Fyrir hartnær 20 árum hafði ég mikla löngun til að mennta mig en kom að mörgum lokuðum dyrum því ekki hafði ég lokið stúdentsprófi og var orðin ráðsett frú, með tvö börn og hafði fjárfest í fasteign hér fyrir vestan og enga löngun til að flyta búferlum. Fjarnámsmöguleikarnir voru ekki margir á þeim tíma og því lítið annað í stöðunni en að flytja tilneydd þangað sem háskólabyggingin stæði sem væri þá; Reykjavík, Akureyri eða út fyrir landsteinana til að sækja mér nám. Árið 2007 sá ég auglýsingu um að Háskólsetur Vestfjarða hyggðist bjóða upp á Frumgreinanám frá HR og yrði það kennt í Háskólasetrinu. Stökk ég feigins hendi á það tækifæri, sem hentaði mér fullkomlega. Við tóku tvö frábær ár, þar sem ég kynntist frábærum stjórnendum, kennurum og samnemendum mínum og auðvitað Gunnu Siggu 😊 Tveimur árum seinna lauk því námi, enn var ekki úr miklu að moða í fjarnámsmöguleikum. Ég óskaði því eftir stuðningi Háskólaseturs við að auglýsa eftir nemendum sem hefði áhuga á að sækja um sálfræðinám frá Háskólanum á Akureyri og í krafti fjöldans, með stuðningi frá Háskólasetrinu og stuðningsyfirlýsingu sveitarfélagana þá hófu 15 nemendur frá norðanverður Vestufjörðum nám í sálfræði frá HA í fjarnámi haustið 2010, fyrstu fjarnemarnir. Skemmst er frá því að segja að sálfræðin tókst vel til og er það nám ennþá kennt í fjarnámi frá HA. Sumir nemendur útskrifuðust sem sálfræðingar, aðrir fóru í annað nám en verðmæt þekking jókst á svæðinu.
Ég er þess fullviss að stuðningur Háskólaseturs Vestfjarða og því frábæra starfsfólki og stjórnendum sem þar eru, var vendipunkturinn í því að fjarnám var samþykkt með miklum áhuga hjá Háskólanum á Akureyri.
Á ég því Háskólasetri margt að þakka og tel það vera mikilvægan hlekk í virku og framsæknu samfélagi hérna fyrir vestan.
Ég óska ykkur Vestfirðingum innilega til hamingju með 20 ára afmæli Háskólaseturs Vestfjarða.
Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, Bolvíkingur og fyrrverandi nemandi