Þriðjudagur 18. mars 2025

Minnsta kartöfluuppskera síðan 1993

Kartöfluuppskera árið 2024 var 5.514 tonn sem er sú minnsta síðan 1993 þegar hún var 3.913 tonn. Heildaruppskera korns, sem bændur þresktu af ökrum sínum árið 2024, var rúm 5.100 tonn en það er minnsta kornuppskera frá árinu 2018.

Uppskera á tómötum og papriku í ylrækt jókst miðað við árið 2023. Hvað framleiðslu á agúrkum varðar hefur hún verið í stöðugum vexti undanfarin 20 ár. Salat er að mestu leyti framleitt í ylrækt og nam heildaruppskera þess 553 tonnum sem er 6% samdráttur frá árinu 2023. Þrátt fyrir það var þetta þriðja mesta salatuppskera sem mælst hefur.

Gulrótauppskeran var 481 tonn sem er minnsta uppskera í 11 ár og 53% minni en árið 2023. Rófuuppskeran var 549 tonn, 14% minni en árið 2023.

Mjólkurframleiðslan árið 2024 var rúm 158 þúsund tonn, sú mesta frá árinu 1977 eða eins langt aftur og gögn ná. Þá jókst ullarframleiðsla frá fyrra ári og var 553 tonn.

Hlaupahátíð á Vestfjörðum 2025

Hin árlega Hlaupahátíð á Vestfjörðum verður haldin dagana 18. – 19. júlí 2025.

Í ár verður hátíðin með breyttu sniði en einblínt verður á kjarna Hlaupahátíðarinnar, hlaupin. Keppnisgreinar fyrri dagsins eru nýjustu hlaup hlaupahátíðarinnar, annars vegar 7 km utanbrautarhlaup þar sem hlaupið er frá gönguskíðasvæðinu á Seljalandsdal og niður í miðbæ Ísafjarðar og hinsvegar hið nýja 15 km Óshlíðarhlaup sem byggir á eldra hlaupi með sama heiti. Þar er hlaupið milli bæjarfélaga, þ.e. frá Bolungarvík til Ísafjarðar, um aflagða veginn um Óshlíð sem fyrir 2010 var eina samgönguleiðin á landi milli þessara tveggja bæjarfélaga, og endað í miðbæ Ísafjarðar. 

Seinni daginn geta hlauparar notið hinnar sívinsælu Vesturgötu og að venju er hægt að velja um hálfa (10 km), heila (24 km) eða tvöfalda Vesturgötu (45 km). 

Sunnudaginn 20. júlí býður íþróttafélagið Höfrungur á Þingeyri upp á 2 og 4 km skemmtiskokk í tilefni 120 ára afmælis íþróttafélagsins. Hlaupið hefst kl. 11 frá kirkjunni á Þingeyri.  

FÖSTUDAGUR – 18. JÚLÍ

17:30: 15 km Óshlíðarhlaup
18:00: 7 km Utanbrautarhlaup

LAUGARDAGUR – 19. JÚLÍ

08:00: Tvöföld Vesturgata 45 km
11:00: Heil Vesturgata 24 km
13:00: Hálf Vesturgata 10 km
Verðlaunafhending á Sveinseyri

SUNNUDAGUR – 20. JÚLÍ

11:00: 2 og 4 km skemmtiskokk á vegum íþróttafélagins Höfrungs á Þingeyri
Ræst frá kirkjunni á Þingeyri.

Skráning á hlaupahátíd.is

Mikill munur á húsaleigu

Alls tóku 1.400 nýir leigusamningar gildi í leiguskrá HMS í febrúar á sama tíma og 791 samningur féll úr gildi. Gildum leigusamningum fjölgaði þannig um 609 milli mánaða. Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið upp úr leiguskrá.

Af þeim 1.400 samningum sem tóku gildi í febrúar voru 77 prósent á vegum einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga, en HMS metur markaðsleigu út frá slíkum samningum. Hlutfallið var sambærilegt í febrúar árið 2024 þegar 79 prósent af 1.297 nýjum samningum voru gerðir á markaðsforsendum. 

Meðaltal markaðsleigu í nýskráðum samningum í febrúar var 263 þúsund krónur og er óbreytt frá fyrri mánuði. Sé litið til leiguíbúða sem eru minni en 80 fermetrar var meðaltal markaðsleigu 231 þúsund krónur og hækkaði um 1,3 prósent milli mánaða. Fyrir stærri leiguíbúðir var leiguverð að meðaltali 296 þúsund krónur og lækkaði um 2,1 prósent milli mánaða. 

Markaðsleiguverð er nokkuð breytilegt eftir landshlutum og sveitarfélögum, eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni en hún sýnir meðaltal markaðsleigu í sveitarfélögum þar sem gerðir voru fimm eða fleiri leigusamningar í mánuðinum.

Alþjóðleg ráðstefna um ofanflóðavarnir

Árið 2025 er þess minnst að 30 ár eru frá því að hin mannskæðu snjóflóð féllu í Súðavík og á Flateyri árið1995.

Atburðirnir ollu ekki aðeins miklu manntjóni heldur einnig umtalsverðu eignatjóni og röskun á lífi fólks og starfsemi fyrirtækja. Frá því snjóflóðin féllu hefur verið unnið markvisst að byggingu varnarmannvirkja og aðlögun samfélaga að þeirri ógn sem þessi náttúruvá er.

Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) vill minnast þessara atburða með því að halda næstu SNOW ráðstefnu á Ísafirði dagana 30. september til 3. október nk. Áður hefur VFÍ staðið fyrir samskonar ráðstefnum á Siglufirði 2019 og á Egilsstöðum 2008.

Ráðstefnan SNOW2025 er alþjóðleg ráðstefna um ofanflóðavarnir og ber nafnið:

The International Symposium on Mitigation Measures against Snow Avalanches and other Rapid Gravity Mass Flows.

Megin þemu ráðstefnunnar eru:

  • Áhættustjórnun
  • Umhverfi og samfélag
  • Skipulag, hönnun, uppbygging og viðhald varnarmannvirkja
  • Virkni varnargarða byggt á reynslu, tilraunum og tölulegum hermunum.

Síðustu ráðstefnur hafa laðað að sér fjölmarga íslenska þátttakendur og töluverðan hóp erlendra vísindamanna og fagfólks. Ráðstefnan er ætluð fólki frá sveitarstjórnum, stjórnsýslu, rekstraraðilum skíðasvæða, vegagerð, mannvirkjahönnuðum, eftirlitsaðilum og fræðimönnum innlendum sem erlendum.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru íslenskir og erlendir fagaðilar. Þeir eru:

Verkfræðingafélag Íslands, Vegagerðin, Skipulagsstofun, FSRE, Háskóli Íslands, COWI, NTNU í Þrándheimi, Norges Geotekniske Institutt NGI, SLF í Davos Sviss, og ORION Consulting slf.

Á vefsíðu ráðstefnunnar www.snow2025.is má nálgast frekari upplýsingar. 

Ísafjörður: lóðum úthlutað á Suðurtanga

Suðurtangi. Mynd: Ísafjarðarbær.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur birt tillögur sínar um úthlutun lóða á Suðurtanga. Leggur nefndin til að Eimskip fái tvær lóðir, Hrafnatanga 6 og Æðartanga 11 með vísan í 6. gr. lóðarúthlutunarreglna Ísafjarðarbæjar sem gerir ráð fyrir að fyrirtæki eða stofnun á næstu lóð þurfi að eiga möguleika á því að stækka lóð sína. Nefndin telur að tryggja þurfi lóðir fyrir land- og sjóflutninga sem næst hafnar- og gámasvæði. Staðsetning á þessu svæði mun bæta umferðaröryggi á Suðurtanga.

Þá er lagt til að Nora Seafood ehf.  fái lóðina Hrafnatanga 4 og Vestfirskir verktakar ehf fái Æðartanga 9.

Ísinn ehf var með umsóknir um nokkrar lóðir en féll frá þeim.

Tillögurnar verða afgreiddar á næsta bæjarstjórnarfundi.

Grunnvíkingafélagið í Reykjavík: stefnt að því að leggja félagið niður

Frá Flæðareyri, en þar eru fjórða hvert ár haldnar fjölmennar samkomur Grunnvíkingafélaganna.

Aðalfundur Grunnvíkingafélagsins í Reykjavík var haldinn í síðustu viku. Samþykkt var að stefna að því að að félagið í Reykjavík verði lagt niður sem fyrst og ný stjórn vinni þá vinnu fram að næstu aðalfundi, sem stefnt er að halda á haustdögum.

Í fundargerð segir að  áttahagafélög víða um land hafa verið að leggjast af og að félagsmenn séu hættir að leggja tíma sinn í slík félög.

Þá var einnig samþykkt að selja hlut félagsins í Höfða orlofshúsi. Húsið þarfnast orðið mikils viðhalds og ásókn í gistingu hefur minnkað síðustu ár. Félagið á helming í húsinu á móti Grunnvíkingafélaginu á Ísafirði og hefur verið farið fram á að það heimili sölu hússins.

Í stjórn Grunnvíkingafélagsins í Reykjavík voru kosin Páll Halldór Halldórsson, formaður, Hallfríður Ragúelsdóttir, gjaldkeri, Helga Björg Hafþórsdóttir, meðstjórnandi og Vala Smáradóttir, meðstjórnandi / varamaður.

Félagið er skuldlaust og eignir þess er metnar á 11 m.kr. auk 705 þúsund króna í sjóði.

Vestri: Freyja Rún valin í hæfileikamót KSÍ

Margrét Magnúsdóttir yfirmaður í Hæfileikamótun N1 og KSÍ, hefur valið Freyju Rún Atladóttur leikmann Vestra til þátttöku í Hæfileikamóti sem fram fer í knattspyrnuhúsinu Miðgarði í Garðabæ dagana 26.-28. mars nk.

Freyja Rún er fædd 2011.

Samfylkingin á Vestfjörðum: skorar á ríkisstjórnin að bæta úr samgöngumálum í fjórðungnum

Aðalfundur Samfylkingarinnar á Vestfjörðum var haldinn miðvikudagskvöldið 12. mars, í Rögnvaldarsal á Edinborg.

Á fundinum var farið yfir starf félagsins frá síðasta aðalfundi sem var 22. mars 2023. Miklar breytingar hafa orðið á hinu pólitíska landslagi s.l. tvö ár. Óvinsæl ríkisstjórn farin frá völdum og ný ríkisstórn Kristrúnar Frostadóttir komin til valda, binda jafnaðarmenn miklar vonir við þá ríkisstjórn.

Á fundinum var farið yfir gott starf fráfarandi stjórnar, mikil vinna farið fram og framundan eru kosningar til sveitastjórnar á næsta ári.

Á fundinum var Gylfi Þór Gíslason, endurkjörinn formaður félagsins.

Aðrir í stjórn voru endurkosnir: Emil Emilsson, Ísafirði, Eysteinn Gunnarsson, Hólmavík, Guðrún Anna Finnbogadóttir, Patreksfirði, Gunnhildur Elíasdóttir, Þingeyri, Magnús Bjarnason, Ísafirði.

Finney Rakel Árnadóttir, Ísafirði kom ný inn í staðinn fyrir Bryndísi Friðgeirsdóttur.

Á aðafundinum var Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, gestur fundarins. Hún ræddi um hennar nýja starf sem bæjarstjóri og stöðu mála. Einnig var til umræðu komandi kosningar. Spunnust fjörugar umræður um málefni bæjarins og Í-listans.

ályktanir aðalfundar

Á aðalfundinum voru eftirfarandi ályktanir samþykktar:

„Aðalfundurinn lýsir yfir ánægju sinni með nýja ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar og bindur miklar vonir við stjórnin nái að auka jöfnuð fólksins í landinu.

Megin verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að styrkja innviði samfélagsins eftir vanrækslu undanfarinna ára, þar sem afleiðing hefur verið veruleg innviðaskuld  sem er að finna víða í samfélaginu.

Samgöngumál eru einn þeirra málaflokka sem vanræktur hefur verið og bitnar sú vanræksla ekki síst á Vestfirðingum. Því skorar fundurinn á ríkisstjórnina að bæta þar verulega úr svo hægt verði að sinna nauðsynlegu viðhaldi vega, flýta nýbyggingu vega svo sem í Árneshreppi og Vesturbyggð og hefja jarðgagnagerð að nýju.

Þá ætlast fundurinn til þess að flug til Vestfjarða verði tryggt í framtíðinni.“

Utanríkisráðherra á Vestfjörðum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra er á Vestfjörðum í dag og á morgun. Hún kom keyrandi vestur í gær, hafði veður af því að veðurspáin fyrir daginn væri ekki góð fyrir flug og fór því akandi frekar en að taka þá áhættu að láta veðrið spilla skipulagðri dagskrá.

Boðið verður upp á opna viðtalstíma á Ísafirði og Patreksfirði og þá fer fram opinn kvöldfundur á Ísafirði. Tímasetningar eru sem segir:

  • Opinn viðtalstími í Vestfjarðastofu – mánudaginn 17. mars kl. 16.00-18.00
  • Opinn fundur á Dokkunni á Ísafirði – mánudaginn 17. mars kl. 20.00
  • Opinn viðtalstími á bæjarskrifstofu Vesturbyggðar – þriðjudaginn 18. mars kl. 16.00-18.00

Í stuttu samtali Bæjarins besta við Þorgerði Katrínu kom fram hjá henni að hún myndi í dag hitta sveitarstjóra á norðanverðum Vestfjörðum og eiga með þeim fund. Þá væri á dagskránni að fara í heimsókn í Kerecis á Ísafirði og hitta lögreglustjórann á Vestfjörðum. Sem utanríkis- og varnarmálaráðherra þá yrði auðvitað farið upp á Bolafjall í Ratsjárstöðina sem þar er og hitta starfsmenn stöðvarinnar.

Utanríkisráðherra hafði á orði að vegirnir í Dölunum væru slæmir og sagði að það væri verkefni ríkisstjórnarinnar að finna meira fé í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu. Ástandið væri þannig að það væri skilljanlegt að kallað væri eftir því um allt land.

Þorgerður Katrín lafði áherslu á að það væri eitt af verkefnum utanríkisráðherra að gæta að hagsmunum útflutningsatvinnuveganna og nú þyrfti að leitast við að sigla framhjá tollastríði sem myndi hafa alvarleg áhrif laxeldið og sjávarútveginn, að ekki væri talað um ferðaþjónustuna.

Háskólasetur Vestfjarða 20 ára – Peter Weiss lætur af störfum

Frá aðalfundi Háskólastursins. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Á föstudaginn var haldið upp á 20 ára afmæli Háskólasetur Vestfjarða. Fulltrúaráð Háskólasetursins kom saman í Vestrahúsinu og hélt aðalfund. Þá voru veglegar veitingar, kvennakór Ísafjarðar söng og Vestfjarðastofa stóð fyrir málstofu um uppbyggingu þekkingar í fjórðungnum. Þar var velt upp spurningunni hvað væri næst í uppbyggingu þekkingar.

Mikið fjölmenni var samankomið í Háskólasetrinu til að fagna þessum tímamótum.

Kvennakór Ísafjarðar var undir stjórn Rúnu Esradóttur.

Málstofa Vestfjarðastofu um uppbyggingu þekkingar. Gylfi Ólafsson, formaður Fjórðungssambands Vestfjarða stjórnaði umræðum. Á myndinni má sjá Gauta Geirsson, Háafelli, Dóróteu Hreinsdóttur, M.Í., Guðmund Fertram Sigurjónsson, Kerecis, Margréti Jónsdóttur Bifröst og Ragnheiði I. Þórarinsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands.

Peter Weiss lætur af störfum í haust

Á aðalsfundinum tilkynnti Peter Weiss, forstöðumaður Háskólasetursins frá upphafi að hann hygðist láta af störfum í haust. Eftir tuttugu ára starf fyndist honum komi tími til að breyta til. Í ávarpi sínu sagði Peter m.a.

„Ég tel mig hafa gefið Háskólasetri það sem ég er bestur í: Trú á framtíðina, að greina möguleika, vera skýr í stefnumótun, agaður í fjárhagsmálum, koma nýrri stofnun vel af stað og vinna henni traust. Háskólasetur Vestfjarða nýtur góðs af miklum stöðugleika, mikilli festu, í stjórn og hjá starfsfólki. En það þarf líka endurnýjun. Nú er tími kominn að aðrir taki við.“ og lauk máli sínu með því að segja „Ég er óendanlega þakklátur fyrir að mild örlög hafa skolað mér á einmitt þessa strönd, þar sem mér var treyst fyrir Háskólasetri Vestfjarða í heil tuttugu ár.“

Nýjustu fréttir