Ráðleggingar um mataræði

Embætti landlæknis birti í gær endurskoðaða útgáfu opinberra ráðlegginga um mataræði fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Faghópur á vegum embættisins vann að gerð ráðlegginganna sem byggja á bestu vísindalegu þekkingu á sambandi mataræðis og heilsu en einnig er tekið tillit til matarvenja þjóðarinnar. Aukin áhersla er nú lögð á grænmeti, ávexti og heilkornavörur.

Ráðleggingar um mataræði voru fyrst gefnar út á Íslandi árið 1986 en síðan þá hafa þær verið endurskoðaðar fjórum sinnum. Þessi endurskoðun fylgir ávallt í kjölfar uppfærslu á Norrænum næringarráðleggingum þar sem hópur sérfræðinga fer kerfisbundið yfir rannsóknir á sviði næringar og heilsu.

Í nýjum ráðleggingum er aukin áhersla á grænmeti, ávexti og heilkornavörur. Nýmæli er umfjöllun um orkudrykki sem ekki voru algengir á markaði síðast þegar ráðleggingarnar komu út. Ráðleggingar embættisins í þeim efnum eru skýrar; orkudrykkir eru ekki ætlaðir börnum og ungmennum undir 18 ára.

Minna er ráðlagt af rauðu kjöti en áður og áfram er varað sérstaklega við neyslu unninna kjötvara (s.s. pylsur, bjúgu, naggar, beikon o.s.frv.), hvoru tveggja vegna aukinnar krabbameinsáhættu. Einnig er ráðlagt að takmarka neyslu á matvælum sem innihalda mikið af fitu, salti og sykri og að forðast áfengi, meðal annars vegna krabbameinsvaldandi áhrifa.

Nýju ráðleggingarnar leggja höfuðáherslu á eftirfarandi þætti:

  • Njótum fjölbreyttrar fæðu með áherslu á mat úr jurtaríkinu
  • Veljum grænmeti, ávexti og ber oft á dag
  • Veljum heilkorn, helst þrjá skammta á dag
  • Veljum fisk, baunir og linsur oftar en rautt kjöt – takmörkum neyslu á unnum kjötvörum
  • Veljum ósætar og fituminni mjólkurvörur daglega
  • Veljum fjölbreytta og mjúka fitugjafa
  • Takmörkum neyslu á sælgæti, snakki, kökum, kexi og sætum drykkjum
  • Minnkum saltið – notum fjölbreytt krydd
  • Veljum vatn umfram aðra drykki
  • Forðumst áfengi – engin örugg mörk eru til
  • Tökum D-vítamín sem bætiefni daglega

Íbúar landsins voru 389.444 í byrjun ársins segir Hagstofan

Mannfjöldi á Íslandi var 389.444 þann 1. janúar 2025 samkvæmt nýju mati Hagstofu Íslands og hafði íbúum fjölgað um 5.718 frá 1. janúar 2024 eða um 1,5%. Alls voru 199.622 karlar, 189.623 konur og 199 kynsegin/annað búsett á landinu í upphafi ársins og fjölgaði körlum um 1,6% frá fyrra ári, konum um 1,4% og kynsegin/öðru um 25,2%.


Á undanförnum áratugum hefur aldurssamsetning landsmanna breyst töluvert. Almennt má segja að börnum hafi fækkað hlutfallslega en eldra fólki fjölgað. Framfærsluhlutfall er annars vegar reiknað sem hlutfall aldraðra (65+) af fólki á vinnualdri 20–64 ára og hins vegar sem hlutfall barna og ungmenna (0–19 ára) af sama hópi. Á síðastliðnum tíu árum hefur hlutfall fólks á aldrinum 0–19 ára lækkað úr 46,6% í 40,7% af fólki á vinnualdri en hlutfall aldraðra (65+) aukist úr 23,3% í 26,5% og hefur aldrei verið hærra.

Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 4.877 fleiri þann 1. janúar 2025 en fyrir ári. Það jafngildir 2,0% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallsleg fólksfjölgun var mest á Suðurlandi þar sem fjölgaði um 3,5% á síðasta ári og á Vesturlandi en þar var fjölgunin 2,0% milli ára. Í öðrum landshlutum var fólksfjölgun undir landsmeðaltali. Á Norðurlandi eystra fjölgaði um 1,4%, á Austurlandi fjölgaði um 1,2%, á Norðurlandi vestra um 0,8% og á Vestfjörðum um 0,1%. Hins vegar fækkaði íbúum á Suðurnesjum um 4,4% og skýrist sú fækkun aðallega af flutningum frá Grindavík á árinu 2024.

Íbúum fækkaði í 9 af 62 sveitarfélögum
Sveitarfélög á Íslandi voru alls 62 þann 1. janúar 2025 og hafði þeim fækkað um tvö frá fyrra ári. Reykjavík var fjölmennasta sveitarfélagið með 138.772 íbúa en Tjörneshreppur fámennasta sveitarfélagið með 53. Alls höfðu 27 sveitarfélög færri en 1.000 íbúa, þar af fjögur með færri en 100 íbúa. Í ellefu sveitarfélögum voru 5.000 íbúar eða fleiri.

Í fyrra fækkaði íbúum í 9 af 62 sveitarfélögum landsins. Mest var fækkunin í Grindavíkurbæ en þar fækkaði um 2.333 íbúa og nam fækkunin 65% milli ára. Af ellefu stærstu sveitarfélögunum, með 5.000 íbúa eða fleiri, fjölgaði hlutfallslega mest í Garðabæ eða um 5,4% og í Sveitarfélaginu Árborg um 4,3%. Í Reykjavíkurborg var fjölgunin undir landsmeðaltali eða 1,4%. Af ellefu stærstu sveitarfélögunum fjölgaði minnst í Múlaþingi eða um 1,1% og næstminnst í Akureyrarbæ um 1,2%.

Sólrisuleikrit MÍ er Grease

Sólrisuleikrit Menntaskólans á Ísafirði er ein af þessum gömlu og góðu hefðum skólans.

Í ár varð hinn vinsæli söngleikur Grease fyrir valinu hjá leikfélaginu. Öll sem koma að leiksýningunni hafa lagt hart að sér síðustu vikurnar og eru þau mjög spennt að sýna bæjarbúum afraksturinn.

Frumsýning verður 22.mars kl. 20:00 og er sýnt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Leikstjóri er Birgitta Birgisdóttir.

Sýningar verða tíu og er miðasala á tix.is

Frumsýning – 22.03 kl 20:00
sýning 2 – 23.03 kl 16:00
sýning 3 – 23.03 kl 20:00
sýning 4 – 25.03 kl 20:00
sýning 5 – 26.03 kl 20:00
sýning 6 – 27.03 kl 20:00
sýning 7 – 28.03 kl 20:00
sýning 8 – 29.03 kl 20:00
sýning 9 – 30.03 kl 16:00
sýning 10 – 30.03 kl 20:00

Breytingar á reglugerð um strandveiðar í samráðsgátt

Frá Bolungarvík

Í drögum að reglugerð um strandveiðar sem birtar hafa verið í samráðsgátt eru lagðar til þrjár breytingar.

Í fyrsta lagi er lagt tl að að skylt verði að sækja um leyfi til strandveiða fyrir tiltekið tímamark, en framkvæmdin hefur verið að heimilt hefur verið að sækja um eftir að strandveiðitímabil hefst. Lagt er til að sækja þurfi um leyfi til strandveiða fyrir 15. apríl og ekki verið heimilt að sækja um strandveiðileyfi eftir það tímamark. Þó verði umsækjanda heimilt að tilgreina í umsókn upphafsdag strandveiða, ef t.d. umsækjandi er að ljúka veiðum í öðrum kerfum. 

Í öðru lagi er skilyrði um eignarhald þar sem lagt er til að eigandi lögaðila sem er lögskráður á fiskiskip á strandveiðitímabilinu skuli eiga að minnsta kosti meirihluta í lögaðilanum. Þannig getur strandveiðiskip í eigu lögaðila ekki haldið úr höfn nema sá sem á meira en 50% í lögaðila sé lögformlega skráður um borð í skip í gegnum lögskráningarkerfi sjómanna.

Í þriðja lagi er lagt til að skipstjóra strandveiðiskips verði skv. reglugerð skylt að senda aflaupplýsingar stafrænt til Fiskistofu áður en skipi er lagt að bryggju í löndunarhöfn að lokinni veiðiferð.

Umsagnafrestur um þessar breytingar er til 20. mars. 

Strandabyggð: vilja beisla jarðhita á Gálmaströnd

Sveitarstjórn Strandabyggðar ræddi á fundi sínum í vikunni um áframhald á borunum á Gálmaströnd. Þar er jarðhita að finna og hefur verið borað þar eftir nýtanlegu heitu vatni. Þar er jarðhiti en ekki hefur tekist að finna vatnsæðina.

Sveitarstjórnin samþykkti að tillögu A listans að „skora á Vestfjarðastofu og þingmenn NV- kjördæmis að beita sér af fremsta megni til þess að Orkubú Vestfjarða haldi áfram við beislun jarðhitans á Gálmaströnd við Steingrímsfjörð. Jákvæður árangur þar skiptir mjög miklu máli varðandi atvinnuuppbyggingu og búsetuskilyrði í Strandabyggð.“

Brýr á Djúpa­fjörð við Grónes og Gufu­fjörð í útboð

Gróunes, Gróneshyrna og Gufufjörður í bakgrunni, séð til norðvesturs, Mynd: Mats Wibe Lund.

Vegagerðin hefur boðið út byggingu tveggja steyptra brúa á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit. Annars vegar er um að ræða 58 m langa brú á Djúpafjörð við Grónes og hins vegar um 130 m langa brú á Gufufjörð. Innifalið í verkinu er rif á núverandi 119 m bráðabirgðabrú á Gufufirði ásamt efnisflutningum úr núverandi vinnuplönum og gerð grjótvarnar/rofvarnar. Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.

Fram kemur í tilkynni Vegagerðarinnar að um stóran áfanga er að ræða í því markmiði að bæta samgöngur um Vestfirði með því að tryggja áreiðanlegar og öruggar samgöngur um Vestfjarðaveg.

Útboðsgögn eru aðgengileg og verða afhent í rafræna útboðskerfinu TendSign frá og með föstudeginum 14. mars 2025 og skal tilboðum skilað rafrænt í því útboðskerfi fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 29. apríl 2025.

Ekki verða haldnir sérstakir opnunarfundir en eftir lok tilboðsfrests verður bjóðendum tilkynnt um nöfn bjóðenda í útboðinu og verðtilboð. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Helstu magntölur eru:

Vegagerð

  • Bergskeringar í námu                    38.000 m3
  • Fyllingar                                            53.500 m3
  • Grjótvörn/rofvorn                           19.000 m3

Brýr

  • Vegrið                                                        382 m
  • Gröftur                                               17.300 m3
  • Fylling við steypt mannvirki               6.000 m3
  • Bergskering                                              180 m3
  • Mótafletir                                             5.900 m2
  • Steypustyrktarstál                               260 tonn
  • Spennt járnalögn                                   58 tonn
  • Steypa                                                    3.120 m3

Samgöngur á Vest­fjörð­um – opinn íbúa­fundur á Patreks­firði

Vegagerðin, í samstarfi við Vestfjarðastofu, býður til opins íbúafundar í Félagsheimilinu á Patreksfirði þriðjudaginn 18. mars klukkan 17:30. Fulltrúar frá Vegagerðinni munu fjalla um ýmis samgöngumál sem tengjast svæðinu og boðið verður upp á spurningar og umræður.

Í kynningu á fundinum segir að Vegagerðin vilji eiga opið og hreinskilið samtal við íbúa á Vestfjörðum um samgöngumál svæðisins. Markmiðið með fundinum er að veita íbúum upplýsingar um yfirstandandandi og fyrirhugaðar framkvæmdir, fá innsýn í starfsemi Vegagerðarinnar á svæðinu og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Til að tryggja að sem flestir geti fylgst með verður fundinum einnig streymt á netinu, auk þess sem hægt verður að senda inn spurningar í gegnum Slido.com.

Allir eru velkomnir, og að sjálfsögðu verður heitt á könnunni.

Dagskrá

  • Ávarp – Páll Vilhjálmsson, formaður innviðanefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga.
  • Nýframkvæmdir – yfirstandandi framkvæmdir og hvað er fram undan. Sigurþór Guðmundsson, verkefnastjóri á framkvæmdadeild.
  • Jarðgangakostir – farið yfir þá jarðgangakosti sem til greina koma á svæðinu. Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs.
  • Staða vegakerfisins – aldur vega og brúa og hvað er til ráða. Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri Vestursvæðis.
  • Vetrarþjónusta – hvernig er þjónustunni háttað? Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs.

Gerður Sveinsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, verður fundarstjóri

Fundinum verður streymt beint í gegnum þessa slóð: https://youtube.com/live/CT28JO3Fu3o?feature=share

Hægt er að senda inn spurningar á Slido með þessum kóða #samgongur

Vikuviðtalið: Guðmundur M. Kristjánsson

Ég heiti Guðmundur M. Kristjánsson, en flestir þekkja mig einfaldlega sem Mugga. Ég hef átt viðburðaríkt líf, bæði á sjó og í landi, og það er óhætt að segja að ég hafi komið víða við. Lengst af var ég hafnarstjóri á Ísafirði, en í dag hef ég loksins meiri tíma til að sinna því sem gleður mig mest eftir að ég fór á eftirlaun– tónlistinni. Ég syng með Karlakórnum Erni þar sem ég er núna nýskipaður formaður, spila á básúnu í Lúðrasveit Ísafjarðar og hitti félaga mína í hljómsveitinni Drumbar vikulega. En leiðin hingað var löng og full af ævintýrum.

Tónlistarhátíð sem spratt af hugmynd í góðu bjórsulli útí London en mér og syni mínum, Erni Elíasi – betur þekktum sem Mugison – datt eitt sinn í hug að halda tónlistarhátíð á Ísafirði, og ákváðum að prófa þetta einu sinni, bara til gamans. Okkur datt ekki í hug að þetta yrði að árlegum viðburði, en hér erum við, tuttugu árum síðar, með Aldrei fór ég suður enn við líði en við báðir höfum komið þessu af okkur til annarra og gott að vita að Ísafjarðarbær hefur núna tekið virkan þátt í að viðhalda þessum viðburði. Frá upphafi lögðum við áherslu á að hátíðin yrði fyrir alla – alvöru rokkhátíð alþýðunnar. Þar fær nýliði á sviði sömu athygli og þekktar hljómsveitir, og það hefur verið lykillinn að þessu öllu saman.

Ég tók við sem hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar árið 2002 eftir að hafa búið og unnið í Malasíu í þrjú ár. Ég hafði verið sjómaður frá fimmtán ára aldri, en þótt ég hefði siglt um allan heim var löngunin til að koma heim sterkari en nokkru sinni fyrr. Ísafjarðarhöfn var á þeim tíma að byggja sig upp sem viðkomustað fyrir skemmtiferðaskip, og það var mitt hlutverk að kynna höfnina fyrir erlendum skipafélögum þar sem forveri minn í starfi Hermann Skúlason heitinn ruddi brautina og tók ég við keflinu og hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar ákvað að setja meira púður í markaðssóknina sem heldur betur hefur skilað árangri og gaman að sjá hve miklu máli þetta skiptir fyrir samfélagið og styður við allskonar fyrirtæki í bænum. Ísafjarðarhöfn er nú einn helsti áfangastaður skemmtiferðaskipa á Íslandi. Ég átti góðan vin í þessu starfi, Hjalta Þórarinsson. Við kynntumst þegar ég kom aftur heim til Ísafjarðar og hann var hafnarstarfsmaður. Við urðum fljótt óaðskiljanlegir vinir og tókum okkur fyrir hendur að fara um bæinn fyrir jólin og syngja fyrir fyrirtæki. Það var hans hugmynd, og margir í bænum litu á þetta sem upphaf jólanna. Já svona getur nú lífið verið skemmtilegt.

Áður en ég settist við landfestarnar á Ísafirði, átti ég ótal ævintýri víða um heim. Ég var skipstjóri á íslenskum togurum, en tók síðan þátt í þróunarverkefnum í fiskveiðum í Grænhöfðaeyjum við Afríku. Þaðan lá leiðin til Falklandseyja, þar sem ég var svona reddari við nýtt útgerðarverkefni. Það reyndist heldur snúið – þegar reksturinn fór í þrot stóð ég skyndilega frammi fyrir æstum sjómönnum sem höfðu ekki fengið borgað. Ég þurfti lögregluvernd dögum saman til að sleppa óskaddaður frá þessu öllu saman. Ég fór líka til Argentínu og starfaði þar við fiskveiðiráðgjöf. Þar voru peningar ekki vandamál, en þeir sem stóðu að verkefninu virtust hafa hulið tengsl við valdamikla aðila og kannski ekki allt með felldu.

Lífsháskar og hættuleg augnablik Lífið á sjó er aldrei hættulaust. Ég hef legið undir skothríð í Suður-Ameríku, en hættulegasta augnablikið var líklega þegar ég var hársbreidd frá því að vera hálshöggvinn með sveðju í Malasíu. Skipstjórinn, sem var undarlegur maður og tuggði gras sér til friðþægingar, vaknaði við skruðninga og hélt að sjóræningjar væru komnir um borð. Hann tók sveðjuna sína og réðst á mig. Ég rétt náði að forða mér á síðustu sekúndu – sveðjan fór í stýrishúsið í staðinn fyrir hálsinn á mér. Ég hef líka verið einn á báti í óveðri á Biscayaflóa og þurft að treysta á bæði reynslu og heppni til að komast lífs af. Lífið í dag – tónlist, félagsskapur og fjölskylda.

Eftir þessi ævintýri er lífið nú orðið mun rólegra. Við Halldóra Magnúsdóttir konan mín tókum uppá því að byggja hús í fyrra í endanum á Hlíðarvegi á Ísafirði sem er bara mjög vel heppnað og tók ekki langan tíma. Við fluttum inn 5 mánuðum eftir að við byrjuðum.

Ég nýt þess líka að vera með fjölskyldunni við Halldóra eigum saman tíu barnabörn sem veita okkur mikla gleði. Ég hugsa stundum um allt sem ég hef lent í á ferðum mínum, og ég sé ekki eftir neinu. Ævintýrin hafa kennt mér margt, en tónlistin, félagsskapurinn og fjölskyldan eru það sem skipta mestu máli í dag.

Háskólasetur Vestfjarða – Sterk stoð í samfélaginu í 20 ár

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

Háskólasetur Vestfjarða fagnar 20 ára starfsafmæli þann 14. mars. Frá stofnun þess árið 2005 hefur Háskólasetrið skipað sér sess sem öflugt mennta- og rannsóknasetur á landsbyggðinni og leitt til mikilvægra efnahagslegra, samfélagslegra áhrifa á Vestfjörðum. Háskólaseturið hefur sannað sig sem mikilvægur hlekkur í nýsköpun og samfélagslegri þróun á Vestfjörðum.  

Mikilvægi og hlutverk Háskólaseturs

Þegar Háskólasetur Vestfjarða var stofnað var markmiðið skýrt: Að efla háskólamenntun á Vestfjörðum og stuðla að efnahagslegri og samfélagslegri þróun svæðisins. Þetta var stórt skref á þeim tíma, enda höfðu landsbyggðirnar löngum glímt við fólksfækkun og takmarkað aðgengi að háskólanámi. Með því að koma á fót Háskólasetri Vestfjarða var lagður grunnur að menntunartækifærum á svæðinu og aukinni háskólasókn.

Háskólasetrið hefur byggt upp námsleiðir sem höfða til alþjóðlegra nemenda og háskólasamfélagsins almennt. Námsbrautir í haf- og strandsvæðastjórnun og sjávarbyggðafræði hafa laðað til sín nemendur víðs vegar að úr heiminum og gert Ísafjörð að mikilvægum punkti í fræðilegrar umfjöllunar um vistkerfi sjávar, nýtingu náttúruauðlinda og samfélagsþróun á breiðum grunni. Þannig hefur setrið ekki aðeins opnað dyr fyrir Vestfirðinga til háskólanáms heldur einnig gert Ísafjörð og Vestfirði að kjörsvæði fyrir rannsóknir og fræðastarf.

Lyftistöng fyrir atvinnulífið

Efnahagsleg áhrif Háskólaseturs Vestfjarða á svæðinu eru fjölþætt. Háksólasetrið hefur skapað störf fyrir sérfræðinga og kennara og dregið að sér námsmenn og fræðafólk sem leggur sitt af mörkum til samfélagsins. Á sama tíma hefur það skapað ný tækifæri fyrir ferðaþjónustu, húsnæðismarkað og nýsköpun.

Nemendur sem koma til Vestfjarða til náms hafa margir hverjir ákveðið að setjast að á svæðinu eða komið aftur eftir nám. En á hverju ári eru um 80 nemendur búsettir á Vestfjörðum á vegum Háskólaseturs. Þessi þróun hefur styrkt byggð og veitt svæðinu nauðsynlega innspýtingu í formi ungs, menntaðs fólks.

Starfsemi Háaskólasetur Vestfjarða hefur líka leitt af sér mikilvæg störf og þekkingaruppbyggingu. Fjölmörg dæmi eru um ný fyrirtæki sem nemendur hafa byggt upp á svæðinu sem hafa auðgað vestfirskt samfélag. Nemendur og kennarar Háskólasetur hafa líka verið mikilvægir starfsmenn í atvinnulífinu t.a,m. í vaxandi ferðaþjónustu og hjá nýsköpunarfyrirtækjum á borð við Kerecis svo eitthvað sé nefnt.

Rannsóknir á vegum Háskólaseturs hafa leitt til nýrra tækifæra og aukið stuðning við nýsköpun á sviði sjávarútvegs, ferðaþjónustu og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda.

Það voru stór tímamót í sögu Háskólaseturs Vestfjarða þegar stúdentagarðarnir í Fjarðarstrætinu voru opnaðar 1. desember 2024 sl. Húsin tvö eru stórglæsileg (nema kannski umdeildu lofttúðurnar) og með 40 íbúðum. Þar með var leyst úr brýnni húsnæðisþörf háskólanema og samhliða losaði líka um á almennum leigumarkaði.

Háskólasetur Vestfjarða – það lengi lifi

Á tuttugu árum hefur Háskólasetrið sannað mikilvægi sitt fyrir Vestfirði og íslenskt fræðasamfélag. Það hefur verið burðarás í menntun, samfélagsuppbyggingu og efnahagsþróun á svæðinu og veitt Vestfirðingum aðgang að menntun sem áður var einungis aðgengileg á höfuðborgarsvæðinu. Áframhaldandi starfsemi og þróun Háskólaseturs er ekki aðeins mikilvæg fyrir háskólamenntun heldur einnig fyrir framtíð byggðar á Vestfjörðum. Með skýrri framtíðarsýn og öflugu samstarfi mun Háskólasetrið áfram vera hornsteinn fræðastarfs, nýsköpunar og samfélagslegrar þróunar í fjórðungnum.

Við Vestfirðingar fögnum þessum merku tímamótum og erum þakklát fyrir það gæfuskref sem tekið var fyrir tuttugu árum með stofnun Háskólasetur Vestfjarða. Horfum bjartsýn til framtíðar og til hamingju með daginn!

Arna Lára Jónsdóttir

Oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Strandabyggð: verulegar skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri Strandabyggðar. Mynd: visir.is

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar segir aðspurður um afstöðu Strandabyggðar til tillagna um breytta úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóðis veitarfélaga að það sé í sjálfu sér lítið um það að segja, þar sem legið hefur fyrir í nokkurn tíma að regluverkinu yrði breytt, enda sé vel tímabært. 

„Fyrir Strandabyggð felur breytingin í sér verulega skerðingu á framlögum á næstu árum.  En, í þeirri mynd sem breytingarnar voru kynntar fyrir sveitarstjórn nýlega, er skerðingin minni en áætlað var.   Það sem er jákvætt við þessar breytingar er að nýtt regluverk er einfaldara  og þá er það jákvætt að meta allar breytur saman, en ekki sem stakar stærðir og áður var.“

Samkvæmt tillögunum munu framlögin lækka um 51 m.kr. og verða 148 m.kr. en eru 197 m.kr. samkvæmt úthlutun miðað við gildandi reglur.

Nýjustu fréttir