vaskur h/f á Patreksfirði. Þórsberg gerði skipið út til ársins 2003. Hún var tekin af skipaskrá haustið 2014.

Skipið er í eigu Áhugafélags um uppbyggingu skipsins og stofnaðilar eru Byggðasafns Vestfjarða og Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti.

Eftir að hafa legið lengi í höfn á Ísafirði var María Júlía dregin til Akureyrar síðla vetrar 2023 og þaðan til Húsavíkur haustið 2024.

Til setndur að María Júlía verði tekin upp í slipp á Húsavík á næstunni.

Af skipamyndir.com

International Camp á Kerecisvellinum 03.-05. júní

Martin Campbel og Mark Tinkler

Tveir erlendir þjálfarar frá Middlesbrough FC verða aðalþjálfarar í knattspyrnubúðunum, en það eru þeir Martin Campbell og Mark Tinkler.

Martin Cambell er „Head Of Player Recruitment“ hjá knattspyrnuakademíu félagsins og hefur yfirumsjón yfir þeim ungu leikmönnum sem eru fengnir til liðs við Middlesbrough FC.

Mark Tinkler er aðalþjálfari U-21 karlaliðs félagsins. Þess má geta að Mark átti flottan feril sem leikmaður og lék m.a. með Leeds Utd í ensku úrvalsdeildinni. Mark var á sínum tíma fyrirliði U-18 ára landsliðs Englands en í liðinu var m.a. David Beckham. Þegar Micahel Carrick fyrrum leikmaður Man Utd, Tottenham og West Ham gerðist knattspyrnustjóri Middlesbrough FC bað hann Mark sérstaklega um að vera aðstoðarstjóra sinn um hríð.

Báðir þjálfararnir hafa gríðarlega mikla þekkingu og reynslu og njóta mikillar virðingar í boltanum.

International Camp eða Alþjóðlegu knattspyrnubúðirnar eru fyrir öll börn fædd 2011-2018.

Skólastjóri verður Heiðar Birnir.  

Allir aðrir þjálfarar koma frá Vestra.

Guðni Th. Jóhannesson verður prófessor í nafni Jóns Sigurðssonar

Guðni Th. Jóhannesson flytur erindi á fundi Sögufélags Ísfirðinga.

Rektor Háskóla Íslands hefur ákveðið, að höfðu samráði við forseta Hugvísindasviðs, að Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands og prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, verði prófessor í nafni Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands frá 1. júlí nk.

Starfið byggir á grunni þingsályktunartillögu frá Alþingi árið 2011, á 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar og aldarafmæli Háskóla Íslands, en meðal lykilverkefna prófessorsins er að standa að árlegum ráðstefnum og námskeiðum í sumarháskóla á Hrafnseyri.

Guðni Th. Jóhannesson segir: „Mér þykir vænt um að taka við þessu merka prófessorsstarfi og vonast til að geta haldið áfram því góða starfi sem Guðmundur Hálfdanarson hefur sinnt. Ég hlakka til samstarfs við heimafólk vestra, ekki síst á vettvangi Háskólaseturs Vestfjarða.“

Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, hefur gegnt starfinu frá 1. apríl 2012. Á þeim tíma hefur hann komið að og styrkt ýmis verkefni í samstarfi við stofnanir og einstaklinga á Vestfjörðum, svo sem fornleifarannsóknir og sumarnámskeið á Hrafnseyri, ráðstefnur á Ísafirði, m.a. í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, og starfsemi Tungumálatöfra á Ísafirði.

Frá árinu 2023 hefur Guðmundur enn fremur starfað sem formaður Hrafnseyrarnefndar, en hlutverk hennar er að þjóna sem faglegur bakhjarl staðarhaldara á Hrafnseyri og stuðla að því að starfsemin á Hrafnseyri styðji við menningar- og fræðslustarf á Vestfjörðum.

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, segir: „Það er afar mikill fengur fyrir Háskóla Íslands að fá fyrrverandi forseta, Guðna Th. Jóhannesson, til að taka að sér þetta hlutverk enda býr hann yfir einstakri þekkingu og reynslu sem mun nýtast afar vel í þessu starfi, ekki síst með tilliti til starfseminnar á Vestfjörðum. Ég vil jafnframt þakka Guðmundi Hálfdanarsyni fyrir hans frábæra starf á undanförnum árum sem Jóns Sigurðssonar prófessor.“

Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, segir: „Ég óska Guðna Th. Jóhannessyni innilega til hamingju með prófessorsstarfið sem kennt er við Jón Sigurðsson. Hann er afar vel að því kominn enda hefur hann unnið að rannsóknum á sviði stjórnmála- og persónusögu um langt skeið. Ég hlakka til að fylgjast með Guðna í starfi hans á komandi árum. Um leið vil ég nota tækifærið og þakka Guðmundi Hálfdanarsyni fyrir hans framlag til rannsókna og miðlunar þann tíma sem hann hefur gegnt starfinu. Hann hefur átt ríkan þátt í því að efla enn frekar blómlegt samstarf milli Háskóla Íslands og mennta- og menningarstofnana á Vestfjörðum.“

Háskólakynningar í Menntaskólanum

Föstudaginn 14.mars verður Háskólinn á Bifröst með kynningu á námsframboði sínu í Menntaskólanum.

Kynningin verður í Gryfjunni kl.12:40 – 13:10. Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor og Guðrún Rannveig Stefánsdóttir umsjónarmaður háskólagáttar háskólans á Bifröst verða á staðnum til að spjalla við nemendur um allt sem viðkemur háskólanum og náminu.

Bifröst er fjarnáms háskóli og er námsferill nemenda að mestu undir þeim kominn. Fjarnám hentar t.d. þeim vel sem eiga ekki kost á að sækja staðarnám eða vilja stunda nám samhliða starfi.

Þá verða Háskóli Íslands, Háskólinn á Hólum og Háskólasetur Vestfjarða með kynningu á sínu námsframboði föstudaginn 28. mars frá kl. 12:30 – 14:00 í Menntaskólanum.

Nýjustu fréttir