Miðvikudagur 30. apríl 2025
Heim Blogg

Hjúskapur og lögskilnaður 2024

Af þeim 5.546 einstaklingum sem stofnuðu til hjúskapar í þjóðskrá árið 2024 gengu 48,8% í hjúskap hjá Sýslumönnum, 31,2% hjá Þjóðkirkjunni, 10,3% hjá öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum og 9,7% erlendis.

Þegar horft er á samanburð milli landshluta má sjá að miðað við hverja 1000 íbúa gengu flestir íbúar Höfuðborgarsvæðisins í hjúskap á árinu 2024, þar á eftir íbúar Suðurnesja og loks íbúar Vesturlands og Austurlands.

Það sem af er þessari öld hafa aldrei jafnmargir gengið í hjónaband og í fyrra.

1.780 gengu frá lögskilnaði á árinu 2024 sem er 1,8% fjölgun frá árinu áður þegar 1.749 einstaklingar gengu frá lögskilnaði að því er kemur fram í tölum Þjóðskrár.

Auglýsing
Auglýsing

Vísitala neysluverðs hækkar á milli mánaða

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í apríl 2025, sé 649,7 stig (maí 1988=100) og hækkar um 0,93% frá fyrri mánuði.

Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,8% (áhrif á vísitöluna 0,12%) og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 1,1% (0,22%). Flugfargjöld til útlanda hækkuðu einnig um 20,4% (0,40%).

Tólf mánaða verðbólga jókst um 0,4 prósentustig milli mánaða og mælist nú aftur yfir fjórum prósentustigum, 4,2 prósent.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í apríl 2025, sem er 649,7 stig, gildir til verðtryggingar í júní 2025.

Auglýsing
Auglýsing

Húsi kynslóðanna – fjölnota íbúðarhúsi fyrir eldri borgara og nemendur menntaskólans

Framkvæmdir eru hafnar við nýja nemendagarða fyrir Menntaskóla Borgarfjarðar að Borgarbraut 63 í Borgarnesi. Um er að ræða nýbyggingu sem verður hluti af svokölluðu húsi kynslóðanna – fjölnota íbúðarhúsi sem mun hýsa bæði eldri borgara og nemendur menntaskólans.

Bygging nemendagarðanna er fjármögnuð með stofnframlögum frá ríki og Borgarbyggð ásamt eiginfjárframlagi frá Nemendagörðum MB og leiguíbúðaláni frá HMS.

Verkefnið er samstarfsverkefni Nemendagarða Menntaskóla Borgarfjarðar og Brákarhlíðar fasteignafélags ehf. og munu nemendagarðar skólans kaupa neðstu hæð hússins sem mun hýsa 12 íbúðir fyrir allt að 18 nemendur.

Á efri hæðum hússins, það er annarri til fjórðu hæð, verða íbúðir ætlaðar einstaklingum 60 ára og eldri. Með þessu sameinaða húsnæði verður bæði brugðist við aukinni þörf fyrir hagkvæmt húsnæði fyrir eldra fólk og aðstöðu fyrir sífellt fleiri nemendur sem sækja nám við Menntaskóla Borgarfjarðar.

Auglýsing
Auglýsing

Skiptimarkaður og heimsmarkmið

Skiptimarkaður fyrir plöntur og púsl verður í gangi alla vikuna (28. apríl – 3. maí) á Bókasafninu á Ísafirði.

Hægt er að koma með púsl, plöntur eða afleggjara og setja á skiptimarkaðinn og takið eitthvað nýtt með heim.

Viðburðurinn er haldinn í tilefni Viku 17 sem er  alþjóðleg vika Heimsmarkmiðanna á bókasöfnum og er markmiðið að stuðla að hringrásarhagkerfi og ábyrgri neyslu.

Hvað eru heimsmarkmiðin?

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila.

Auglýsing
Auglýsing

O.V. : jarðhitaleit á Patreksfirði í sumar

Frá Patreksfirði. Geirseyrarmúli er innan til við Vatneyrina.

Orkubú Vestfjarða hefur sótt um leyfi til að bora eina vinnsluholu og þrjár rannsóknarholur undir Geirseyrarmúla á Patreksfirði. Eru þessar rannsóknir í framhaldi af borunum sumarið 2023 þegar boruð var vinnsluhola og tvær rannsóknarholur. Þá fannst volgt vatn 25 sekúndulítrar af 25 gráðu heitu vatni.

Ætlunin var að vinnsluholan yrði 300 metra djúp en borinn brotnaði þegar komið var í 108 metra og ekki hægt að halda áfram.

Sölvi Sólbergsson hjá Orkubúi Vestfjarða sagði í samtali við Bæjarins besta að nú yrði boruð önnur vinnsluhola við þá sem boruð var 2023 og fara niður á 300 metra. Einnig verða boraðar þrjár rannsóknarholur í því skyni að afmarka frekar leitarsvæðið.

Að sögn Sölva þyrfti um 10 sekúndulítra til viðbótar til þess að unnt verði að nýta vatnið með varmadælu á Patreksfirði.

Það verður Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem annast verkið og verður það unnið snemma í sumar.

Auglýsing
Auglýsing

Ísafjarðarbær: styrkir íþróttasvið við M.Í.

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samþykktur verði samningur til fjögurra ára um stuðning Ísafjarðarbæjar við Menntaskólann á Ísafirði, um stuðning við íþróttasvið MÍ.

Samkvæmt samningnum mun Ísafjarðarbær veita MÍ árlegan fjárhagslegan stuðning vegna áranna 2026-2029, að fjárhæð kr. 1.911.613, sem ætlaður er til greiðslu launa þjálfara í þeim íþróttagreinum sem í boði eru.
Styrkurinn er greiddur í tveimur hlutum ár hvert, að vori og hausti, og skal fyrsta greiðsla fara fram að vori

Bærinn leggur auk þess til tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi í samráði við forstöðumann íþróttamannvirkja. Fjöldi tíma á viku er á bilinu 4–6, eftir því sem starfsemi íþróttasviðsins krefst hverju sinni.

Ísafjarðarbær hefur stutt afreksíþróttabrautina við Menntaskólann á Ísafirði frá 2018. Bolungavíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur hafa einnig greitt styrki frá upphafi og er miðað við íbúafjölda. Bolungarvík veitir einnig gjaldfrjáls afnot af sundlauginni sinni vegna sundæfinga á
íþróttasviðinu.

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og íþróttasviðs að útlitið fyrir árið 2026 er ekki bjart hjá M.Í. þar sem boðaður er niðurskurður í framhaldsskólakerfinu upp á 1,5 milljarð. MÍ heldur úti
dýru iðnnámi og enn vantar töluvert fjármagn til reka það. Það er því ekki hægt að sækja neitt auka fjármagn frá ríkinu fyrir íþróttasviðinu og einu kostirnir til að reka það áfram er að fá styrk frá sveitarfélögum eða með því að skera niður aðrar námsleiðir innan skólans.

Auglýsing
Auglýsing

Dynjandisheiði: framkvæmdir að hefjast við 3. áfanga

Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, og Atli Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Borgarverks, skrifuðu undir verksamning.

Í nýútkomnum framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar er sagt frá því að búið er að undirrita verksamning um 3. áfangann á Dynjandisheiði og eru framkvæmdir að hefjast.

Verkið felst í nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 7,2 km kafla, ásamt um 0,8 km kafla á Dynjandavegi. Vegurinn verður að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Inn í verkinu er einnig gerð keðjunarplans og gerð áningarstaðar. Verktaki mun hefjast handa innan skamms en Borgarverk sinnir þegar tveimur öðrum framkvæmdaverkum á svipuðum slóðum, annars vegar fyllingum vegna þverunar Gufufjarðar og Djúpafjarðar og hins vegar verkefni við snjóflóðavarnir nærri Flateyri.
Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.

Kort sem sýnir framkvæmdasvæði 3. áfanga Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði.

Auglýsing
Auglýsing

Reykjavíkurborg á styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Ráðhúsið í Reykjavík.

Á Alþingi er til meðferðar stjórnarfrumvarp um breytingar á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þar er nýtt ákvæði um svonefnt höfuðstaðarálag og er sértaklega eyrnamerkt Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur það hlutverk að styrkja fámennari sveitarfélög landsins svo þau geti sinnt verkefnum til jafns við fjölmennustu sveitarfélög landsins. Til þessa hefur Reykjavíkurborg vegna yfirburðastöðu sinnar í íbúafjölda og tekjuöflun almennt ekki fengið framlög úr sjóðnum.

Nú er hins vegar lagt til að á þessu verði breyting. Tekið verði upp höfuðstaðarálag sem nemi 2,5% af því fé sem Jöfnunarsjóðurinn fer til jöfnunarframlaga. Á þessu ári er gert ráð fyrir að sjóðurinn úthluti um 50 milljörðum króna. Höfuðstaðaálagið gæti því numið allt að 1,3 milljörðum króna sem skiptist á milli sveitarfélaganna tveggja þannig að einu prósentustigi þess skal skipta jafnt á milli þeirra og 1,5 prósentustigi skal skipta eftir fjölda íbúa þeirra 1. janúar ár hvert. Nýja framlagið skerðir framlög til annarra sveitarfélaga.

Í greinargerð með frumvarpinu er nefnt að ein ástæða höfuðstaðaálagsins sé að íbúar nærliggjandi sveitarfélaga sækja ákveðna tegund þjónustu til Reykjavíkur og Akureyrar. Sérstaklega er tilgreint að kostnaður vegna félagsþjónustu og menningarstarfsemi á hvern íbúa sé mun hærri en hjá öðrum sveitarfélögum.

félagsþjónusta og menningarmál of dýr

Vitnað er í Árbók sveitarfélaga 2024 þar sem birtar eru upplýsingar um rekstur og efnahag sveitarfélaganna. Þar má sjá að af sveitarfélögum með yfir 10.000 íbúa, var kostnaður Reykjavíkurborgar 381.000 kr. á íbúa árið 2023 og Akureyrarbæjar 359.000 kr. á hvern íbúa sama ár. Næstu tvö sveitarfélög eru með um 314.000 kr. eða minna.
Kostnaður Akureyrarbæjar vegna menningarmála á hvern íbúa árið 2023 var um 57.000 kr. á hvern íbúa og Reykjavíkurborgar um 44.000 kr. Næst á eftir þeim koma sveitarfélög með á bilinu 21–28.000 kr. á íbúa og önnur minna.

Þá er vísað til þess að verkefni sem kemur í hlut borgarinnar en ekki nágrannasveitarfélaga, sé „að reka gistiskýli, og sækja íbúar nágrannasveitarfélaga þá þjónustu. Kostnaður við rekstur gistiskýlisins var um 520 millj. kr. að teknu tilliti til tekna árið 2024. Þá hafi heildarkostnaður Reykjavíkurborgar vegna heimilislausra einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir verið um 1,2 milljarðar kr. árið 2024.“

Auglýsing
Auglýsing

Ísafjarðarbær: útboð í upplýsingatækniþjónustu 16% undir kostnaðaráætlun

Snerpa var lægstbjóðandi í netrekstur.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að taka lægsta tilboði í hvern þriggja þátta í upplýsingatækniþjónustu til næstu þriggja ára.

Samtals eru tilboðin 103 m.kr. á tímabilinu. Kostnaðaráætlun var 122 m.kr. og eru því tilboðin 16% undir áætluninni.

Í minnisblaði verkefnisstjóra og bæjarritara til bæjarráðs kemur fram að mánaðarlegur kostnaður geti lækkað í 2.859.772 kr., sem samsvarar um 50,2% lækkun frá stöðunni í maí 2024 þegar hann nam 5.743.909 kr. Ávinningurinn byggir ekki einungis á útboðsferlinu, heldur á stöðugri kostnaðargreiningu, endurmati á þjónustuþörf og fækkun verkefna sem krefjast utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar segir í minnisblaðinu. Ef samningsforsendur ganga eftir er heildarhagræðing metin á tæplega 35 milljónir króna á ársgrundvelli.

Origo, Snerpa og Advanina lægstbjóðendur

Óskað var eftir tilboðum og auglýst á TED, auglýsingavettvangi Evrópusambandsins og
utbodsvefur.is í eftirfarandi þjónustuliði:
a) Fjar- og vettvangþjónustu
b) Hýsingar– og rekstrarþjónusta
c) Netrekstur

Auglýsing
Auglýsing

Daníel Jakobsson ráðinn forstjóri Arctic Fish

Arctic Fish hefur ráðið Daníel Jakobsson sem forstjóra frá og með 1. maí 2025.

Daníel hefur gegnt stjórnunarstöðu hjá Arctic Fish frá árinu 2021 og veitt viðskiptaþróun fyrirtækisins forstöðu en á þeim tíma hefur hann öðlast yfirgripsmikla þekkingu á starfsemi og stefnu fyrirtækisins. Leiðtogahæfileikar hans, sérfræðiþekking og djúpar rætur í samfélaginu á Vestfjörðum gera hann vel til þess fallinn að leiða fyrirtækið í því vaxtarskeiði sem framundan er hjá Arctic Fish segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Øyvind Oaland, stjórnarformaður Arctic Fish:

Við erum mjög ánægð með ráðningu Daníels. Laxeldi á Íslandi er enn ung atvinnugrein og lykillinn að áframhaldandi árangri veltur á framúrskarandi starfsemi sem byggir á öflugri dýravelferð, ábyrgri umhverfisstefnu og traustum fjárhag ásamt öryggi og velferð starfsfólks. Daníel hefur víðtæka þekkingu á allri starfsemi fyrirtækisins og verður með starfsstöð á Ísafirði.

Ákvörðun stjórnar Arctic Fish að ráða úr röðum starfsmanna fyrirtækisins varpar ljósi á það markmið að starfsþróun sé grunnurinn að vexti fyrirtækisins til framtíðar.

Daníel Jakobsson, nýr forstjóri Arctic Fish:

Arctic Fish gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnulífi Vestfjarða við framleiðslu á heilsusamlegri fæðu, í sátt við samfélag og umhverfi. Laxeldi hefur þegar markverð áhrif á útflutningstekjur Íslands og mikil tækifæri eru framundan. Ég er því mjög spenntur að halda áfram á þessari vegferð og þróa enn frekar samkeppnishæfa, framsækna og sjálfbæra starfsemi með öflugum hópi starfsfólks Arctic Fish.“

Daníel tekur við af Stein Ove Tveiten, sem verður áfram til ráðgjafar hjá fyrirtækinu til 1. júní nk. til að tryggja farsæla yfirfærslu verkefna.

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir