Miðvikudagur 2. apríl 2025

Það styttist í Fossavatnsgönguna

Það styttist í Fossavatnsgönguna þetta elsta skíðamót landsins.

Fyrst var keppt árið 1935 og síðan þá hefur Fossavatnsgangan verið stærsta skíðagöngumót hvers árs og Ísafjörður miðstöð skíðagöngu.

Æfingaáætlunin, hvort sem þú ert trimmari eða keppnismanneskja, gengur út á að vera í besta forminu í Fossavatnsgönguvikunni. Að göngunni lokunni er kaffihlaðborð og að loknu fiskihlaðborði er slegið upp balli til að fagna árangrinum.

50 km gangan á laugardeginum er megingangan, en einnig er keppt í styttri vegalengdum, göngu með frjálsri aðferð og næturgöngu. Allir geta, óháð getu, fundið sér áskorun við hæfi.

Göngunni hefur aldrei verið aflýst vegna snjóleysis enda alltaf hægt að finna snjó á heiðum.

Vegagerðin: afléttir þungtakmörkunum á morgun

Mynd frá 2011 af Vestfjarðavegi 60.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að á morgun , 3. apríl kl 10 verður aflétt þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Vestfjarðavegi 60, Reykhólasveitarvegi 607, Barðastrandarvegi 62 og Bíldudalsvegi 63.

 

Háskólasetur fær tímarit um jöklarannsóknir að gjöf

Á myndinni tekur Peter Weiss forstöðumaður á móti sannarlega veglegri tímaritagjöf úr höndum Tómasar Jóhannssonar, sérfræðings í ofanflóðahættumati.

Tómas Jóhannsson sérfræðingur í ofanflóðahættumati hjá Veðurstofu Íslands kom á dögunum vestur til Snjóflóðaseturs, og hafði meðferðis fullhlaðið skott af tímaritum fyrir bókasafn Háskólaseturs.

Tómas er í ritstjórn Jökuls, tímarits um jöklarannsóknir, en hefur árum saman verið áskrifandi af tímaritunum Journal of Glaciology og Annals of Glaciology, sem honum fannst nú vera best komið fyrir þar sem almenningur hefði aðgang að, og munu þau nú koma bæði námsmönnum hjá Háskólasetri sem og starfsmönnum í húsinu til góða.

Háskólasetur er meðlimur í Norðurslóðasamstarfsneti háskóla,  og hjá Háskólasetri eru kenndar námsleiðir eins og Climate Change and Global Sustainability og vettvangsnámskeið um loftslagsbreytingar og orkuöflun og munu nemendur í þeim greinum sérstaklega hafa áhuga á þessum tímaritum.

Yfir 3.000 styrkir veittir til kaupa á rafbílum

Ný tegund styrkveitingar til rafbílakaupa tók gildi áramótin 2023-2024. Styrkjunum er ætlað að styðja við orkuskipti og stuðla að umhverfisvænni samgöngum. Með stafrænum lausnum er umsýsla rúmlega 3 þúsund styrkja að fullu sjálfvirk, allt frá umsókn til afgreiðslu styrkja.

Frá janúar 2024 hafa 3020 rafbílastyrkir verið veittir. Styrkirnir eru á bilinu 400 – 900 þúsund krónur en í heildina hefur verið veitt 2,5 milljörðum króna í styrkina.

Umsókn um rafbílastyrki er að finna á Ísland.is, þar skráir umsækjandi sig inn með rafrænum skilríkjum. Umsóknin sækir öll tilheyrandi gögn um raunverulegan eiganda bifreiðar til Samgöngustofu með því að nýta vefþjónustur og skilar sömuleiðis niðurstöðum til Orkustofnunar með vefþjónustum. Niðurstöðurnar fara svo sjálfkrafa til Fjársýslunnar sem greiðir út styrkinn til umsækjanda. Sjálfvirka ferlið tryggir að umsóknin flytur gögn sjálfkrafa milli staða í stað þess að fólk sjái um flutninginn.

Stafrænt ferli rafbílastyrkja var samstarfsverkefni Orkustofnunar, Samgöngustofu, Fjársýslunnar og Stafræns Íslands.

Fundur um öryggi ferðafólksá Hornströndum

Í gær komu saman á Ísafirði fjölmargir aðilar til að ræða öryggi ferðafólks sem árlega fer til Hornstranda.

Á fundinum voru rædd þau tilvik sem hafa komið upp á liðnum árum, sem sum hafa verið leyst af landvörðum og ferðaþjónustuaðilum. En sum tilvikin hafa kallað á aðkomu björgunarsveita, lögreglu, sjúkraflutninga og annarra viðbragðsaðila.

Stopult eða ekkert símasamband er víða á svæðinu. Landslagið er ekki alltaf auðvelt yfirferðar og íslensk veðrátta getur sett ferðaáætlanir úr skorðum.

Þá er ekki auðvelt fyrir viðbragðsaðila að komast inn á svæðið, ef á þarf að halda, nema sjóleiðis eða með þyrlum.

Margt var rætt á fundinum og skipst á hugmyndum að leiðum til að tryggja betur öryggi ferðafólks og hvernig brugðist verði við ef út af ber.

Fundarfólk var sammála um að allir aðilar sem að þessum verkefnum koma hafa mikinn vilja til að gera vel og er ætlunin að hópurinn muni funda tvisvar á ári, til að stilla betur saman strengina.

Það voru Náttúruverndarstofnun og lögreglan á Vestfjörðum sem stóðu fyrir fundinum.

Tungumálaskipti – Tandem Language á bókasafninu á föstudaginn

Núna á föstudaginn standa Menntaskólinn á Ísafirði, Bókasafnið Ísafirði og  Háskóli Íslands (íslenska sem annað mál) að áhugaverðum viðburði. Leikar hefjast klukkan 16:45. Hér fyrir neðan má lesa tilkynningu á fjórum málum.

Langar þig að æfa þig í íslensku, spænsku, frönsku eða einhverju öðru máli? Ertu til í að bjóða þitt mál á móti fyrir æfinguna? Ertu til í tungumálaskipti? Ef þú vilt frekari upplýsingar komdu þá á Bókasafnið Ísafirði föstudaginn 4.4. klukkan 16:45 og kynntu þér málið betur. Á föstudaginn er aðalfókusinn á spænsku og frönsku en við viljum skoða öll málin. Auðvitað.

Tu veux exercer ton islandais, ton polonais, ton espagnol, ou n’importe quelle autre langue? Tu as envie d’apprendre aux autres ta langue maternelle en retour? Pourquoi pas meme un troc de langue? Si tu veux en savoir plus, rends-toi a la Bibliotheque d’Ísafjörður ce vendredi 4 Avril a partir de 16h45. On se concentrera ce jour-ci sur l’espagnol et le francais, mais toutes les langues sont permises!

¿Quieres practicar tu islandés, español, francés u otro idioma? ¿Estás dispuesto a enseñar tu idioma a cambio de aprender otro? ¿Estás preparado para un intercambio de idiomas? Si deseas más información, ven a la biblioteca de Ísafjörður este viernes 4 de abril a las 16:45 horas y conoce más sobre el tema. El viernes nos enfocaremos principalmente en el español y el francés, aunque por supuesto, queremos abordar todas las lenguas.

Would you like to participate in a language tandem? A language tandem is a partnership between two (or more) people with different native languages with the purpose of practising language skills. If you would like more information, please come to „Bókasafnið Ísafirði Library“ on Friday 4.4. at 16:45 and find out more.

Vörumessa MÍ á morgun

Vörumessu MÍ sem verður  haldin fimmtudaginn 3. apríl kl. 13:30 – 17:00 í húsnæði Vestfjarðastofu á Ísafirði.

Vörumessa MÍ er kynning á verkefnum nemenda sem þau hafa unnið í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun og er vettvangur fyrir unga frumkvöðla, fyrirtæki og samfélagið að þróa nýjar hugmyndir og lausnir á Vestfjörðum.

Áhersla er á samstarf við fyrirtæki/ráðgjafa á svæðinu og að nemendur vinni sjálfstætt að því að þróa nýsköpunarlausnir. Verkefnið eykur færni þeirra til nýsköpunar, atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar og undirbýr nemendur þannig fyrir framtíðina.

Nemendur kynna frumgerðir sem gestum gefst tækifæri á að skoða og verða vörur til sölu. Veittar verða viðurkenningar á vörumessunni.

Allir eru velkomin og verður boðið upp á léttar veitingar.

Vestfjarðastofa: Vefþing um orkuskipti smábáta í sjávarútvegi

Á morgun munu Eimur og Vestfjarðastofa standa fyrir vefþingi, þar sem fjallað verður um orkuskipti smábátaflotans. Á þinginu verður sjónum beint að helstu áskorunum og tækifærum sem fylgja umbreytingu sjávarútvegsins í átt að endurnýjanlegum orkugjöfum.

Meðal umræðuefna verða spurningar á borð við: Hvað þarf til að orkuskipti smábáta verði að veruleika? Hvaða endurnýjanlegu orkugjafar verða í boði fyrir sjófarendur? Hvernig munu reglur um haffærni rafmagnsbáta þróast?

Sérfræðingar og hagsmunaaðilar ræða framtíðina

Á vefþinginu munu sérfræðingar, hagsmunaaðilar og sjómenn fjalla um mikilvæg atriði eins og kostnað, hreinorkuívilnanir og áhrif orkuskipta á byggðaþróun og samfélagið í heild. Meðal fyrirlesara eru Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Kolbeinn Óttarsson Proppé, stofnandi Grænafls, og Jónas Ingi Pétursson frá Þrym. Þá munu einnig koma fram fulltrúar frá Bláma, Samgöngustofu, Faxaflóahöfnum og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

Opinn fundur á netinu

Vefþingið fer fram á netinu frá kl. 13:00 til 16:10 og er öllum opið. Þeir sem vilja taka þátt þurfa að skrá sig í gegnum eftirfarandi hlekk: Skráning á vefþing.

Dagskrá vefþingsins (Birt með fyrirvara um breytingar)

Hluti I: Tæknilausnir í farvatninu
13:00 – „Stefna stjórnvalda og orkuskipti smábáta“, Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra.
13:20 – „Rafmagns og tengiltvinnlausnir í smábátum“, Kolbeinn Óttarsson Proppé, stofnandi Grænafls.
13:40 – „Nýsmíði rafmagnsbáta, tækifæri og áskoranir“, Jónas Ingi Pétursson, Þrym.
14:00 – „Takmarkandi þættir þegar kemur að orkuskiptum smábáta“, Tinna Rún Snorradóttir, rannsókna- og þróunarstjóri Bláma.
10 mínútna kaffihlé

Hluti II: Samfélag og orkuskipti smábáta
14:30 – „Öryggiskröfur rafbáta og leyfismál þeirra“, Ingólfur Örn Þorbjörnsson, sérfræðingur á Samgöngustofu.
14:50 – „Áskoranir fyrir hafnir vegna orkuskipta smábáta“, Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, umhverfisstjóri Faxaflóahafna.
15:10 – „Orkuskipti smábáta út frá sjónarhóli smábátasjómanna“, Einar Helgason, formaður félags strandveiðisjómanna á sunnanverðum Vestfjörðum.
15:30 – „Líklegar breytingar á byggðamynstri samfara orkuskiptum í sjávarútvegi“, Dr. Catherine Chambers, rannsóknarstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
15:50 – Pallborðsumræður undir stjórn Ottós Elíassonar, framkvæmdastjóra Eims.

Alþingi: grásleppan verði tekin úr kvóta

Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Meieihluti atvinnuveganefndar samþykkti á fundi sínum í gærmorgun að leggja fram frumvarp til laga um afnám kvótasetningar á grásleppu, sem lögfest var á síðasta ári.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm. Flokks fólksins sagði á Alþingi í gær að tilgangurinn væri „að færa veiðistjórn grásleppu í fyrra horf þar sem byggt verði á dagakerfi í stað núgildandi laga sem sett voru í fyrra í mikilli andstöðu sjómanna. Þau lög byggðu á kvótasetningu á frjálsu framsali veiðiheimilda með þeim afleiðingum að fjöldi báta fær enga eða litla úthlutun svo það borgar sig ekki að fara til veiða. Þeir sem hafa fjárfest í bátum og búnaði sitja uppi með verðlausar eignir og sviptir atvinnurétti. Við blasir mikil samþjöppun í greininni þar sem nú eru engin stærðarmörk á bátum sem stunda þessar veiðar eins og áður var, en í áratugi hafa minni bátar við strendur landsins stundað þessar veiðar samhliða strandveiðum síðastliðin ár með miklum samlegðaráhrifum. Mikið ákall hefur verið frá grásleppusjómönnum um að fella úr gildi þessi ólög sem sett voru á síðasta ári og fólu m.a. í sér mikla sérhagsmunagæslu og samþjöppun útgerða og veiðiheimilda.“

Þá sagði Lilja Rafney að meiri hluti atvinnuveganefndar væri að bregðast við ákalli sjómanna um að taka upp fyrra veiðistjórnarkerfi, dagakerfið, og telur hún að miklir almannahagsmunir liggi hér undir ásamt byggðasjónarmiðum og sjónarmiðum um atvinnufrelsi einstaklinga, sem má nú ekki gleyma og Sjálfstæðisflokkurinn ætti að taka til sín.

Meirihluti nefndarinnar er skipaður sex þingmönnum stjórnarflokkanna, Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Minnihluti nefndarinnar, skipaður fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks, bókaði mótmæli gegn frumvarpinu og þar segir að þeir leggist eindregið gegn frumvarpi meiri hluta atvinnuveganefndar um breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða og segja það hroðvirknislega unnið og stríði gegn öllum reglum og venjum um vandaða lagasetningu.

Lagabreytingin, um kvótassetningu grásleppuveiða hafi stuðlað „að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna Íslands og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Þann árangur á nú að gera að engu, auk þess að svipta grásleppusjómenn þeim atvinnuréttindum sem þeim voru tryggð með lögum nr. 102/2024. Þetta hyggst meiri hluti atvinnuveganefndar gera í trássi við ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins og hina stjórnskipulegu meðalhófsreglu.“

Frumvarpið verður tekið fyrir á þingfundi og þarf að fara hefðbundna leið um þrjár umræður.

HVEST: skýrsla rannsóknarnefndar sjóslysa í athugun

Í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa sem birt var í síðustu viku kemur fram að á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi ekki verið talið hægt að taka á móti tveimur slösuðum sjómönnum af Sólborgu RE 27 þann 5. september 2024 um nóttina fyrr en kl 8 að morgni og var lagt til að lögreglan hýsti mennina til morguns. Því var hafnað og var mönnunum komið fyrir á herbergi í sjúkrahúsinu en enginn virtist vita af þeim um morguninn sbr, frétt í gær á bb.is.

Bæjarins besta innti Lúðvík Þorgeirsson, forstjóra HVEST um viðbrögð við skýrslunni.

„Við fengum þessa skýrslu nýlega og erum að fara yfir hana og alla verkferla.   Rannsóknarnefnd sjóslysa  óskar eftir útskýringum  sem við munum að sjálfsögðu útvega. En þurfum jafnframt frá þeim frekari útskýringar/upplýsingar sem við höfum þegar  óskað eftir.“

Lúðvík var ekki reiðubúinn að svo stöddu að svara því sem fram kemur í skýrslunni.

Nýjustu fréttir